Það eru mikil tíðindi að Ólafur Ragnar Grímsson ætli sér ekki bjóða sig fram til áframhaldandi starfa sem forseti Íslands, en kosið verður 25. júní næstkomandi.
Nú tekur við stutt en skörp kosningabarátta. Í ljósi þess hvernig forsetaembættið er nú, eftir að Ólafur Ragnar virkjaði málskotsréttinn í 26. grein stjórnarskrárinnar, þá má gera ráð fyrir að stjórnmálaflokkarnir reyni að koma fram með fulltrúa sem eru þeim þóknanlegir, eða geti hjálpað til við að koma stefnumálum þeirra á framfæri.
Það er alls ekki ólíklegt, að kosningabaráttan muni þróast með þeim hætti. Spennandi verður að sjá á næstu mánuðum hvaða einstaklingar munu bjóða sig fram til embættis forseta Íslands. Segja má að teningunum hafi verið kastað, og nú þurfa þeir sem áhuga hafa á embættinu að hafa hraðar hendur í skipulagningu kosningabaráttunnar. Hálft ár telst ekki langur tími til þess að móta sýn á embættið og fyrir hvað það stendur.