Viðauki við fjárhagsáætlun Reykjavíkurborgar var samþykktur í borgarstjórn í gær, og gerir hann ráð fyrir 1,78 milljarða króna hagræðingu í rekstri borgarinnar, sem leggst á flest svið og deildir borgarinnar.
Aðgerðirnar miða að því að gera rekstur borgarinnar sjálfbæran og ná jafnvægi milli tekna og gjalda. Eins og bent hefur verið á í pælingu dagsins áður, þá eru krefjandi tímar framundan í rekstri sveitarfélaga á næstunni, þar sem miklar launahækkanir munu verða þungar í skauti í grunnrekstri borgarinnar.
Rekstur skólaþjónustu er stór hluti af grunnrekstri, en af 43,3 milljarða króna heildarútgjöldum til skóla- og félagsþjónustu þá verður hagrætt um 670 milljónir. Þó það sé ekki svo stór hluti af heildinni, eða sem nemur 1,5 prósent, þá er ekki mikið svigrúm til niðurskurðar í skólum borgarinnar. Samkvæmt áætluninni á að skera niður sérkennslu og stuðning hjá borginni um 80 milljónir. Það verður að teljast sárgrætilegt, enda bitnar það beint á börnum með sérþarfir.
En þetta er hinn kaldi veruleiki í rekstri borgarinnar, sem nú hefur verið ákveðið að framfylgja eftir fyrrnefndri áætlun. Vonandi tekst að koma rekstrinum á réttan kjöl, en vafalítið á skólafólk eftir að láta í sér heyra vegna þessara áforma.