Nú er árið 2016 gengið í garð og völvur dagblaðanna byrjaðar að spá fyrir um atburði sem ómögulegt er sjá fyrir, svo sem afdrif ýmissa stjórnmálamanna og jafnvel náttúruhamfarir. Sumir atburðir munu þó óumflýjanlega gerast á árinu, eða að minnsta kosti líklega gerast. Hér eru tíu af þeim helstu.
10. Hæsta íbúðarhúsnæði heims rís í Indlandi
Bygging íbúðarturnsins World One hófst í Mumbai árið 2011 og eru áætluð verklok á þessu ári. Þegar hafa 108 af 117 hæðum turnsins verið reistar og þegar hann verður fullkláraður mun hann vera 442 metrar á hæð, 17 metrum hærri en núverandi hæsta íbúðarbygging heims sem stendur í New York. Turninn mun hýsa meira en 300 lúxusíbúðir sem stílaðar eru inn á nýríka Indverja. Ódýrustu íbúðirnar verða seldar á rúmlega 250 milljónir króna. Í turninum verða m.a. sundlaugar, heilsuræktarstöð og krikkettvöllur. Íbúðirnar sjálfar eru svo hannaðar af sjálfum Giorgio Armani.World One verður því lýsandi minnismerki um hinn mikla efnahagsuppgang sem verið hefur í Indlandi á seinustu árum. Indverjar munu þó ekki halda þessu meti lengi því að á Manhattan er verið að reisa enn hærra íbúðarhúsnæði, Central Park Tower, sem verður fullklárað árið 2018 eða 2019.
9. Forval Demókrata og Repúblíkana
Frambjóðendur hinna tveggja amerísku stjórnmálarisa hafa verið að gera sig gilda allt seinasta ár. Fjölmargir hafa boðið sig fram og sumir hætt við, aðrir gætu ennþá bæst við. Rásmarkið í þessu langhlaupi er þó 1. febrúar árið 2016 þegar fyrsta forvalið verður haldið í Iowa-fylki að venju. Síðan fylgja hin fylkin hvert á fætur öðru út vorið og fram í júní og loks er sigurvegarar formlega staðfestir á flokksþingunum í júlí. 1. mars er hinn svokallaði ofur-þriðjudagur þar sem fjölmörg ríki halda sín forvöl og þá gæti það ráðist hverjir verða frambjóðendur. Hjá Demókrötum má búast við einvígi milli Hilllary Clinton og Bernie Sanders, en Clinton tapaði eftirminnilega fyrir Barack Obama í jöfnu forvali fyrir 8 árum síðan. Staðan er mun óljósari hjá Repúblíkönum, þar sem mun fleiri sækjast eftir tilnefningunni. Marco Rubio, Ted Cruz, Jeb Bush, Chris Christie og Donald Trump þykja líklegastir eins og er.
8. Hið stóra Evrópumót smáþjóðanna
Evrópumeistarmót karla í knattspyrnu verður haldið 10. júní til 10. júlí í Frakklandi. Þetta verður langstærsta EM sögunnar með alls 24 liðum. Til samanburðar má nefna að þegar mótið var haldið í fyrsta skiptið árið 1960, einmitt í Frakklandi, þá voru einungis fjögur lið sem kepptu og á einungis sex dögum. Það sem hefur vakið mesta athygli við EM 2016 er sá fjöldi smáþjóða sem tryggði sér þáttökurétt. Fimm þjóðir (Norður-Írar, Wales-verjar, Slóvakar, Albanir og auðvitað Íslendingar) eru að spila á Evrópumóti í fyrsta sinn. Á meðan sitja fyrrum Evrópumeistararnir Hollendingar, Danir og Grikkir heima. Í ljósi hryðjuverkaárásanna í Frakklandi 2015, þar sem eitt skotmarkið var knattspyrnuvöllur, má búast við stóraukinni öryggisgæslu í kringum mótið. Vænta má þó að framkvæmd mótsins verði hin glæsilegasta.
7. Kínverjar byggja lengstu neðansjávargöng heims
Kínverska ríkisstjórnin áætlar að hefja byggingu neðansjávargangna í Bohai-sundi á þessu ári. Göngin munu liggja milli borganna Yantai og Dalian í norðurhluta landsins, ekki langt frá Kóreuskaga og munu þau leysa af hólmi ferju sem tekur um átta klukkustundir að fara á milli staðanna. Landleiðin milli borganna er um 1400 kílómetrar. Göngin sjálf munu verða um 123 kílómetra löng og bygging þeirra mun sennilega taka áratug. Til samanburðar má nefna að Ermasundsgöngin, núverandi lengstu neðansjávargöng heims, eru um 50 kílómetra löng og Hvalfjarðargöngin eru tæpir 6 kílómetrar. Kostnaðurinn við göngin er áætlaður rúmlega 4000 milljarðar. Fólk mun þó ekki geta keyrt sjálft í gegnum Bohai-sundsgöngin heldur verða þau tengd við lestarkerfi landsins og verða bílar keyrðir í gegnum þau á vögnum.
6. Ár Shakespeare
Þann 23. apríl verða liðin 400 ár síðan William Shakespeare, frægasta skáld sögunnar, lést. Honum til heiðurs verða fjölmargir viðburðir haldnir í 140 löndum. Stærstu viðburðirnir verða haldnir í Lundúnum þar sem King´s College háskólinn hefur yfirumsjón með afmælinu. Einnig verður sérstök viðhöfn í Stratford-upon-Avon, heimabæ skáldsins þar sem leikhús hans stendur. Meðal viðburða má nefna leikhúsuppfærslur, útvarpsleikrit, sögusýningar, kvikmyndir, heimildarmyndir, þætti, fyrirlestra, danssýningar, tónleika, ráðstefnur og margt fleira sem auðvitað er allt byggt á verkum meistarans. Sería af verkum hans verður svo gefin út í nútímaútgáfum þar sem margir af þekktustu núlifandi rithöfundum heims skrifa sögurnar á sinn hátt. Má þar nefna Margaret Atwood, Anne Tyler og Jo Nesbö. Afmælið og viðburðirnir verða notaðir til þess að vekja vitund á menntunarskorti og ólæsi víða um heim.
5. Rússar hefja hótelrekstur í geimnum
Á sjötta og sjöunda áratug seinustu aldar voru Sovétmenn fremstir allra í könnun geimsins. Þeir sendu fyrstu geimflaugina á loft (Spútnik), fyrsta dýrið (tíkin Laika), fyrsta manninn (Yuri Gagarin) og lentu geimflaug á Venusi (Venera 4). Síðan þá hafa Sovétmenn og seinna Rússar dregist verulega aftur í geimrannsóknum. Árið 2010 ákváðu Rússar að hleypa lífi í geimáætlun sína með auknu einkaframtaki. Í ár mun rússneska fyrirtækið Orbital Technologies senda á sporbaug hótel í geimnum sem byggt er á hinum þekktu Soyuz geimflaugum. Hótelið getur tekið við sjö gestum í senn og fimm daga dvöl mun kosta um 130 milljónir króna. Langstærsti hluti verðsins er ferðalagið til og frá flauginni. Dvölin á hótelinu verður þó langt því frá þægileg. Gestir þurfa að ljúka þriggja mánaða þjálfun áður en þeir halda á stað og hótelið sjálft verður þröngt og lítið um lúxus. Það verður þó a.m.k. hægt að komast á netið.
4. Ólympíuleikarnir í Ríó
Í lok sumars verða ólympíuleikarnir haldnir í fyrsta skiptið í Suður Ameríku, nánar tiltekið í brasilísku hafnarborginni Rio de Janeiro. Eins og venjan er standa leikarnir yfir í tæplega þrjár vikur og keppt verður í ótal greinum. Ýmis áhyggjuefni hafa fylgt þeirri ákvörðun ólympíunefndarinnar að veita borginni leikana. Glæpatíðni í borginni er mjög há, innviðum er ábótavant, mengun er mikil, uppbygging íþróttamannvirkja hefur gengið hægar en vonast var eftir og álit almennings hefur verið neikvætt gagnvart leikunum. Brasilísk stjórnvöld hafa þó heitið því að allt verði orðið ásættanlegt þegar leikarnir verða settir þann 5. ágúst. Stærsta spurningin varðandi leikana er þó hvort að rússneskir frjálsíþróttamenn fái að taka þátt eftir að Alþjóða frjálsíþróttasambandið setti þá í bann eftir mikinn lyfjaskandal þar í landi. Hvað sem verður má þó fastlega búast við að ólympíuleikarnir verði mikil veisla fyrir áhorfendur.
3. Bandaríski herinn yfirgefur Afghanistan
Þann 7. október árið 2001 hófst innrás Bandaríkjamanna og bandamanna þeirra inn í Afghanistan. Kveikjan að stríðinu var sú að Talíbanastjórnin þar í landi hafði neitað að framselja Osama bin Laden eftir hryðjuverkaárásinar þann 11. september. Auðveldlega gekk að steypa Talíbanastjórninni og koma á vinveittri stjórn, leidda af forsetanum Hamid Karzai. Erfiðara gekk að uppræta Talíbana og aðra hópa islamista í víðfemu og hálendu dreifbýli landsins. Karzai var því á sinni 13 ára valdatíð iðulega uppnefndur „borgarstjórinn í Kabúl”. Óljóst er hversu margir hafa fallið í stríðinu en það eru a.m.k. 50 þúsund manns, þar á meðal bin Laden sjálfur. Obama Bandaríkjaforseti hóf að fækka í herliðinu árið 2012 og einungis nokkur þúsund hermenn eru eftir. Það verða þó mikil tímamót þegar 15 ára hersetu lýkur í lok ársins.
2. Flóttamannavetur
Það hefur varla farið framhjá neinum að hundruðir þúsunda flóttamanna eru dreifðir víða um Evrópu um þessar mundir, flestir að flýja stríðsátökin í Sýrlandi. Nú þegar skollinn er á vetur verður þessi vandi ennþá meira aðkallandi þar sem margt fólk á í engin hús að vernda og hætta á að fólk verði úti, sérstaklega í kuldanum í Austur-Evrópu. Aðgerðarleysi og deilur leiðtoga Evrópu hafa hamlað því að hægt sé að leysa þennan vanda og nú stefnir í óefni. Flóttamannahjálp Sameinuðu Þjóðanna hefur reynt að bregðast við þessum vanda með því að dreifa pökkum sem m.a. innihalda svefnpoka, hlý föt, teppi og fleira en fregnir berast af því að flóttamenn jafnvel berjist innbyrðis um nauðsynjar. Í auknum kulda hrakar heilsu fólks ört og hætta er á dauðsföllum t.d. vegna lungnabólgu. Ef líkin fara að hrannast upp er einnig hætta á farsóttum. Leiðtogar Evrópu hafa því ekki endalausan tíma til að rífast, aðgerða er krafist strax.
1. Forsetakosningar í Bandaríkjunum
Árið 2016 verður það seinasta sem Barack Obama situr sem Bandaríkjaforseti. Þann 8. nóvember ganga Bandaríkjamenn að kjörborðinu og velja arftaka hans. Óljóst er hverjir verða frambjóðendur tveggja flokkanna stóru en eins og er þykir líklegra að Demókratarnir haldi hvíta húsinu heldur en að Repúblíkanarnir vinni það, sérstaklega ef Hillary Clinton verður frambjóðandi þeirra. Ljóst er þó að kosningarnar verða spennandi eins og undanfarnar kosningar hafa verið, tími hinna risavöxnu sigra er löngu liðinn. Samhliða forsetakosningunum er kosið til beggja þingdeilda, þar sem Repúblíkanar hafa meirihluta. Þegar Obama var fyrst kosinn árið 2008 fleytti hann mörgum Demókrataþingmönnum inn með sér en síðan hafa Repúblíkanar sótt í sig veðrið. Mun 2016 verða árið þar sem Bandaríkjamenn kjósa konu sem forseta í fyrsta sinn?