Pabbi minn dó síðsumars. Réttum mánuði síðar eignaðist ég mitt fyrsta barn. Annað var það þungbærasta sem ég hef upplifað og hitt það gleðiríkasta, en hvort tveggja átti sér langan og strangan læknisfræðilegan aðdraganda. Sem Íslendingur er ég svo heppin að búa við gott almennt sjúkratryggingakerfi. Í báðum tilfellum nutum við fjölskyldan því framúrskarandi umönnunar og þurftum ekki að hafa áhyggjur af sjúkratryggingum þegar síst skyldi.
Auk þess einkenndust samskipti við starfsmenn Landspítalans af hlýju og nærgætni. Pabbi lést af heilablæðingu eftir tvær vikur í gjörgæslu. Þegar svona afdrifaríkir atburðir eiga sér stað renna minningarnar saman og verða brotakenndar, en þó er ýmislegt í aðdragandanum að fráfalli hans sem ég mun aldrei gleyma og seint fá þakkað. Sérfræðingarnir sem höfðu umsjón með honum funduðu margoft með okkur fjölskyldunni til að útskýra meðferðarkosti og möguleika á bata. Þessir læknar flytja erfiðar fregnir á hverjum degi en hluttekning þeirra var engu að síður auðfundin.
Hjúkrunarfræðingarnar á gjörgæslunni önnuðust pabba af natni og færni og útskýrðu fyrir okkur breytingar á líðan hans í hvert skipti sem við komum í heimsókn. Þegar þess var kostur voru tjöld dregin í kringum rúmið þar sem hann lá til þess að gefa okkur færi á að segja það sem við þurftum að segja í næði. Þegar margir komu í heimsókn í einu var hlaupið til að sækja fleiri stóla. Ég man sérstaklega eftir einum hjúkrunarfræðingi sem færði mér eplasafa í hvert sinn sem hann sá mig. Hann var hræddur um að það liði yfir mig því ég var komin rúma átta mánuði á leið.
Frammi fyrir dauða nákominna er maður ráðalaus og hjálparþurfi. Síðustu dagana sem pabbi lifði, þegar ljóst var í hvað stefndi, var hann fluttur á heila- og taugadeild og við vorum þar hjá honum öllum stundum. Aðstaða fyrir fjölskyldu var takmörkuð en viljinn til að láta okkur líða sem best var skýr. Okkur voru færðir koddar, teppi, vatn, kaffi og bakkelsi. Allir starfsmenn – sjúkraliðar, hjúkrunarfræðingar og læknar – gerðu sér far um að brosa hughreystandi, þrýsta á okkur höndina eða taka utan um okkur. Ungur sjúkrahúsprestur hjálpaði okkur, trúleysingjum upp til hópa, að kveðja pabba og styðja hvert annað í gegnum sorgina. Eftir að pabbi skildi við sendi hann okkur út í ágústsólina að anda að okkur fersku lofti eftir langa og þrúgandi daga inni á deild. Þegar kom að því að jarðsyngja pabba datt okkur ekki annað í hug en að biðja þennan prest um það. Hann hafði þegar fylgt okkur í gegnum það erfiðasta.
Dóttir mín lét bíða eftir sér. Ég hugsaði með mér að hún vildi gefa mér færi á að fylgja pabba til grafar áður en nýr kafli tæki við. Þegar ég var gengin tvær vikur fram yfir settan dag þurfti að setja fæðinguna af stað. Gangsetningar eru oftast erfiðar og þetta var engin undantekning. Fæðingin tók á annan sólarhring. Þar sem það eru vaktaskipti á átta tíma fresti á fæðingardeildinni hittum við því margar ljósmæður. Nú þegar ég hef upplifað þau heljarinnar átök sem það getur verið að fæða barn átta ég mig á því hversu fágætum kostum góðar ljósmæður þurfa að vera gæddar – eitilharðar og mjúkar í senn. Mínar ljósmæður voru það allar. Sú sem sinnti mér í gegnum verstu hríðirnar hafði náðargáfu á þessu sviði. Það var eins og hún sæi þarfir mínar fyrir og hvert handtak var rétt. Ég sagði henni að hún væri fædd ljósmóðir og hún brosti bara og svaraði því til að hún væri ekki ein, heldur hjálpaði henni einhver, líklega amma hennar sáluga. Og ég, efahyggjumanneskja að upplagi, dró það ekki í efa eitt andartak. Því ef það er eitthvað sem gengur skilningi okkar ofar, þá er það fæðing barns.
Að meira en sólarhring liðnum var ég aðframkomin. Ég var líka orðin logandi hrædd því ég fann á viðstöddum að þetta gekk ekki sem skyldi. Allt þar til ungur sérfræðingur gekk inn, lagði höndina á öxlina á mér og sagði:„Sæl Oddný. Ég heiti Aðalbjörg og er fæðingalæknir og ég ætla að hjálpa þér. Nú klárum við þetta.“ (Ég er ekki að búa þetta til, hún heitir í alvörunni Aðalbjörg.) Hún talaði af svo mikilli festu og var svo traustvekjandi og einbeitt að ég reiddi mig algjörlega á hana. Ég man að mér fannst hún eins og kvenskörungur úr Íslendingasögunum. Það gustaði af henni. Og hún stóð líka við það sem hún lofaði mér. Í hvert sinn sem ég var viss um að ég gæti ekki meir hjálpaði hún mér að halda áfram. Á milli hríða leit hún beint í augun á mér og rétt kinkaði kolli til að láta mig vita að ég stæði mig vel. Ég hef sjaldan á ævinni upplifað jafnmikla viðurkenningu. Stuttu síðar fæddist Vera. Aðalbjörg átti ríkan þátt í því.
Fæðingin var ekki bara erfið fyrir mig, heldur líka fyrir Veru, sem andaði að sér legvatni og átti erfitt um andardrátt fyrstu dagana. Hún þurfti því að vera nokkra sólarhringa á vökudeild, þar sem var afar vel og fallega hugsað um hana. Spítalapresturinn kom tvisvar í heimsókn þangað, bara til að ganga úr skugga um að það væri í lagi með okkur. Vegna þessara byrjunarörðugleika lágum við lengur en gengur og gerist á sængurkvennadeildinni. Ljósmæðurnar þar voru hver annarri yndislegri við okkur. Þær kenndu mér að hugsa um Veru, gættu þess að ég borðaði, reyndu að haga eftirliti þannig að við gætum öll sofið sem mest og brostu skilningsríkar þegar ég var meyr eins og nýbakaðar mæður eru. Ein þeirra var sérstaklega hlý og ég reyndi einu sinni að segja henni hversu innilega þakklát ég væri henni og öllum hinum sem hlúðu svona vel að okkur – rétt eins og ég vil gera með þessum pistli. Hún fékk tár í augun, tók utan um mig og sagði að það væri vitneskjan um slíkt sem drifi hana áfram, næturvakt eftir næturvakt.
Þetta eru bara nokkrar svipmyndir af mörgum. Ég stend í þakkarskuld við heilan her heilbrigðisstarfsmanna til viðbótar: Fólk sem fæst við heimahjúkrun, heimsendingu á mat, mæðraeftirlit, heimaþjónustu, bráðamóttöku barna, ungbarnaeftirlit og fleira. En ég er samt ekki bara að segja frá þessu til að þakka fyrir okkur – þótt það sé vissulega verðskuldað. Mér dettur heldur ekki í hug að upplifun mín síðasta sumar hafi verið svo einstök að allir þurfi að vita af henni. Þvert á móti: Flestir upplifa ástvinamissi og eignast nýja fjöskyldumeðlimi einhvern tíma á lífsleiðinni. Markmiðið með því að skrifa um þetta er fyrst og fremst að benda á það hversu lánsöm við erum að búa við heilbrigðiskerfi sem er enn svona gott og vel mannað, þrátt fyrir allt álagið undanfarin misseri. Og hversu mikilvægt það er að standa vörð um það nú þegar á það er herjað úr öllum áttum.
Af fenginni reynslu tek ég engu af þessu sem gefnu. Undanfarin ár hef ég verið í námi í Bandaríkjunum þar sem sjúkratryggingar hvers og eins ráða miklu um það hvenær fólk sækir sér læknisþjónustu og hvenær ekki. Ég var í Bandaríkjunum þegar ég var komin þrjá mánuði á leið og mér fór að blæða og þorði ekki annað en að fara til læknis. Ég var vel tryggð en engu að síður kostaði þessi læknisheimsókn rúmlega þúsund dollara. Hefði ég verið betur að mér um skilmála trygginganna minna, þá hefði ég þurft að setja þetta upp sem reikningsdæmi. Það er auðvitað ódýrara að taka bara sénsinn og vona að allt verði í lagi, en hvað getur það kostað?
Maðurinn minn er rúmenskur og ég hef líka kynnst heilbrigðiskerfinu í hans heimalandi. Þar er almennt sjúkratryggingakerfi en það er svo fjársvelt og niðurníðslan svo mikil að það getur verið beinlínis heilsuspillandi að fara á sjúkrahús. Eftir niðurskurðaraðgerðir undanfarinna ára þurfa sjúklingar stundum sjálfir að koma með sængurföt, hanska og sprautur ætlist þeir til þess að slíkt sé hreint. Þeir sem vettlingi geta valdið kaupa þjónustu á einkareknum stofum, en hún getur verið mjög dýr, sérstaklega ef eitthvað alvarlegt bjátar á. Aðbúnaður lækna sem vinna ekki á einkareknum stofum er svo slæmur að rúmenskir læknar, sem almennt eru mjög vel menntaðir, flytja í hrönnum til annarra Evrópulanda. Gjáin milli almenna og einkarekna kerfisins dýpkar því stöðugt á meðan rúmensk stjórnvöld niðurgreiða í raun læknisþjónustu í öðrum og ríkari löndum, sem fá til sín fullmenntaða rúmenska lækna.
Staðreyndin er sú að þegar þróun í þessa átt er einu sinni farin af stað er mjög erfitt að snúa henni við. Það eru takmörk fyrir því hvað heilbrigðisstarfsmenn láta bjóða sér. Það er ekki boðlegt að fólkið sem vinnur við að lækna, líkna og hlúa að okkur hinum búi við heilsuspillandi vinnuaðstæður, ómanneskjulegt álag og virðingarleysi þeirra sem eru við stjórnvölinn. Gott almennt heilbrigðiskerfi er grunnstoð velferðarsamfélags af því tagi sem langflestir Íslendingar vilja. Við megum ekki fljóta sofandi að feigðarósi.
Fyrir pabba og fyrir Veru og fyrir lækninn systur mína.
Virðingarfyllst,
Oddný Helgadóttir