Við viljum búa í samfélagi þar sem allir hafa vinnu sem ekki eru í námi eða komnir á eftirlaun. En það er ekki raunhæft að allir leiti eftir vinnu hjá öðrum og því þurfum við á nýsköpun og hugrökkum frumkvöðlum að halda. Það þarf að byrja strax í æsku að ala upp frumkvöðla og nú þegar eru margir barna- og framhaldsskólar sem ýta undir sköpunarkraft og frumkvæði nemenda með uppfinningasmiðjum og uppgötvunarnámi.
Tækifærin eru mörg hér á landi. Við nýtum nú þegar aukið menntunarstig landsmanna til að þróa sífellt betri tækni í fiskvinnslu og matvælaframleiðslu. Hér er kjörið tækifæri til að prófa nýjan búnað og síðan skapast tækifæri á erlendum mörkuðum. Nýtum líka skrautlegt veðurfar og jarðskjálftavirkni til að hanna mannvirki sem þola öll veður og álag og flytjum þekkinguna út til annarra landa. Við getum nýtt álverin enn betur til að þróa tækni og leiðir til að álversframleiðsla verði öruggari, orkusparneytnari og minna mengandi. Þróum betri mælitæki til að mæla mengun eða öðruvísi framleiðsluaðferðir til að minnka mengun.
Álver á Íslandi eru nútíminn og fólk sem þar vinnur á virðingu skilið, sem og það endurgjald sem álverin skila til samfélagsins bæði í formi atvinnu, skatta og beins stuðnings við bæjarfélög. Á meðan stjórnendur álvera sýna siðferðislegan þroska og skila sköttum til samfélagsins í hlutfalli við raunverulegan hagnað, fara að lögum um mengunarvarnir og tryggja öryggi starfsmanna eru þau velkomin viðbót við atvinnulífið. En fleiri álver eða mengandi stórverksmiðjur eru að mínu mati ekki framtíðin og því eigum við að leggja rækt við nýsköpun og frumkvöðlastarf.
Í stað þess að nýta fleiri virkjunarkosti gætum við frekar byggt upp fyrirtæki sem þurfa litla orku. Vatnsaflsvirkjanir hafa miklu meiri afleiðingar á lífríki sjávar og áa heldur en við gerum okkur grein fyrir. Við vitum nú þegar um afleiðingar þeirra á laxagengd í ám og það kæmi mér ekki á óvart að eftir nokkur ár verður sýnt fram á fylgni milli hruns sandsílastofnsins og fjölgun vatnsaflsvirkjana. Ár sem renna óhindraðar til sjávar bera með sér mikilvæg næringarefni. Þegar ár eru stíflaðar fyllist lónið smám saman af jarðvegi svo næringarefnin ná ekki til sjávar. Þetta hefur ekki verið rannsakað svo ég viti, en má auðvitað kanna til hlítar eins og aðrar tilgátur.
En nýsköpun getur verið margt fleira en tækninýjungar. Samfélagsleg nýsköpun er heiti yfir þau verkefni sem uppfylla samfélagslegar þarfir af ýmsu tagi og leiða til velferðar og bættra lífskjara í samfélaginu. Samfélagslegir frumkvöðlar og fyrirtæki setja hagnaðarmarkmið í annað sæti, því samfélagslegur ávinningur vegur þyngra.
Dæmi um slíka nýsköpun eru fjarmenntaskólar þar sem margir litlir skólar standa saman að kennslu í gegnum fjarfundabúnað eða hvalaskoðun og hvalarannsóknarsetur eins og á Húsavík og ýmislegt fleira til að bæjarfélög geti verið sjálfbær.
Slík nýsköpun kallar á heiðarleika, viðskiptasiðferði, sjálfbærni og réttlæti. Einmitt grunngildin sem þjóðin valdi sér á þjóðfundinum.
Síðustu ár hafa sprottið upp þekkingarmiðstöðvar, nýsköpunarkjarnar og rannsóknarsetur víða um land þar sem háskólamenntað starfsfólk getur unnið að rannsóknum og uppgötvunum sem nýtast munu samfélaginu á einhvern hátt. Þótt framlegðin sé ekki mælanleg strax er starf þeirra mikilvægt fyrir framþróun samfélagsins. Nýsköpunarmiðstöð Íslands er svo dýrmætur stuðningur við allt frumkvöðlastarf í landinu með þeirri þekkingu sem þar er saman komin og stuðningi.
Það krefst hugrekkis að vera frumkvöðull og óbilandi trú á sjálfan sig og verkefnið. Því skiptir svo miklu máli að samfélagið sýni skilning og stuðning. Frumkvöðlastarf og nýsköpun tekur tíma og þarf fjármagn. Ekki allar hugmyndir verða að fullburða fyrirtækjum, en eins og í öllu hugarflugi er mikilvægt að skjóta engar hugmyndir í kaf, því fyrir hverja hugmynd sem fæðist og fær að vaxa um stund, koma tíu aðrar í kjölfarið.
Ég er ötull talsmaður frumkvöðlastarfs og nýsköpunar þar sem fólki er gert kleift að skapa sín tækifæri sjálft. Það er miklu meiri framþróun í samfélagi þar sem stutt er við frumkvæði, sjálfstæði, hugrekki og sjálfsbjargarviðleitni heldur en þar frumkvæði er litið hornauga og drepið niður. Þess vegna þurfum við sem samfélag að styðja við frumkvöðlastarf og nýsköpun á allan mögulegan hátt.Höfundur er rithöfundur,
þjóðfræðingur og forsetaframbjóðandi.