Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra kom inn á hið pólitíska svið, með umfjöllun um skipulagsmál, einkum á höfuðborgarsvæðinu, sem margir tengdu við og voru honum sammála um. Hann taldi skipulagsmál á höfuðborgarsvæðinu í miklum ólestri. Síðan þá hafa skipulagsmál oft verið honum mikið hjartans mál.
Að undanförnu hefur hann gagnrýnt ýmis mál er snúa að uppbyggingu í Reykjavík, og nú síðast fyrirhugaða uppbyggingu á svokölluðu Hafnartorgi. Hann telur hana vera „skipulagsslys“. Um þetta hafa Dagur B. Eggertsson borgarstjóri og Sigmundur Davíð deilt opinberlega undanfarna daga.
Alveg óháð því, hvernig málið hefur verið unnið til þessa - meðal annars í samvinnu ríkis og borgar á skipulagsstigi - þá er merkilegt að horfa á gagnrýni Sigmundar Davíðs út frá pólitískum vinkli. Þarna er komið mál, sem virðast hafa snertiflöt við fjölda fólks, þvert á flokkslínur. Skipulagsmálin eru og hafa verið hitamál, sitt sýnist hverjum þegar skipulag og arkitektúr eru annars vegar.
Framsóknarflokkurinn hefur upplifað mikið fylgissig frá því að flokkurinn vann mikinn kosningasigur, vorið 2013, með tæplega fjórðungsfylgi. Það mælist nú um tólf prósent.
Vel má hugsa sér, að Sigmundur Davíð muni reglulega gagnrýna Reykjavíkurborg fyrir skipulagsmálin, meðal annars vegna þess að það hrærir upp í umræðu um þau, og getur haft áhrif á fylgi við Framsóknarflokkinn til góðs fyrir flokkinn.