Kommentakerfi netmiðlanna eru orðin að súrum brandara. Tilvist þeirra í samtímanum kristallst á margan hátt í hugtakinu „Virkur í athugasemdum“. Kómískum status sem vísar til þess að sá sem hann ber sé krónískur nöldrari og besservisser. Þessi hópur hefur orðið táknmynd þess alltof útbreidda viðhorfs að tjáningarfrelsi á netinu fylgi ekki ábyrgð. Þar megi segja það sem manni sýnist og ástæðulaust sé að skeyta um hvort orð manns særi, móðgi eða jafnvel ógni einhverjum sem þau les.
Bjartsýnisbólan sprakk
Þegar upplýsingabyltingin var að breiðast út ríkti almenn bjartsýni um að þær framfarir sem hún átti að fela í sér myndi breyta samskiptum fólks og gera fleira fólk virkt í opinberri tjáningu. Þeir bjartsýnustu bundu vonir við að upplýsingabyltingin myndi efla lýðræði, einkum með aukinni þátttöku almennings í tjáskiptum um samfélagsmál. Það myndi svo leið til betra samfélags fyrir alla.
Margt af því sem átti að fást með upplýsingbyltingunni varð að veruleika en þróunin hefur ekki gengið eftir að öllu leyti. Það er t.d. mjög umdeilanlegt hvort auðveldari leiðir til opinberra tjáskipta hafi leitt til framfara í lýðræðisþróun. Í dag er sannarlega einfaldara en var fyrir 20 árum (t.d. með notkun samfélagsmiðla) að virkja fólk til þátttöku í baráttu fyrir ýmsa málstaði. Það er yfirleitt jákvætt. Almenningur er á þann hátt orðin virkari þegar kemur að mótun samfélagsins og á auðveldara en áður með að þrýsta á valdhafa í einstökum málum. Meðferð á hælisleitendum á Íslandi er nærtækt dæmi um slíkt.
Einn fylgifiskur upplýsinga- og netbyltinganna var vöxtur fjölmiðlunar á Internetinu. Netmiðlar hafa með tímanum vaxið hefðbundnum prentmiðlum yfir höfuð og virðast ætla að ganga af þeim dauðum með tímanum. Það hefur þó tekið lengri tíma en spáð var. Langt er síðan allir stærri fjölmiðlar á Íslandi hófu netútgáfu samhliða öðrum útgáfuformum auk þess sem fram hafa komið fjölmiðlar sem eru eingöngu á netinu. Það kreppir bæði að prentmiðlum og ljósvakamiðlum. Ákvörðun stjórnenda breska fjölmiðilsins Independent að hætta prentútgáfu í komandi marsmánuði er skýrt dæmi um hvert stefnir. Líf netmiðla er þó enginn dans á rósum en í samfélögum þar sem upplýsingaflæðið er ört er forskot þeirra augljóst gagnvart eldri miðlunarformum. Tilkoma samfélagsmiðla hefur svo breytt fjölmiðlaumhverfinu enn frekar.
Tilraun sem mistókst
Ein af þeim nýjungunum sem fylgdi netmiðlunum voru kommentakerfin sem ætlað var að gera fjölmiðlana gagnvirkari og ýta undir lýðræðislega umræðu með því að gefa lesendum kost á að tjá skoðanir sínar á fréttum og umfjöllunum inni á netmiðlunum sjálfum. Til að lifa verða fjölmiðlar að fylgja straum tímans og það að vera með opin kommentakerfi var nýlunda sem fáir töldu sig geta sniðgengið á sínum tíma enda ríkti þá almenn bjartsýni á gagnsemina. Kommentakerfi voru því innleidd af flestum netmiðlum.
Sú tilraun að leyfa lesendum að kommenta á fjölmiðlaefni hefur nú staðið í allmörg ár. Niðurstaðan hennar er næsta afdráttarlaus. Þó einstaka sinnum sjáist í kommentakerfum áhugaverð viðhorf og pælingar þá hafa flestir þeir sem reynt hafa að nota þennan vettvang til að skapa uppbyggilega og gagnlega umræðu um dægurmál fyrir löngu gefist upp. Þeirra framlög hafa drukknað í hótfyndni, dómhörku, skætingi, ásökunum og illkvittni sem eru orðin helstu einkenni kommentakerfanna. Þegar verst lætur hafa þau orðið kjörlendi fyrir þöggun áreitni, einelti og hótanir.
En geta netmiðlarnir gert eitthvað í því að fólk sýni hvert öðru ekki kurteisi og umburðalyndi á netinu? Já, þeir geta hætt að leyfa þeim sem jafnan ætla öðrum allt hið versta, að nota netmiðlana sem stökkpall til að útbreiða skoðanir sínar. En mætti laga þetta með einhverskonar ritstýringu? Tæplega. Ritstjórnir fjarlægja oftast augljós hatursummæli en þau eru aðeins toppurinn (eða öllu heldur botninn) á vandanum. Aðdróttanir, illmælgi og rætni fá vængi á kommentakerfunum og þess háttar orðræða hefur smám saman yfirtekið þau. Stundum komandi frá fólki sem vegur úr launsátri í skjóli gervipersóna. Að reyna að ritstýra kommentakerfunum er því óvinnandi vegur og gengur raunar gegn hugmyndinni um þau sem opinn vettvang tjáskipta.
Lokið á óhróður, fordóma og mannfyrirlitningu
Netmiðlarnir sem enn hafa opin kommentakerfi ættu að loka þeim sem fyrst og hætta að vera dreifiveitur fyrir óhróður, fordóma og mannfyrirlitningu komandi frá fólki sem skortir dómgreind til að átta sig á merkingu þess sem það lætur út úr sér og gerir sér enga grein fyrir því að tjáningarfrelsi fylgir ábyrgð. Þau sem það vilja geta eftir sem áður ausið úr skálum fordóma sinna á eigin vefsíðum eða á samfélagsmiðlunum og gert það þar á eigin forsendum og á eigin ábyrgð.
Kommentakerfin hafa fyrir löngu sannað gagnsleysi sitt sem tæki til uppbyggilegrar umræðu. Vonir um það hafa brugðist og snúist upp í andhverfu sína. Kommentakerfin voru áhugaverð tilraun. En hún mistókst og kerfin eiga nú að tilheyra fortíðinni.