Andrúmsloftið í myrku bakherberginu er mettað vonbrigðum og vindlareyk svo auðmennirnir sjá varla ístru hvors annars út um einglyrnin. „Ég trúi þessu ekki!“ stynur Einar Auðvald og ber viskíglasinu í tekkviðarborðið þannig það slettist upp úr því. „Við gefum verkaskrílnum rúmlega helminginn af verðbólgunni í launahækkanir og fáum svo þessa tusku í andlitið frá einhverjum fokkans þingmönnum!“ segir hann og klárar úr glasinu.
Kormákur Kapítal teygir sig í karöfluna og hellir sér þrefaldan í kristalinn, losar um bindishnútinn og hneppir frá efstu tölu skyrtunnar. „Hvernig dirfast þeir???“ öskrar hann nötrandi af bræði svo svitaperlurnar skoppa af efri vörinni. „ÞRJÁTÍUOGFIMM TÍMA VINNUVIKA! Það vita allir að við eigum að semja lög um vinnumarkaðinn og senda til Alþingis, ekki öfugt.“
„Hvar halda þeir eiginlega að þeir búi? Í Norrænu velferðarríki?“ spyr stjórnarmaður og hringborðið skellir upp úr svo pípuhattar detta á gólfið og vindlareykurinn hóstast út í loftið í hlátrasköllunum. Annar skýtur inn: „Æj ég held þetta séu nýju kommúnistarnir á þingi, þessir þarna tölvunördar. Þeir eru ekki ennþá búnir að læra inn á samkomulagið okkar.“
„Bara að maður hefði verið uppi á tímum iðnbyltingarinnar, fyrir tíma vinnulöggjafar,“ segir Jói dreyminn á svip. „Þegar maður gat þrælað fólki út allan sólarhringinn og skipt því út ef það veiktist eða slasaðist.“ „Já, muniði líka eftir Kárahnjúkum? Það er bara ekki jafn auðvelt að leigja fólk af starfsmannaleigunum lengur. Svo verður örugglega ennþá meira skrifræði í kringum það eftir þetta vesen þarna í Vík. Fólk þarf að passa sig.“
Skyndilega heyrast þungir dynkir og stjórnarmönununum verður litið á Einar Auðvald við enda borðsins þar sem hann hefur tekið sér fundarhamarinn í hönd og ber honum án afláts í antíkina: „Strákar! Við megum ekki missa okkur í nostalgíu. Það er aðkallandi mál á borðinu og mikilvægt að kæfa þessa hugmynd í fæðingu,“ segir hann og strýkur svitann af enninu með hvíthanskaklæddu handarbakinu.
„Svenni, hafðu samband við PR-gæjann og láttu skrifa fréttatilkynningu um að verði vinnuvikan 35 tímar muni koma önnur kreppa, súrt regn, atvinnuleysi og kettlingar deyji umvörpum. Segjum líka að 40 stunda vinnuvikan sé verkfæri Satans og bættu við einhverri snjallri myndlíkingu um hjól atvinnulífsins. Jói þú talar við markaðsdeildina. Ég væri til í aðra sjónvarpsherferð eins og um daginn, með björtum litum, teiknimyndum, kökum og stórum prósentum. Kormákur, þú bjallar í Björn Jón Bragason og segir honum um að leggja næsta Reykjavík Vikublað undir áróður. Þetta gengur fyrir öllu öðru, Bjössi fær í mesta lagi eina síðu undir gömlu menntaskólaverkefnin sín. Ég skal hringja í ASÍ og segja þeim að allir lífeyrissjóðirnir fari í fokk ef þeir taki ekki afstöðu með okkur.
Fundi er slitið“
*Dúnk*