Stefnt er að því að selja verulegan hlut í Landsbankanum á þessu ári, og líklegt er að stjórnvöld vinni að því sömuleiðis að selja Íslandsbanka, að hluta eða öllu leyti.
Það hefur áður komið fram á þessum vettvangi, að ekki sé augljóst að það þurfi að selja bankana hratt til nýrra eigenda. Ríkið þarf ekkert að flýta sér að selja bankana, heldur ætti það fyrst að einbeita sér að því að breyta bankakerfinu þannig að það starfi á grundvelli almannahagsmuna til lengdar litið.
Nokkra punkta er hægt að telja til:
- Landsbankinn og Íslandsbanki eru með samtals 450 milljarða eigið fé, og tæplega 30 prósent eiginfjárhlutfall. Þetta eru mikil verðmæti. Mikilvægt er að flýta sér ekki um of að selja þessi verðmæti, heldur greina þau vel og skilgreina nákvæmlega hvers vegna er verið að selja þau. Ríkið virðist t.d. geta greitt út um 100 milljarða úr bönkunum, eins og Óttar Guðjónsson gerði að umtalsefni í grein á dögunum, án þess að þeir verði ósöluhæfir. Þetta eru miklir fjármunir, svo ekki sé fastar að orði kveðið.
- Almenningur fjármagnar bankana tvo með innlánum sínum, að langstærstum hluta. Bankarnir eru ekki með alþjóðlega starfsemi, og hafa stigið hænuskref á alþjóðlega markaði enn sem komið er, þegar kemur að fjármögnun.
- Ríkið er í dauðafæri til að breyta fjármálakerfinu, aðskilja viðskiptabanka- og fjárfestingabankastarfsemi, skerpa á reglum um að bankar megi ekki stunda óskyldan rekstur, hagræða þar sem hægt er, og einfalda starfsemina.
- Á innanlandsmarkaði koma helst lífeyrissjóðirnir til greina sem aðrir eigendur að bönkunum. Þeir hafa frá því fjármagnshöftum var komið á, í nóvember 2008, aukið umsvif sín mikið á Íslandi og eru bakbeinið í fjármálamarkaðnum, bæði á skuldabréfa- og hlutabréfamarkaði, og einnig almennt á fjármálamarkaði. Þó líklega hafi margir fjárfestar áhuga á því að fylgja lífeyrissjóðunum sem nýir eigendur, þá verða stjórnvöld að hugsa málið til enda. Er það betra fyrir markaðinn í heild, að lífeyrissjóðirnir eigi bankanna líka? Það skiptir máli að þetta sé hugsað vel.
- Ef það er mögulegt að fá erlenda eigendur að bönkunum, að hluta eða öðrum hvorum þeirra í heild jafnvel, þá verður að vera ljóst á hvaða forsendum það er gert. T.d. ef erlendir eigendur koma, þá verður að athuga hvernig arðgreiðslum þeirra úr lendi verður háttað. Staða þjóðarbússins er enn viðkvæm, og í ljósi þess hvað miklir fjármunir eru í bönkunum, þá verður að liggja fyrir að miklar arðgreiðslur úr landi ógni ekki stöðugleika á gjaldeyrismarkaði. En það gæti líka verið afar gott fyrir fjármálamarkaðinn á Íslandi að fá alþjóðalega heilbrigða banka, t.d. frá Norðurlöndunum, sem geta boðið almenningi góð kjör og góða þjónustu.
Þessir punktar eru bara nokkrir af þeim fjölmörgu sem hægt er að nefna, sem mikilvæga í umræðu um bankakerfið og endurskipulagningu þess. Það er ekki augljóst að það sé betra fyrir ríkið á þessum tímapunkti að selja eignir sínar í fjármálakerfinu. Það eru rök með og á móti í þeim efnum, sem stjórnmálamenn þurfa að ræða miklu meira en þeir hafa gert til þessa. Best væri að fá skýrt fram frá hverjum flokki, hvað hann vill í þessum efnum.