Píratar hafa mælst langstærsta stjórnmálaafl á Íslandi undanfarið ár, og eru með 35,3 prósent fylgi í nýjustu skoðanakönnun Gallup.
Þegar rúmt ár er til kosninga eru Píratar með stórt og mikið tækifæri til að breyta íslenskum stjórnmálum, með stórsigri í kosningum og komast í lykilstöðu við myndun næstu ríkisstjórnar.
En það er ekkert öruggt, í hinum pólitíska heimi, og ljóst að Píratar munu þurfa mikil klókindi ef þeir ætla sér að verða hreyfiafl í átt til mikilla kerfisbreytinga.
Umræður á Pírataspjallinu á Facebook hafa verið líflegar að undanförnu, og skoðanaskipti hafa verið sérstaklega áberandi og oft stór orð notuð. Greinilegt er að þessi fjöldahreyfing er mikilli mótun, nánast frá degi til dags, og erfitt að átta sig á því hvort skoðanaágreiningur þingmanna eða annarra sem starfa með Pírötum, er góður eða slæmur fyrir fylgið.
Margir kunna nefnilega að meta það, þegar flokksmenn deila og eru með innri gagnrýni á hinum ýmsu málum, fyrir opnum tjöldum. Síðan skiptir máli að flokkarnir geti unnið úr skoðanaágreiningi með málefnalegum hætti. Þar liggur tækifæri Pírata ekki síst, á því rúma ári sem er til kosninga.