Það var gaman að sjá myndir frá því í gær þegar fyrsta skóflustungan var tekin vegna byggingar yfir jáeindaskanna, sem Íslensk erfðagreining gaf Landspítalanum. Gjöfin er upp á um 840 milljónir króna og tóku Kári Stefánsson, forstjóri Íslenskrar erfðagreiningar og Páll Matthíasson, forstjóri Landspítalans, fyrstu skóflustunguna.
Kári á heiður skilinn fyrir að beita sér fyrir þessari höfðinglegu gjöf, sem nýtist almenningi og styrkir heilbrigðiskerfi. Kár á það til að hrista upp í íslenskri þjóðfélagsumræðu, en enginn getur dregið í efa að honum er umhugað um íslenskt heilbrigðiskerfi og vill bæta það enn frekar.
Hann hefur talað fyrir þjóðarátaki, þar sem markmiðið er að 11 prósent af landsframleiðslunni renni til heilbrigðiskerfisins, og hyggst hann hefja undirskriftarsöfnun á dögunum til þess að þrýsta á um þetta.
Vonandi fer samhliða þessu átaki fram málefnaleg umræða um þær áskoranir sem íslenskt heilbrigðiskerfi stendur frammi fyrir, meðal annars vegna öldrunar þjóðarinnar og nauðsynlegrar endurnýjunar á Landspítalanum.