Það hefur lengi verið árvisst að um leið og tilkynnt er um starfslaun listamanna hefst kapphlaup hinna syndlausu að grjóthrúgunni. Ónytjungar og afætur skulu grýttar, fólk sem slæpist í vellystingum fyrir stórfé sem í það er ausið. Yfirleitt byrjar ballið á því að slakir blaðamenn flagga hálfsannleik og aðdróttunum af ýmsu tagi um fjárhæðir og afköst, klíkuskap, spillingu og þar með er búið að gefa upp boltann fyrir kjánalega vandlætara sem segja eitthvað vanhugsað á Facebook sem er svo slegið upp með stríðsfyrirsögnum. Þá hefst flóð rætni og fyrirlitningar í kommentakerfum. Fólk keppist við yfirlýsingar um að kaupa aldrei bækur tiltekinna höfunda. Listamenn (í ár eru það aðallega rithöfundar) geta nú flokkast með femínistum og múslímum sem er út af fyrir sig ágætur félagsskapur.
Menn hafa tekið þessu með kaldhæðni en skiljanlega hikað við að snúast til varnar því grjótkast af þessu tagi tekur ekki rökum, jafnvel ekki einföldum efnahagsrökum á borð við þau að bókaútgáfa og allt menningarstarf sé styrk stoð í hagkerfinu og að virðisaukaskattur af seldum bókum sé meiri en það fé sem ríkið ver til starfslauna rithöfunda. Þó hafa einstaka höfundar útskýrt málið af einlægni og hógværð eins og t.d. Vilborg Davíðsdóttir. Grjótkastið hefur líka orðið til þess að varla er hægt að ræða í friði atriði sem gagnrýnd hafa verið og hugsanlega mætti bæta í framkvæmdinni, til dæmis formreglur um skipan úthlutunarnefnda og sérstaka rækt við nýgræðinga.
Mér hefur alltaf verið raun að þessari dapurlegu orrahríð og hef eiginlega kviðið þessum degi undanfarin ár. Ekki fyrst og fremst vegna þess að ég vorkenni því góða fólki sem fær grjótkastið yfir sig, heldur hefur mér sárnað að sjá hvernig niðurdrepandi fáfræði og fordómar fléttast við óvandaðan fréttaflutning.
Yfirleitt hefur verið vænlegast að bíða fárið af sér en nú hefur það keyrt um þverbak í rætnum persónuárásum. Mér er málið skyldara en áður vegna þess að ég var meðal þeirra heppnu, starfslaun eru nefnilega einnig veitt fræðimönnum. Ég er glaður og þakklátur fyrir að vera nú í hópi hinna fordæmdu og sé fram á að geta lokið metnaðarfullu verki sem ég hef stefnt að síðustu 25 árin og unnið að samfleytt síðustu fimm árin við misjafnt gengi í styrkjaharki. Ég kveinka mér heldur ekkert yfir grjótkastinu enda hefur því ekki verið beint gegn mér persónulega. Þeir sem fyrir því hafa orðið geta hæglega svarað fyrir sig ef þeim þykir ástæða til.
Það sem mér þykir verst og ískyggilegast er sú sambræðsla fáfræði og heiftar sem virðist vaxa og fléttast saman við þjóðrembu og rasisma. Það er því líkast að fáfræði sé dyggð sem brýst út í persónuárásum. Það sem áður var dulið hefur orðið sýnilegt með tilkomu samfélagsmiðlanna og vanmáttug gremja fólks yfir óljósum raunum beinist gegn hópum sem vel liggja við höggi, konum sem þora að láta í sér heyra, innflytjendum, listamönnum og jafnvel flóttamönnum, í stað þess að beina reiðinni til að mynda að óheftu athafna- og eyðileggingarfrelsi þeirra sem fara með fjármagn og fjárhasgleg völd. Auðurinn safnast á æ færri og miskunnarlausari hendur og er að gjörspilla náttúru Íslands og á góðri leið með að gera jörðina óbyggilega.
Sjálfstætt starfandi fræðimenn, rithöfundar og listamenn eru í svipuðum sporum, taka oft að sér misskemmtileg og misgefandi verkefni til að afla sér viðurværis en stunda þess á milli þau skapandi störf sem hugurinn stendur til, með stuðningi vanburðugra sjóða. Þessi hópur eyðir ómældum tíma og kröftum í ástríðufulla iðju sem alltaf er einlægt framlag til samfélags og menningar þó launin séu gloppótt. Þessi iðja er harður húsbóndi því höfundar með sjálfsvirðingu láta verkin ekki fara frá sér fyrr en þeim er lokið, hver sem starfslaunin eru. Góð verk geta tekið mislangan tíma. Sum geta sprottið fram á innblásinni örskotsstundu en flest líta dagsins ljós eftir agaða þrælavinnu árum saman. Gæði verkanna koma lengd bóka heldur ekkert við. Það er fagnaðarefni að allstór hópur höfunda hefur getað sinnt ritstörfum jafnvel í fullu starfi undanfarin ár.
Langflestar menningarafurðir sem Íslendingar stæra sig af hafa orðið til fyrir stuðning samfélagsstofnana. Skáld og sagnaritarar til forna voru í þjónustu höfðingja og kirkjunnar. Fegurstu handritin voru skrifuð og myndskreytt af atvinnumönnum í klaustrum. Á síðari öldum voru fróðleiksmenn á snærum höfðingja. Arngrímur Jónsson lærði fékk afgjöld af nokkrum jörðum svo hann gæti stundað fræðistörf sín í friði og honum þakka menn það að umheimurinn uppgötvaði fornbókmenntirnar sem Íslendingar hafa löngum litið á sem réttlætingu fyrir tilvist sinni sem þjóðar.
Fornritin spruttu upp úr menningarjarðvegi sem var hagkvæmur bókmennta- og listsköpun. Á síðari öldum voru skilyrði til bókmenntasköpunar oft bágborin en menn þráuðust þó við af vanefnum og skrifuðu upp gömul rit, sögðu og skrifuðu nýjar sögur, ortu vísur og kvæði. Lággróðurinn var býsna gróskumikill og hélt við tungumálinu sem ráðamenn dásama á hátíðastundum (en vilja sem minnst fé leggja af mörkum til að halda því við) en þó spratt þar upp sitthvað gott, stundum með stuðningi samfélagsins. Og á síðari tímum hefur jafnan verið leitast við að styrkja rithöfunda og listamenn með ýmsum hætti.
„Íslenskar bókmenntir eru merkilegt en viðkvæmt vistkerfi“ sagði rithöfundurinn Auður Jónsdóttir við verðlaunaafhendingu um daginn. „Vistkerfi sem má ekki við miklu hnjaski og á mikið undir litlu.“ Það má víkka líkingu Auðar því allt samfélagið og menningin eru vistkerfi, flókinn vefur þar sem ólíkustu þræðir leggja sitt af mörkum til heildarinnar. Allir þættir eru mikilvægir, ekki síst listir og bókmenntir sem næra sköpunarmátt samfélagsins. Sá vefur raknar upp ef farið er eftir ímynduðum frumskógarlögmálum markaðshyggju og hagnaður talinn æðri öllum siðferðisgildum.
Ríkið og samfélagsstofnanir hafa það hlutverk að halda við þessum vef, af því að við erum manneskjur og teljum okkur gædd þeirri skynsemi sem þarf til að skipuleggja almannavelferð til líkama og sálar. Þó að forsjárhyggja ríkisins sé oft fullmikil þýðir það ekki að það sé óþarft. Hins vegar er ríkið um leið valdastofnun sem deilir út fé og getur beitt valdi. Því getur það hæglega verið kúgunartæki, notað til að auka völd þeirra sem ærin völd hafa þó fyrir.
Og þar liggur í það minnsta einn hundur grafinn. Samfélagið er og hefur alltaf verið vettvangur valdabaráttu. Ætíð skara einhverjir eld að eigin köku á kostnað meðbræðranna með öllum ráðum. Í dag er ófyrirleitni ríkra valdhafa engin takmörk sett og heimurinn í hættu. Markaðshyggjan styðst við einfaldar skilgreiningar á samfélagsaðstæðum sem ala af sér ódýra mælskulist til stuðnings valdstéttunum. Vitaskuld vilja þær og þjónar þeirra miklu frekar að allt fari á annan endann út af listamannalaunum en að útvöldum auðmönnum sé úthlutað gróðavænlegum hlutabréfum fyrir slikk eða stórkapítalistum gefnar auðlindir á sjó og landi.
Um þessar mundir velta menn því fyrir sér hvort Andri Snær Magnason rithöfundur ætli að bjóða sig fram til embættis forseta. Hann hefur árum saman verið einn snarpasti og hugmyndaríkasti gagnrýnandi ákveðinna samfélagsafla og nú bregður svo við að hann er orðinn helsti skotspónn grjótkastsins. Fari hann í framboð ná afhjúpandi gagnrýni hans og leiftrandi hugmyndauðgi athygli miklu fleira fólks en áður. Það er trúlega mörgum óbærileg tilhugsun og því kvikna grunsemdir um að nú eigi einfaldlega að taka hann niður áður en hann hugsanlega býður sig fram.
Rithöfundar og listamenn fegra samfélagið og gera það lífvænlegra, halda við tungumálinu og rækta verðmæti sem aldrei verða metin til fjár. En þeir hafa líka hlutverk sjáandans og gagnrýnandans sem birta mannlegt samfélag oft í óvæntu og afhjúpandi ljósi. Sterkasta ógnin við valdið felst í skapandi og gagnrýninni menningu og ég leyfi mér að bæta gagnrýnum fræðum þar við. Sköpunin afhjúpar veikleika valdsins. Vissulega eru það ákveðin forréttindi að fá að stunda það sem mann langar til og sjálfsagt er einhver snefill af hégómagirnd í okkur sem erum að berjast við að skrifa og skapa. En við erum ekkert síður að þessu vegna þess að okkur þykir vænt um fólk, við viljum stuðla að mannlegum gildum í samfélaginu, draga fram fegurðina í fjölbreytni þess og gera það ögn betra. Í því starfi eru listamenn og rithöfundar óþægir valdinu og hættulegir en ekki á þann hátt að þeir séu að hafa fé af almenningi.
Það er lítilmannlegt að þjóna valdinu með því að æsa einfeldninga upp í hatursorðræðu og kjánalegar yfirlýsingar þar sem sjónhverfingar eru lagðar að jöfnu við list. Það er kannski hægt að fyrirgefa þeim sem ekki vita hvað þeir gera en þeir eiga ekki að komast upp með það óátalið. Og einhverjir vita örugglega hvað þeir eru að gera.