Sleppum leiðinlegu spurningunni í fyrirsögninni.
Gerum í staðinn ráð fyrir að túristabólan sé undantekningin. Sem sannar regluna um Íslenskar efnahagsbólur. Eins og laxeldið, loðdýraræktina, „útrásina“ og svo framvegis. Bólur sem risu eins og sólin og sigu eins og pönnukökur. Af „ófyrirsjáanlegum“ orsökum.
Með öðrum orðum: Gerum ráð fyrir að masstúrisminn sé kominn til að vera. Þá er eiginlega bara tímaspursmál hvenær þriggja og fimm miljóna (túrista) múrinn verður rofinn.
Það kallar aftur á ýmsar hugleiðingar. Efnahagsbólur einkennast af ýmsu. Erfitt er að sanna tilvist þeirra fyrr en þær eru yfirstaðnar. Þær eru einstakar í háblóma sínum, og teljast sjálfbærar þar til þær springa. Fyrst þá verða þær opinberlega að bólum. Annað einkenni er auðþekktara. Það er hjarðhegðun fjárfesta á viðkomandi tímabili.
Í þenslunni fyrir 2008 varð mikil bólumyndun á húsnæðis og byggingarmarkaði. Minnismerkin frá þeim tíma eru m.a. risastórar turnbyggingar hér og þar í borgarlandinu. Mannvirkin minna á söguna um Gúllíver í Putalandi. Glermusteri þessi eru í hrópandi ósamræmi við nærumhverfi sitt. Þessar byggingar áttu að þjóna sívaxandi þörf í fjármálastarfsemi landsins. Félögum með „Group“ í nafninu.
Ein stærsta skrifstofubygging landsins er frá þessu tímabili. Hún stendur enn ónotuð við Urriðahvarf efst í Kópavogi. Bygging hennar hófst fyrir 2008. Hún hefur því staðið tóm uppundir áratug. Flatarmálið mun vera um 14.000 fm. Byggingarkostnaður þessa eina mannvirkis samsvarar líklega 6 til 7 íbúðarblokkum með yfir 100 smáíbúðum fyrir almenning á höfuðborgarsvæðinu.
Ekki fylgir sögunni hve miklu fé bankar og lífeyrissjóðir landsmanna töpuðu vegna skrifstofubygginga af ofangreindu tagi. Sem döguðu uppi eins og náttröll í borgarlandinu eftir hrun. Ljóst er þó að tapið nemur stjarnfræðilegum upphæðum. Fyrir samsvarandi fjármagn mætti líklega byggja borgarhverfi á borð við Breiðholt með ódýrum íbúðum fyrir almenning.
Að minnsta kosti fræðilega séð hefði þannig ráðstöfun haft margvíslegan samfélagslegan ávinning í för með sér. Og líklega mun minna tap fyrir lífeyrissjóði landsmanna en tómar glerbyggingar. Almenningur þarf jú alltaf þak yfir höfuðið. Að lífeyrissjóðir eigi og reki íbúðir fyrir félagsmenn sína er vel þekkt erlendis sem áhættulítið fjárfestingarform samsvarandi samtaka.
Í núverandi ástandi virðist jafn óhugsandi fyrir lífeyrissjóði og aðra fjárfesta að byggja og reka ódýrar almenningsíbúðir eins og fyrir hrun. Og jafn sjálfsagt er fyrir sömu aðila að byggja samskonar turna og fyrir hrun. Á ferskum kennitölum. Að þessu sinni í formi hótelbygginga fyrir túrista.
Íslenskur almenningur og þörf hans fyrir ódýrt húsnæði er eftir sem áður afgangsstærð.
Að þessu leyti er landslagið á byggingarmarkaði glettilega líkt háblóma þenslunnar fyrir 2008. Sama hjarðhegðun, sömu byggingarkranar, samskonar glerturnar, sama bóla?
Ef núverandi ástand er undantekningin sem sannar regluna er ýmsum spurningum ósvarað.
Ein sú stærsta er þessi: Hvar á forsendan fyrir massatúrismanum að búa?
Íslenska túristaheilkennið byggir á lágu gengi og ódýru vinnuafli. Inn í íslensku (ó)jöfnuna vantar alltaf ódýrt húsnæði fyrir vinnuaflið. Sem steikir kleinuhringina, býr um rúmin og ber töskurnar upp í turnana. Á lágum launum, oft undir 300 þúsund kall í veskið á mánuði. Hvar er meiningin að þetta fólk búi?
Nú þegar gleypir ferðamarkaðurinn megnið af lausu fjármagni og mannskap á byggingarmarkaði. Sama heilkenni tjakkar þannig upp fasteignaverð í þéttbýliskjörnum og yfirbýður almenning í leigu og fasteignaverði. Stærsta bakreikninginn fá leigjendur á íslandi. Stjórnvöld hafa frá hruni skilað auðu í málefnum þeirra. Lífeyrissjóðir í almenningseigu leika stórt hlutverk í núverandi atburðarás. Sem má að miklu leysi lýsa sem „Núll núll sjö, taka tvö".
Spurningin er hvar á almenningur á höfuðborgarsvæðinu að búa? Eftir að túristabólan hefur breytt obbanum af almenningsíbúðum í gistiheimili?
Eru iðnaðarhverfi, gámar og hjólhýsi nýja „Breiðholtið“ fyrir íslenska alþýðu ?