Íslensk stjórnvöld hafa ákveðið að framlengja fram til júlí refsiaðgerðir gagnvart Rússlandi vegna hernáms og innlimunar Krímskaga. Samtök fyrirtækja í sjávarútvegi hafa brugðist við og tekið aftur upp baráttu sína gegn þátttöku Íslands í þessum aðgerðum. Samtökin eru auðvitað í ömurlegri stöðu. Rússnesk stjórnvöld hafa tekið sjávarútveginn gíslingu og það er ömurlegt að vera gísl. En rétt eins og maður gengur ekki að öllum kröfum gíslatökumanna í von um að gíslinum verði sleppt ættu stjórnvöld ekki að aflétta refsiaðgerðunum einungis fyrir tilstilli sjávarútvegsins. Það er meira í húfi.
Áratugur íhlutana
Vísbendingarnar um aukin umsvif rússneskra stjórnvalda innan landamæra nágrannaríkja sinna á síðustu árum eru skýrar. Ef litið er yfir feril stjórnvalda í Moskvu í utanríkismálum á síðasta áratugi standa uppúr síalvarlegri inngrip þeirra í innanríkismálum fyrrum sovétlýðvelda.
Árið 2007 sauð upp úr í Eistlandi þegar þarlend stjórnvöld færðu minnisvarða um fallna sovéthermenn úr miðbæ Tallin á hermannagrafreit. Í kjölfarið blossuðu upp mestu óeirðir í landinu frá því það endurheimti sjálfstæði sitt árið 1991. Stjórnvöld í Kreml hafa lengi legið undir grun um að hafa átt þátt í því að sendiráð Eistlands í Moskvu var sett í herkví þegar á átökunum stóð og að netárásir voru gerðar á opinberar stofnanir, banka og fjölmiðla í Eistlandi.
Ári síðar gerði georgíski herinn gerði áhlaup á aðskilnaðarsinna í Suður Ossetíu héraði. Í kjölfarið streymdi rússneskur her, sem hafði verið við æfingar við landamæri Georgíu, inn í landið. Enn situr rússneskur her í tveimur héruðum landsins og lítið miðar í alþjóðlegum sáttaumleitunum.
Í byrjun árs 2014 spretta upp hulduhermenn á sjálfstjórnarhéraðinu Krímskaga í Úkraínu og leggja það undir sig án mannfalls. Skömmu síðar fellur gríman, Kremlherrar viðurkenna ábyrgð sína á hernáminu og innlima loks landsvæðið að lokinni vafasamri atkvæðagreiðslu meðal íbúa þess. Í kjölfarið brýst út borgarastríð í Úkraínu þar sem rússnesk stjórnvöld halda áfram að beita sér gegn fullveldi Úkraínu með stuðningi við aðskilnaðarsinna og beinni þátttöku í stríðsátökum. Á meðan öllu þessu stendur lýsir rússlandsforseti því yfir að Rússlandi beri skylda til að veita “samlöndum” vernd, hvar sem þeir kunni að vera búsettir. Með þessu er átt við rússneskumælandi íbúa þess sem í Rússlandi er almennt kallað hið nálæga útland, þ.e. fyrrum sovétlýðveldin.
Réttlætingarnar
Einhver kynni að mótæla þessari stuttu samantekt og segja að þar sem að georgíuher hóf sókn sína með stórskotaárás á þéttbýlil að nóttu til hafi Rússlandi beðið siðferðisskylda til að binda endi á átökin. Einnig hafi innlimun Krímskaga í Rússland hafi verið að vilja íbúa hans, auk þess sem að landið hafi tilheyrt rússlandi áður en það var veitt Úkraínu að gjöf á sjötta áratugnum.
Hvað hið fyrra varðar kann vera hægt að réttlæta íhlutuninni í Suður Ossetíu með einhvers konar siðferðissjónarmiðum. Þeim er hins vegar ekki hægt að beita í tengslum við samtíma innrás Rússlands í Abkasíu, annað aðskilnaðarhérað Georgíu þar sem engin átök áttu sér stað, né við viðvarandi hersetu í héruðunum eða áframhaldandi ögranir við vopnahléslínuna.
Varðandi Krímskaga er hæpið að telja að hægt sé að skipuleggja og halda frjálsar og lýðræðislegar kosningar um eins mikilvæga spurningu eins og hvaða ríki landsvæði skuli tilheyra á nokkrum vikum. Auk þess geta kosningar sem haldnar eru undir byssukjafti hernámsvalds tæpast kallast frjálsar og lýðræðislegar. Meira áhyggjuefni er þó spurningin hvort að réttmæta megi innlimunina á þeim rökum að Krímskagi hafi verið hluti af Rússlandi þar til fyrir 60 árum síðan.
Síðasta sumar lögðu tveir þingmenn ríkisstjórnarflokksins í Rússlandi, Sameinað Rússland, fram beiðni til ríkissaksóknara Rússlands að hann rannsakaði stjórnlagalegt lögmæti sjálfstæðisyfirlýsinga Eystrasaltsríkjanna í byrjun tíunda áratugarins. Beiðnin var auðvitað fáránleg og ríkissaksóknari afgreiddi hana samkvæmt því. En eftir stendur að í innan ríkisstjórnarflokksins eru þingmenn sem eru reiðubúnir að beita svipuðum lögmætisrökum og afsakamenn innlimunar Krímskaga beita, að landsvæðið tilheyri sögulega Rússlandi og að fullveldi þess sé til umræðu.
Víðari afleiðingar
Þremur árum eftir að Úkraína hlaut sjálfstæði árið 1991 undirrituðu forsetar Bandaríkjanna, Rússlands og Úkraínu, auk forsætisráðherra Bretlands, hið svokallaða Búdapestarsamkomulag af tilefni aðildar Úkraínu að Samningnum um bann við útbreiðslu kjarnorkuvopna (NPT). Aðild Úkraínu að NPT þýddi að ríkið afsalaði sér öllum þeim kjarnorkuvopnum sem það hafði erft frá Sovétríkjunum. Með undirritun samkomulagsins staðfestu leiðtogar Bandaríkjanna, Bretlands og Rússlands að þessi ríki myndu virða fullveldi og landamæri Úkraínu og að vopnum þeirra yrði ekki beitt gegn Úkraínu nema í sjálfsvörn og í samræmi við stofnsáttmála Sameinuðu þjóðanna. Forsetar Bandaríkjanna og Rússlands staðfestu þessar öryggistryggingar í lok árs 2009.
Fimm árum síðar voru þessar tryggingar ekki pappírsins virði. Lexían sem stjórnvöld í Kænugarði taka frá þessu er sú sama og stjórnvöld í Norður Kóreu hljóta líka að læra, ef þú átt kjarnorkuvopn þá heldurðu í þau. Samkomulagsrofið hefur því víðari afleiðingar en að grafa undan fullveldishugtakinu í Evrópu, það grefur undan tilraunum alþjóðasamfélagsins til að stemma stigu við útbreyðslu kjarnorku- og gereyðingarvopna. Það sýnir harðstjórum um allan heim að ef þeir eiga þess kost að koma sér upp gereyðingarvopnum þá er hann álitlegri til lengri tíma en að treysta á samninga við nágranna sína. þetta er skaðlegt fyrir aþjóðaöryggi og þetta er skaðlegt fyrir mannkynið allt.
Ný sókn
Átökin á Íslandi um refsiaðgerðirnar gagnvart Rússlandi eru skiljanlegar. Sama hvoru meginn menn standa við borðið eru miklir hagsmunir í húfi, efnahagslegir og hugmyndafræðilegir. Þessi mismunandi nálgun að vandamálinu kristallast í spurningu utanríkisráðherra í viðtali við Ríkisútvarpið Síðastliðinn þriðjudag um hvaða verðmiða menn væru tilbúnir að setja á fullveldi þjóðarinnar. Auðvitað er enginn reiðubúinn að svara þeirri spurningu vegna þess að hún er ósvaranleg. Það er um margt erfitt að ræða hugmyndafræði og fjárhagslega afkomu í einum vettvangi. Fulltrúar sjávarútvegsins geta þó huggað sig við það að refsiaðgerðirnar sem nú eru til staðar eru tengdar við framkvæmd Minks II samkomulagsins um lausn Úkraínudeilunnar. Þó að hún kunni að verða langvinn er sú deila ekki óleysanleg og rússlandsmarkaður mun opnast aftur.
Íslenskur sjávarútvegur er öflugur, á því leikur enginn vafi. Íslensk sjávarútvegsfyrirtæki eru í fremsta flokki á heimsvísu hvað varðar hugvit í fiskiðnaði. Þau hafa sýnt fram á það að sjálfbær nyt á fiskistofnum og gríðarlegur vöxtur í greininni geta farið saman. Þannig getur íslenskur sjávarútvegur með réttu litið á sig sem fordæmisgefandi fyrir skynsamlega nýtingu sjávarauðlinda. Því hugviti og krafti sem býr í greininni væri nú best beint í að finna nýja nýtingu á þeim afurðum sem ekki komast á rússlandsmarkað og í samvinnu með Íslandsstofu og utanríkisráðuneyti að vinna að opnun nýrra markaða. Ef það er eitthvað sem íslenskur sjávarútvegur hefur sýnt fram á á síðustu árum þá er það hæfileiki hans til að ryðja sér rúms erlendis. Það eru engar vísbendingar um að sá hæfileiki hafi glatast. Þannig tekst okkur að frelsa gíslinn.
Höfundur er stjórnmálafræðingur.