Kári Stefánsson, forstjóri Íslenskrar erfðagreiningar, er að reynast ríkisstjórninni erfiður andstæðingur, þessa dagana, með undirskriftarsöfnun sinni til stuðnings endurreisn heilbrigðiskerfisins. Um 50 þúsund Íslendingar hafa skrifað undir áskorun þess efnis að 11 prósent af vergri landsframleiðslu Íslands fari heilbrigðismálin.
Undirskriftarsöfnunin hófst á svipuðum tíma, og kannanir hófu að sína meiri dýfu í fylginu við ríkisstjórnina, en hafði verið mánuðina á undan. Í nýjustu könnun MMR er fylgi Sjálfstæðisflokksins komið niður í 19,5 prósent og Framsóknarflokkurinn mælist með tíu prósent fylgi.
Það er ekki hægt að segja annað, en að það þurfi hálfgert kraftaverk til að hækka fylgið við ríkisstjórnina um rúmlega 20 prósentustig fyrir kosningarnar 2017, til að ýta ríkisstjórnarflokkunum yfir helmingsfylgi fyrir kosningar. En það má ekki gleyma því að tæplega eitt og hálft ár er langur tími í pólítík, og staðan getur augljóslega mikið breyst.
En ríkisstjórnin er ekki bara að berjast við stjórnarandstöðuna, heldur virðist hún vera í mestum vandræðum með Kára. Hann hikar ekki við að gagnrýna ráðamenn, mæta í viðtöl og berjast fyrir því að íslenska heilbrigðiskerfið fá meiri fjármuni, og virðist eiga mun auðveldara með að mynda talsamband við almenning heldur en forsætisráðherra og aðrir ráðherrar í ríkisstjórn.
Kári fullyrðir að ráðamenn þjóðarinnar hlusti ekki á þjóðina, og séu nú á „harðahlaupum“ frá fyrri yfirlýsingum sínum um að búa íslensku heilbrigðiskerfi sambærilegan ramma og þekkist á Norðurlöndunum hvað varðar fjármuni og fjölda starfsmanna, að teknu tilliti til staðhátta.
Spunameistar ríkisstjórnarinnar náðu að sannfæra ríkisstjórnina um að eyða 2,3 milljónum króna í auglýsingar í fjölmiðlum, fullkomlega að óþörfu og algjörlega án árangurs, samanber fylgishrunið að undanförnu. Það er aldrei að vita nema að nú sé ný herferð á teikniborðinu, þar sem spjótin munu beinast að Kára Stefánssyni, fremur en stjórnarandstöðunni.