Á síðasta ári gaf heimspekingurinn Harry G. Frankfurt út bókina On Inequality sem hefur vakið upp líflegar umræður um fátækt og ójöfnuð. Frankfurt er þekktur fyrir bókina On Bullshit sem hann gaf út árið 2005 og náði miklum vinsældum, m.a. sat hún á metsölulista The New York Time's – sjaldgæft afrek fyrir heimspeking. On Inequality er eins konar svar við bók Thomasar Pikettys, Capital in the Twenty-First Century, sem kallaði eftir aukinni skattlagningu á hina ríku til að stemma stigu við óhjákvæmilegri þróun kapítalismans í átt að síauknum ójöfnuði. Frankfurt færir hins vegar rök fyrir því að gagnrýnin á ójöfnuð sé á villigötum.
Samkvæmt honum er ekkert siðferðislega rangt eða áhugavert við ójöfnuð í sjálfu sér. Vill hann meina að þessi sannfæring, að ójöfnuður sé rangur, sé byggð á innsæi sem er ekki studd neinum rökum. Vandamálið er ekki það að sumir hafi meira en aðrir. Öllu heldur er vandamálið sú staðreynd að sumir hafi ekki nóg og þessu tvennu er ruglað saman í gagnrýninni á ójöfnuð. Hann tekur sem dæmi að sú staðreynd að einhver sem er ofurríkur eigi mun meira en einhver sem er einungis miðlungsríkur veki ekki upp neina siðferðislega vandlætingu, eða raunar viðbrögð yfirhöfuð. Að hans mati er það því aðeins fátækt, ekki ójöfnuður, sem er siðferðislega rangur og krefst þess að bætt sé úr.
Því ætti fókusinn að vera á hvað það er sem veitir fólki lífsfyllingu og hvort það hafi nóg til öðlast hana. Þannig er gagnrýnin á ójöfnuð beinlínis skaðleg þar sem hún beinir athyglinni frá því sem raunverulega skiptir máli. Ef einstaklingur hefur nóg til að lifa lífinu í samræmi við langanir sínar og metnað, þá skiptir það engu máli hversu mikið aðrir hafa. Ójöfnuður er aðeins formlegt fyrirbæri sem snýst um samband milli tveggja hluta, ekki um gildi. Við ættum að einbeita okkur að hinu efnislega – hvort fólk lifi góðu lífi.
Þrátt fyrir að bókin sé vel rökstudd, eins og heimspekingi af stærðargráðu Frankfurts sæmir, þá eru á henni ýmsir vankantar. Í fyrsta lagi er ekki ljóst að hverjum hún beinist. Frankfurt virðist á tíðum vera að beina spjótum gegn þeim sem telja ójöfnuð alltaf vera rangan og eru að kalla eftir algjörum jöfnuði – að enginn megi aldrei hafa neitt meira en aðrir. En það er í rauninni mjög fáir sem gera það. Gagnrýni vinstrisins hefur að mestu leyti verið á hinn gígantíska og ógeðfellda ójöfnuð sem við sjáum í dag þar sem sextíu og fjórar manneskjur eiga meira en helmingur mannkyns og verður sífellt meiri. Kallað er eftir því að stemma stigu við þessum ójöfnuði og komið verði á réttlátara samfélagi, en langflestir viðurkenna að það verði alltaf einhver ójöfnuður. Því eru langflestir sammála um að ójöfnuður sé ekki endilega siðferðislega rangur í sjálfu sér. En hann getur þó verið það, ólíkt því sem Frankfurt heldur fram en samkvæmt honum hefur ójöfnuður ekkert með siðferðislegar spurningar að gera. Samhengið skiptir öllu máli, hversu mikill hans sé, hvernig hann er réttlættur, o.s.frv.
Frankfurt virðist heldur ekki taka með í reikninginn allar þær félagslegu afleiðingar sem ójöfnuður hefur í för með sér. Vandamálið er ekki aðeins það að hinir fátæku og undirokuðu hafi minna í formi fjár. Öllu heldur er það skortur á virðingu, stöðu og möguleikum, það sem franski félagsfræðingurinn Bourdieu kallaði félagslegan kapítal, sem er ekki síður þungbært og alvarlegt. Nýlegar rannsóknir hafa einnig sýnt að hinir ríku lifa mun lengur en þeir sem eru neðar í þjóðfélagsstiganum. Þessi atriði eru bein afleiðing af stéttskiptu samfélagi ójafnaðar og því er það rangt að segja að hann komi því ekkert við hvort við lifum góðu lífi eða ekki.
Annað vandamál við greiningu Frankfurts er hvernig hann lítur framhjá áhrifum ójafnaðar á lýðræðið. Því það er óumdeilanlegt að miklum auð fylgi mikil pólitísk völd. Þannig geta hinir ríku haft mun meiri áhrif á samfélagið en þeir fátæku, staðreynd sem gengur í berhögg við hugmyndir okkar um lýðræðislegt samfélag. Slík ósanngirni grefur undan samheldni og trú almennings á stofnanir samfélagsins og leiðir til pólitískrar uppgjafar. Þessi spurning er vissulega siðferðislegs eðlis ef við skiljum siðfræði í sama skilningi og Aristóteles, en fyrir honum snerist siðfræði um hið góða líf og stjórnmál um hvernig samfélag er best til þess fallið að ná því fram. Þannig eru þessi tvö svið náskyld.
Bók Frankfurts er áhugavert framlag til umræðunnar um ójöfnuð. Hún er góð áskorun til þeirra sem gagnrýna hann. En helsti galli hennar er að Frankfurt virðist skilja hugtakið alltof þröngt. Ójöfnuður er margþætt fyrirbæri sem hefur víðtækar afleiðingar, m.a. félagslegar, sálfræðilegar, hagfræðilegar, pólitískar, o.s.frv. Aðeins með því að líta fram hjá því getur Frankfurt haldið því fram að ójöfnuður sé einungis formlegt fyrirbæri um tengsl sem hafi ekkert með siðferðislegar spurningar að gera.