Allt stefnir í RÚV muni ekki fá jafn mikið fé á næsta ári, eins og Illugi Gunnarsson, mennta- og menningarmálaráðherra, hefur talað fyrir. Útvarpsgjaldið mun lækka í 16.400 krónur, í stað þess að vera 17.800 krónur. Þetta þýðir mörg hundruð milljóna króna niðurskurð hjá RÚV, sem mun bitna ekki síst á íslensku menningarefni.
Margt hefur verið skrifað um mikilvægi RÚV að undanförnu, meðal annars á vef Kjarnans. Óþarfi er að fara rækilega yfir þau skrif að þessu sinni, en tvö atriði eru umhugsunarverð, í ljósi stöðunnar nú.
Í fyrsta lagi er það vanvirðing hjá ríkisstjórninni við RÚV sem stofnun, að standa í þessum aðgerðum, í miklum ágreiningi við stjórn, stjórnendur og starfsfólk, auk fagráðherrans, á þessum tímapunkti. Það er endurskipulagningarstarf í gangi, sem hefur skilað árangri, og ákveðnar forsendur liggja fyrir langtímaáætlunum sem Illugi hafði sjálfur lagt upp. Ekki er því annað að sjá en að þetta sé fyrst og fremst pólitísk aðgerð gagnvart ríkisfjölmiðlinum, þar sem valtað er að yfir fagráðuneytið sem fer með málaflokkinn, og sjónarmið andstæðinga ríkisfjölmiðilsins látin ráða ferðinni. Þetta er mikið umhugsunarefni.
Í öðru lagi er það síðan meiriháttar mislestur á aðstæðum hjá ríkisstjórninni, að halda að þessi ákvörðun gagnvart RÚV sé vinsælda fallin eða í takt við vilja meginþorra almennings. Svo er ekki, ef marka má kannanir þar sem hugur fólks til RÚV hefur verið kannaður. Það sama má segja um menningarlífið á Íslandi almennt, sem hefur sýnt mikla samstöðu gagnvart þessum áformum að undanförnu. Þar hljóma hinar ýmsu raddir og misjöfn sýn á pólitíska kvarða. En samstaðan gegn áformum um niðurskurð gagnvart RÚV er algjör.
Þetta gæti komið harkalega í bakið á ríkisstjórninni.