Í Kastljósi 21. janúar sl. komumst við að því að á Íslandi er fjármálaráðherra með mjög takmarkað vit á bankastarfsemi. Í þættinum viðurkenndi hann, að hann, vissi ekkert hvað samfélagsbanki væri og ítrekaði fákunnáttu sína með því að líkja Íbúðalánasjóði við samfélagsbanka um leið og honum finnst sjálfsagt að setja stofnfé í samfélagsbanka í Kína, sem stofnaður er um einhverja vafninga, í Asíu.
Hann sagði okkur líka að hann skildi ekki að hægt væri að reka banka öðruvísi en með arðsemissjónarmiðum, og svo fannst honum bara að banki ætti að vera banki sem veitti góða þjónustu með arðsemissjónarmið eigendanna að leiðarljósi.
Þar hitti fjármálaráðherran naglann á höfuðið, hann gat vel skilgreint bankaþjónustu en rekstrarformið varð að vera „einka“ eitthvað. Samfélagslegt var ofar hans skilningi. Það er nefnilega þannig að ef það er gróði af einhverju þá verður það að vera einhver ákveðin klíka, hlutahafar, vinir, pólitískir félagar, nú eða rétta fjölskyldan, sem græðir.
Það er ómögulegt að Gunna og Jón geti grætt á því að eiga eitthvað sem gengur vel og allir þurfa að nota.
Stjórnmálamenn sem tala í sama kór og fjármálaráðherran okkar, eru mjög sannfærandi þegar þeir benda á að bankar eigi ekki að vera í ríkiseign því með pólitískum áhrifum og afskiptasemi af lántökum, geti pólitíkusar með greiðasemi í gegnum ríkisbankana, keypt sér atkvæði og völd. Hvernig á að vera hægt að réttlæta það á 21. öldinni?
En eru þessi rök góð og gild og standast þau skoðun?
Í rannsókn (P. Demetriades, S. Andrianovu, og A. Shortsland, There Should Be No Rush to Privaties Government Owned Banks, 20. jan. 2010), sem stofnun við Brunel University í Englandi, sem kölluð er CEDI (Center for Economics Development and Institutions), gaf út, var gerður samanburður á vexti hagkerfisins, hagsæld og áhrifum hrunsins á þjóðfélög annars vegar þar sem var sterkt kerfi samfélagsbanka er eins og Þýskaland og Frakkland og hins vegar þar sem samfélagsbankar voru litlir og óburðugir eins og í Englandi og Bandaríkunum.
Niðurstöðurnar voru sláandi og líka nokkuð merkilegar í ljósi þeirrar umræðu um spillingu sem á sér stað þegar eignir almennings eru teknar og seldar á hrakvirði til vildarvina af ákveðnum stjórnmálamönnum.
Þar sem samfélagbankar eru sterkir kom í ljós að hagvöxtur var jafnari og stöðugri, það kom líka í ljós að spilling og hrossakaup eiga sér síður stað bæði innan stjórna samfélagsbankanna, með skýra eigendastefnu, meðan að einkabankarnir eru að verðlauna stjórnendur sína fyrir áhættutöku, með hlutabréfagjöfum og bónusum. Þá voru afleiðingar heimskreppurnar 2008 miklu mildari í þeim löndum þar sem samfélagsbankamódelið var sterkt en þar sem einkabankar voru einráðir.
En athyglisverðust finnst mér sú niðurstaða skýrslunnar að rök þeirra stjórnmálamanna sem mæla fyrir að selja ríkisbanka til einkaaðila til að koma í veg fyrir pólitísk hrossakaup og lánveitingar pólitíkusa á atkvæðaveiðum, stóðst enga skoðun.
Það kom nefnilega í ljós að einkavæddir bankar voru miklu gjafmildari og stjórnendur þeirra frekar tilbúnir að kaupa sér velvild ákveðinna stjórnmálaafla og styrkja stjórnmálamenn, sem voru tilbúinir að vinna að einföldun og afregluvæðingar bankastarfsemi, með kosningaframlögum í prófkjörum. Eða kaupa sér varðhund sérhagsmuna sinna.
Samfélagsbankarnir höfðu skýrt markaða stefnu um að veita enga pólitíska styrki.
Í ljósi þessa þá væri nú fróðlegt að fá svör við þessum spurningum frá íslenskum stjórnmálaflokkum..
1. Hvað styrktu bankar og fjármálastofnanir flokkinn og frambjóðendur hans mikið, 1993 – 2002.
2. Hvað styrktu bankar og fjármálastofnanir flokkinn og frambjóðendur hans mikið, 2002 – 2008.
3. Hvað styrktu bankar og fjármálastofnanir flokkinn og frambjóðendur hans mikið, 2008 – 2015.
Það væri nú fróðlegt ef stjórnmálaleiðtogarnir, Bjarni Benediktsson, Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, Árni Páll Árnason og Katrín Jakobsdóttir sem öll hafa unnið ötullega að endurreisn ónýts bankakerfis, að kröfu AGS, og stefnt þannig aftur að einkavæðingu banka, gætu svarað þessum spurningum svo landsmenn geti sjálfir metið hvort það sé meiri pólitísk spilling með bankakerfi reknu á samfélagslegum grunni og ábyrgð, eða þegar einkavæðing bankanna er algjör eins og var hér á árunum fyrir hrun?
Laugardaginn 13. febrúar, mun Dögun, stjórnmálasamtök um réttlæti, sanngirni og lýðræði efna til umræðufundar um samfélagsbanka og verða góðir gestir þar, Ellen Brown, sem er sérfræðingur frá USA um samfélagsbanka og nýtt peningakerfi og Wolfram Morales framkvæmdastjóri, Sparkasse bankanna í Þýskalandi sem eru 40 talsins.
Höfundur er varaformaður, Dögunar, stjórnmálasamtaka um réttlæti, sanngirni og lýðræði.