DV greindi frá því í gær að 20 til 30 starfsmenn ALMC, gamla Straums-Burðaráss fjárfestingabanka, hefðu fengið 3,3 milljarða króna í bónusgreiðslur í desember síðastliðnum. Á meðal þeirra var Óttar Pálsson hrl., lögmaður hjá Logos lögmannsstofu, og Jakob Ásmundsson, fyrrverandi forstjóri Straums.
Greiðslurnar verða að teljast kostulegur gjörningur, í ljósi þess sem á undan er gengið, og einnig þess veruleika sem íslenskt hagkerfi hefur búið við, ekki síst vegna fífldirfsku og glórulausra ákvarðana bankamanna á árunum fyrir hrun. Straumur var einn þeirra banka sem féll vegna þess hve illa var fyrir honum komið, í mars 2009. Snilli þessara sömu manna og fengu bónusgreiðslur í desember síðastliðnum var ekki nægilega mikil þá til þess að bjarga bankanum.
Jakob segir í viðtali við Morgunblaðið, vegna þessara bónusgreiðslna, að þarna hafi einfaldlega verið unnið eftir samþykkt stjórnar ALMC, frá 2011. Greiðslur hafi verið í takt við erlendan veruleika, en ekki innlendan.
Þetta er rétt hjá Jakobi, en það breytir ekki því að engin þolinmæði er fyrir greiðslum sem þessum í íslensku samfélagi, eftir það sem á undan er gengið. Íslenskir bankamenn stóðu ekki undir trausti á sínum tíma, svo ekki sé nú fastar að orði kveðið, og almenningur hefur þurft að búa við ömurlegan haftabúskap árum saman vegna þeirra stöðu sem slitabú bankanna settu hagkerfið í eftir að bankakerfið féll eins og spilaborg.
Það sem kom í veg fyrir að hagkerfið félli alveg til grunna var neyðarréttur ríkisins, en ekkert dæmi er til í sögunni, hvert sem litið er, fyrir viðlíka aðstæðum og voru hér á landi haustið 2008, sem leiddu til beitingu neyðarréttarins.
Þetta er hollt að rifja upp í þessu samhengi, þegar bankafólkið fær milljarða í fangið fyrir „vel unnin“ störf í þágu erlendra kröfuhafa í rústabjörguninni.
Óttar Pálsson, sem DV segir vera einn þeirra sem fékk bónusgreiðslur í desember, skrifaði grein í Morgunblaðið 21. ágúst 2009, þar sem hann baðst afsökunar á því að áætlanir sem þá voru uppi áform um að vinna eftir, væru ekki í nægilegum takti við þær aðstæður sem Íslendingar byggju við sem þjóð. Var þar skírskotað til hárra bónusgreiðslna sem starfsmenn áttu að fá, ef áætlanir myndu ganga eftir.
Það kann að vera að Óttar líti svo á, að aðstæður á Íslandi - mitt í næstum allsherjarþjóðnýtingu á öllu fjármálakerfinu til að losa um fjármagnshöft - séu mun betri til þess að greiða milljarðabónusa til bankamanna, en það er ekki víst að það séu honum allir sammála um það.