Manneskjan hefur djúpstæða andlega þörf. Þetta sést best á því að í gegnum alla mannkynssöguna hefur hún reist sér tilbeiðslustaði og stundað andlega leit og trúarlega rækt.
En það er líka orðinn til stækkandi hópur nútímafólks sem finnst að þeirra andlegu þörf sé ekki fyllilega mætt af trúarlegum stofnunum, með tilheyrandi andlegri br***stíflugremju. En ef það er rétt, að til sé orðinn hópur afundinna elskhuga sem finna þorsta sínum ekki svalað, hvað er þá til ráða?
Augljósast væri auðvitað að hvetja fólk til að taka ábyrgð á sinni eigin andlegu leit og finna sín eigin svör í visku- og trúarhefðum veraldarinnar. Við berum enda ábyrgð á sjálfum okkur og andlegheit útheimta iðkun og ræktun rétt eins og hvað annað sem á að bera ávöxt. Það gerir þetta engin fyrir þig, hvorki mamma, pabbi né Þjóðkirkjan. En það er ekki fyllilega sanngjarnt að vísa fólki eingöngu á eigin krafta og hyggjuvit. Ég held að mörg okkar séu, fyrst og fremst, eins og unglingur á kynþroskaskeiði, ringluð með hvað þau eigi að gera með þessa andlegu þörf sína og án hjálplegra leiðarvísa. Trúarlegar stofnanir, þar á meðal Þjóðkirkjan, hljóta því að sama skapi að spyrja hvernig þær geti vísað fólki áfram veginn.
Viðbrögð
Stofnanir hefðbundinna trúarbragða hafa ekki farið varhluta af því að stækkandi hópur finnur sig ekki fullkomlega innan þess sem þær hafa upp á að bjóða. Þjóðkirkjan tekur til dæmis eftir því að margt fólk, líka margt ákaft Þjóðkirkjufólk, dregur litla næringu úr því sem því er boðið upp á í kirkjum þeirra. Sumum finnst þannig leiðinlegt í messu og segja það hreint út. Prestar og annað starfsfólk kirkjunnar reyna að bregðast við en það eina sem þeim dettur í hug er að reyna að „létta stemninguna“ og bjóða upp á „popp-messur.“ En þetta viðbragð til að þóknast leiðindum fólks er ekki endilega rétta viðbragðið. Stundum er það brjóstumkennanlegt. Viðbrögð íhaldsmannsins sem er orðinn gramur út í höfnun samtímans og gerir því ekkert til að mæta honum og viðbrögð frjálslynda prestsins sem gerir hvað sem er fyrir viðtekt eru gölluð á sama hátt. Bæði íhaldspresturinn og hinn frjálslyndi eru í sjálfvirku viðbragði gagnvart samtíma sínum sem lýsir skorti á sjálfstrausti og vitund um eigið erindi. Ástæðan er að einhvers staðar gleymdi fólk innan trúarlegra stofnana að spyrja: „Af hverjum byrjuðum við á þessu?“ „Af hverju varð þessi grasrótarhreyfing og þessi stofnun til?“ „Hvert er okkar erindi?“ Kannski gleymdi það jafnvel sinni eigin andlegu leit og rækt. Og á meðan beðið er svara við þessum spurningum þá bjóða trúarstofnanir og samtök upp á mis-veikluleg andsvör við raunverulegri þörf fólks fyrir að rækta sinn andlega mann og sinna sinni trúarlegu leit.
Iðkanir
Innst inni þá virðist góður hluti almennings skilja þetta. Þess vegna er fólk núna komið út um allar koppagrundir að iðka jóga, hugleiðslu, gjörhygli og núvitund. Fólk er að leita innri göfgunar og andlegrar og trúarlegrar tengingar. Ef það finnur það ekki hjá hefðbundnum stofnunum og samfélögum þá kýs það bara með fótunum og fer annað. Ekki þar fyrir að kirkjan á aragrúa af svipuðum iðkunum á sínum lager. Þær eru bara alltof sjaldan dregnar fram í okkar lútersku Þjóðkirkju. Kristileg íhugun, taize-söngvar, kristilegar möntrur, hin forna Jesú-bæn, kristileg hugleiðsla, fyrirbænir, fagnaðarbæn, þakklætisiðkanir og biblíuleg íhugun. Hin mystíska íhugunarhefð kristindómsins stendur tilbúin og vel staðsett til að tappað sé af brunnum hennar. Íhugunarhefðin er, líkt og samtíminn, ekki upptekin af smámunasömum formum og hún tapar sér aldrei í trúarsetningastagli og kenningablaðri. Hún fer ekki í kringum hlutina heldur beint inn í trúarlegu reynsluna, inn í kraftmiklar umbreytandi iðkanir sem vísindin eru byrjuð að sýna að hafa jákvæð áhrif á fólk í þeirra daglegu störfum. Það sem meira er: Hún gerir ráð fyrir að fólk taki ábyrgð á eigin trúariðkun og sýni sjálfstæða innri virkni. Og það sama gildir um íhugunarhefðir allra annarra trúarbragða.
Það sem ég er að segja er því þrennt:
Í fyrsta lagi þá þarf fólk að taka ábyrgð á sér sjálft og gerast virkir andlegir iðkendur ef það á annað borð þráir andlega svölun og innri göfgun.
Í öðru lagi þá eru íhugunarhefðir trúarbragðanna og kirkjunnar gullnáma iðkana sem einstaklingar, trúarsamtök og Þjóðkirkjan geta notað til þess að hjálpa fólki að fá þá andlegu næringu sem við flest þráum.
Í þriðja lagi þá vil ég bæta einu við. Orðið Þjóðkirkja er orðið gamalt orð. En það merkir í raun almannakirkja. Kirkja fyrir alla. Kirkja með lága þröskulda, hátt til lofts og vítt til veggja. Kirkja þar sem allir eru velkomnir hvort sem þeir hafa litla trú eða mikla; kirkja sem veitir hverjum og einum möguleika á að fikra sig áfram eftir sínu eigin reipi. Þjóðkirkjan getur, ef hún vill, verið vettvangur þar sem fólk getur komið með fjölbreyttar aðferðir úr fjölbreyttum hefðum. Hún getur verið vettvangur fyrir trúarlega leit. Og þrátt fyrir að kristin trúarhefð hljóti að vera í stafni hjá stofnun sem kallast kirkja þá getur hún auðveldlega búið til rými þar sem við öll getum fengið pláss til að vaxa andlega á okkar eigin hraða og á okkar eigin forsendum. Það væri Þjóðkirkjuhugsjón fyrir 21. öldina!
En þetta gildir auðvitað bara ef Þjóðkirkjan vill eiga allskonar elskhuga.