Frá því Kjarninn upplýsti um það, að Landsbankinn, sem almenningur á nánast að öllu leyti í gegnum ríkissjóð, hefði selt 31,2 prósent hlut í Borgun bak við luktar dyr til valins hóps fjárfesta, hefur mikið vatn runnið til sjávar.
Bankaráð Landsbankans, hefur viðurkennt mistök, og sagt að það hefði verið betra að standa öðruvísi að því að selja hlutinn í Borgun. Þá helst að auglýsa hlutinn og selja hann í gagnsæju söluferli sem tryggði jafnan aðgang fjárfesta að þessari eign almennings.
Nú liggur fyrir að þessi kaup hins valda hóps fjárfesta voru reyfarakaup, því ávöxtunin verður að öllum líkindum mikil í þessum viðskiptum. Fréttir frá því í gær, benda til þess að Borgun, og einnig Valitor, geti hagnast um milljarða króna vegna yfirtöku Visa International Service á Visa Europe.
Skömmu eftir að Landsbankinn seldi hlut sinn ákváðu hluthafar að greiða út arð upp á 800 milljónir króna, sem þá var fyrsta arðgreiðslan frá árinu 2008.
Þetta dæmi sýnir glögglega hversu mikilvægt það er, að selja eignir í gegnum opið ferli, þar sem aðkoma allra er tryggð. Það sem gerist í slíku ferli er að þá myndast samkeppni um verð, en líka vinnubrögðin sem liggja baki greiningu á rekstrinum. Landsbankinn greindi ekki þau tækifæri í rekstrinum sem nýir hluthafar, þar á meðal stjórnendur Borgunar, virðast hafa séð og eru nú að græða stórkostlega á, í reynd á kostnað almennings sem áður átti hlutinn í gegnum dótturfélag sitt Landsbankann.
Skaðinn að því að standa ekki faglega að svona hlutum, getur verið mikill og áþreifanlegur í peningum.
Fjármálaeftirlitið (FME) ber ríka ábyrgð á þessari stöðu í reynd, og Alþingi líka. Skýr lög og skýrar reglur um hvernig hinir endurreistu banka eiga að standa að sölu eigna geta komið í veg fyrir að almenningur verði hlunnfarinn, og verndar um leið samkeppnisumhverfið í landinu.
Það verður að teljast með nokkrum ólíkindum, hversu mikið svigrúm bankarnir hafa fengið við að halda eignarhlutum í óskyldum rekstri, en slíkt er bannað samkvæmt lögum, nema með undanþáguheimild FME. Ábyrgðin liggur hjá FME á því, að bankarnir eru til að mynda enn í dag, eigendur að hlutafé í fyrirtækjum sem koma bankarekstri ekkert við, og eru jafnvel sum hver skráð á markað. Rúmum sjö árum eftir hrunið þá er þetta ennþá staðan.
Í fréttatilkynningu Landsbankans, sem send var út í gær, viðurkennir bankinn að hafa ekki reiknað með virðisauka eins og þeim sem nú er að raungerast vegna vaxandi starfsemi á erlendum vettvangi. Verðmiðinn tók því ekki mið að því.
Kannski er ein ástæðan fyrir því að ekki var kafað ofan í þessa hluti betur, að engin samkeppni var sköpuð um hlutinn með opnu söluferli. Það voru engir kaupendur að berjast um hlutinn og ekki um verð heldur.
Ekkert annað er hægt að gera, en að vona að þessi augljósu alvarlegu mistök sem gerð voru við sölu á hlutnum í Borgun, endurtaki sig ekki. Sporin hræða, og stjórnmálamenn munu vonandi átta sig á því, að það eru svona hlutir sem leiða til þess að traust á þeim, og öllum undirstofnunum ríkisins, getur skolast burtu á örstuttum tíma.