Einu sinni sem oftar, eru það stjórnmálamenn sem taka ákvörðun um það, að beina umræðu um mörg af þeim erfiðu málum sem við landsmenn glímum við, í skotgrafahernað milli landsbyggðarinnar og höfuðborgðarsvæðisins. Nú síðast er það umræða um þá ákvörðun háskólaráðs Háskóla Íslands að flytja íþróttafræðinám frá Laugarvatni til Reykjavíkur.
Ákvörðunin er umdeild, einkum og sér í lagi við Laugarvatn, enda hefur þar verið áratugahefð fyrir íþróttafræðinámi, og svæðið allt sérsniðið að þeim þörfum. Eðlilega veltir fólk því fyrir sér hvort þessi ákvörðun sé rétt, og reynir jafnvel að eiga samtal um hvort það sé hægt að gera eitthvað annað en að flytja námið til Reykavík. En rökræður um þessa hluti eru nauðsynlegar háskólaumhverfinu á Íslandi, enda ekki alltaf augljóst hvernig starf Háskóla Íslands er best skipulagt.
Það er algjör óþarfi, eins og Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra gerði í gær, að fara enn einu sinni að tala um landsbyggðina annars vegar, og höfuðborgarsvæðið hins vegar - eða nánar til tekið Melana í Vesturbænum - í þessu samhengi. Íþróttafræðinám er eins og allt annað nám á háskólastigi, mikilvægt nám fyrir samfélagið og umræða um skipulagningu þess verður að vera fyrst og fremst á faglegum forsendum.
Það er til dæmis umhugsunarefni, að eftir fimm ára háskólanám í íþróttafræðum, þá eru grunnlaun lág og mörg ár tekur að komast upp í laun sem geta talist sæmileg (ef þau ná því þá). Eru þessi störf metin að verðleikum? Ég er ekki viss um að allir séu á því, hvort sem búseta fólks er á landsbyggðinni eða höfuðborgarsvæðinu. Hugsanlega er þetta ástæðan fyrir því að erfitt er að fá nemendur í námið.
Vonandi mun sá dagur koma, fyrr eða síðar, í íslenskum stjórnmálum, að stjórnmálamenn hætti að fjalla um málefni upp úr skotgröfum landsbyggðar og höfuðborgarsvæðisins. Þingmenn eru sekir um þessa orðræðu, sem koma bæði frá landsbyggðinni og höfuðborgarsvæðinu. Þetta þarf að breytast, enda gera líklega flestir landsmenn sér grein fyrir því að í okkar fámenna landi skiptir máli að rætt sé málefnalega um þau vandamál sem þarf að leysa og þá á faglegum nótum. Flóknara er það nú ekki.