Sjálfstæðisflokkurinn mælist með 19,5 prósent fylgi og Framsóknarflokkurinn með 10 prósent fylgi. Samanlagt nær fylgi ríkisstjórnarflokkanna ekki 30 prósent, sem verður að teljast með nokkrum ólíkindum, og til marks um hversu hratt fylgisfólki ríkisstjórnarinnar fækkar.
En hvað veldur? Spunameistarar ríkisstjórnarinnar spyrja sig vafalítið að þessu. Að undanförnu hefur ríkisstjórnin eytt skattfé í það að auglýsa sig í fjölmiðlum, af engri sérstakri sýnilegri ástæðu, annarri en þeirri að vekja athygli á sér.
Hagtölurnar eru flestar jákvæðar, og staðan í efnahagsmálum hefur haldið afram að batna hratt, alveg eins og hún gerði á kjörtímabilinu frá 2009 til 2013. Þá eins og nú, kvörtuðu margir fylgismenn ríkisstjórnar sáran yfir því að fjölmiðlar væru að flytja of neikvæðar fréttir af gangi mála, og stjórnarandstæðingar einnig.
Þegar ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur var við völd, þá minnkaði fylgið jafnt og þétt fram að kosningum, en kvartanir yfir því að ekki væri verið að fjalla nægilega mikið um jákvæðar aðgerðir ríkisstjórnarinnar í fjölmiðlum, urðu sífellt háværari. Í stórum dráttum er þetta svipað og er að gerast þessa dagana, nema hvað fylgishrunið í könnunum er dramatískara núna.
Vel má hugsa sér að þessi einkenni, sem sjást nú augljóslega hjá spunameisturum ríkisstjórnarinnar, séu merki um að þeir skynji ekki nægilega vel um hvað fólk er að tala og hvaða mál það eru sem helst brenna á því. Sambandið við almenning sé hreinlega rofið.
Píratar hafa boðað kerfisbreytingar, og að valdið verði fært til fólksins í auknu mæli, og eru að uppskera ríkulega. Ekki er ólíklegt að stjórnarflokkarnir muni koma fram með einhver róttæk útspil á næstunni, til að auka fylgið. Hvort það mun gera það, er síðan önnur saga.