Á það var minnst ekki alls fyrir löngu, á þessum vettvangi, nokkuð væri enn í það að uppgjörinu við hið fordæmalaus hrun íslenska bankakerfisins, dagana 7. til 9. október 2008, lyki fyrir dómstólum. Um 28 mál eru enn til rannsóknar, og fjöldi mála er nú þegar á borði dómstóla, ýmist í héraði eða í Hæstarétti.
Dómarnir sem fallið hafa til þess eru einstakir í sögu íslensks réttarfars, enda aldrei fyrr verið sakfellt fyrir jafn alvarlega efnahagsbrotaglæpi eins og reyndin hefur verið í þeim málum þar sem ákærðu hafa hlotið margra ára dóma. Eru málin talin án alþjóðlegra fordæma, enda hafa ekki fundist nein dæmi erlendis um banka sem fjármögnuðu að minnsta kosti 30 til 50 prósent af eigin hlutafé sjálfir og lánuðu langsamlega mest til stærstu eigenda bankanna. Sumir virðast vera búnir að gleyma því, að frumgögn um þessa stöðu hafa fyrir löngu verið opinberuð og eru öllum aðgengileg.
Eitt er athyglistvert, í ljósi mikillar umræðu sem átti sér stað eftir hrunið, þegar gögn komu fram um það, að stjórnendur og stjórn Kaupþings felldu niður persónulegar ábyrgðir starfsmanna bankans á tugmilljarða skuldum þeirra á stjórnarfundi í september 2008, rétt fyrir fall bankans.
Það er vel hugsanlegt að ákvörðunin um niðurfellinguna á ábyrgðum bankamannanna feli í sér umboðssvik samkvæmt lögum, og dómum sem þegar eru fallnir. Í reynd virðist þetta skýrar í þessu tilviki en í mörgum öðrum, þar sem fjártjónshættan af því að fella niður ábyrgðirnar er augljós, og persónulegur ávinningur þeirra sem skulduðu - sem í sumum tilvikum voru þeir sömu og tóku ákvarðanir um að fella ábyrgðirnar niður - er einnig augljós. Það er jú gott að losna við að bera ábyrgð á skuldunum.
Í mörg ár hafa síðan verið rakin mál, þar sem þessum gjörningum hefur verið rift og slitastjórnin reynt að endurheimta skuldirnar. Hæstiréttur hefur þegar fjallað um það, hvort þetta var heimilt eða ekki, og svo var ekki. Þá hefur komið í ljós að ábyrgðin á lánunum var takmörkuð við tíu prósent í einhverjum tilvikum, en ekkert slíkt kom fram í ársreikningum Kaupþings.
Kauphöll Íslands gerði alvarlegar athugasemdir við niðurfellinguna á sínum tíma, og þá sérstaklega að hún hefði ekki verið tilkynnt til markaðarsins.
Í yfirlýsingu eins stjórnarmannsins, á sínum tíma, kom fram að stjórnin hefði „ekki getað gert“ annað en að fella ábyrgðirnar á tugmilljarða skuldunum niður, því annars hefði gengi bréfa Kaupþings á markaði fallið.
Það er ekki víst að þau rök séu burðug fyrir dómi, í ljósi niðurstaðna í umboðssvika- og markaðsmisnotkunarmálum til þessa.