Góðir hlutir gerast hægt, er stundum sagt. Ekki er hægt að segja annað en að það eigi við um samkomulagið sem Japan og Suður-Kórea hafa gert, vegna óhuggulegra glæpa gegn konum frá Suður-Kóreu og fleiri ríkjum, þegar um 200 þúsund konur voru neyddar í kynlífsþrælkun.
Shinzo Abe, forsætisráðherra Japans, hefur nú formlega beðist afsökunar á þessum hrikalegu atburðum en tugþúsundir kvenna frá Suður-Kóreu voru á meðal þeirra sem hnepptar voru í kynlífsánauð. Abe hefur samþykkt að greiða ríflega einn milljarð króna í bætur vegna þessa, en aðeins 46 konur af þeim sem hnepptar voru í ánauð eru enn á lífi.
Eftir áratuga deilur hefur þetta mál verið til lykta leitt á hinu pólitíska sviði. Tjónið vegna þessara ömurlegu glæpa gegn konum er óbætanlegt, en það er gott að málin hafa ekki gleymst. Það er aldrei of seint að leita sátta þegar harmleikir sem þessir eru annars vegar og mikilvægt fyrir komandi kynslóðir.
Það er betra seint en aldrei.