Uppgjörið við hið einstaka íslenska bankahrun, þar sem stærstur hluti bankakerfis þjóðarinnar féll eins og spilaborg dagana 7. til 9. október 2008, er nú rekið í mörgum málum fyrir dómstólum. Hæstiréttur hefur sakfellt í sex stórum hrunmálum af þeim sjö sem inn á borð hans hafa komið, en sýknað var í hinu svokallaða Vafningsmáli. Þungir dómar hafa fallið, enda upphæðirnar sem um ræðir algjörlega án fordæma í íslenskri réttarsögu.
Í gær féll dómur í Héraðsdómi Reykjavíkur í hinu svokallaða Stím-máli þar sem Lárus Welding, fyrrverandi forstjóri Glitnis, Jóhannes Baldursson, fyrrverandi framkvæmdastjóri markaðsviðskipta Glitnis, og Þorvaldur Lúðvík Sigurjónsson, fyrrverandi forstjóri Sögu Capital, voru dæmdir sekir. Lárus fékk fimm ára dóm, Jóhannes tveggja ára og Þorvaldur Lúðvík átján mánaða.
Líklegt má telja að þessum dómum verði áfrýjað til Hæstaréttar, og hefur einn þeirra dæmdu, Þorvaldur Lúðvík, þegar gefið það út.
Eitt í þessu máli er athyglisvert og mikið umhugsunarefni. Magnús Pálmi Örnólfsson, fyrrverandi starfsmaður Glitnis og yfirmaður eigin viðskipta bankans, er einn tveggja manna sem hefur fengið réttarvernd gegn ákæru þar sem fyrirliggjandi upplýsingar benda til þess að þeir hafi brotið af sér, gegn því að veita saksóknara upplýsingar sem styrki málatilbúnað hans. Réttarverndin byggir á svonefndu uppljóstraraákvæði í lögum frá árinu 2008.
Í dómi héraðsdóms er á það bent að Magnús Pálmi hafi við fyrstu yfirheyrslur í málinu sagt, að hann hefði einn tekið ákvörðun um kaup á skuldabréfi Sögu Capital, sem eru lykilviðskipti í málinu. Síðan breytir hann framburði sínum. Í dómnum segir um þetta: „Líta verður til þess að á því stigi hafði lögregla kynnt honum gögn sem þóttu leiða í ljós sekt [Magnúsar Pálma]. Á því stigi hafði lögreglan jafnframt kynnt honum þá tilgátu að til hafi komið þrýstingur frá yfirmanni hans um að samþykkja kaupin. Svo sem hér greinir hefur [Magnús Pálmi] orðið missaga undir meðförum málsins. Dómurinn telur að skoða verði framburð [Magnúsar Pálma] í þessu ljósi sem og sönnunargildi framburðar hans."
Þetta er það sem er umhugsunarefni yfirleitt í dómsmálum.
Hvenær er hægt að leyfa mönnum að semja sig frá ákærum? Þetta eru alvarleg mál, og ljóst er í þessu tiltekna máli, að Magnús Pálmi er inn í hringamiðju ákvarðana og kemur að þeim beint.
Það hlýtur að vera afar viðkvæmt í málum sem þessum - og reyndar í dómsmálum yfirleitt - að geta komið sér undan réttvísinni. Allir verða að vera jafnir fyrir lögunum, er réttarheimspeki sem er grundvallaratriði í réttarríki. Þegar menn koma sér undan ákærum með samningum við saksóknara, þá er byrjað að feta afar viðkvæma braut, svo ekki sé fastar að orði kveðið.
Sá sem þetta skrifar telur að þetta eigi ekki að vera hægt, það er að afbrotamenn geti samið sig frá ákærum, enda á eitt yfir alla að ganga þegar alvarleg brot eru rannsökuð og þeim síðan skotið inn á borð dómstóla. Þeir meta svo hvað er rétt og rangt, miðað við laganna bókstaf.