Til stendur að efla heilsugæslu á höfuðborgarsvæðinu og hefur Kristján Þór Júlíusson, heilbrigðisráðherra, boðað átak í þessum efnum, og þá einkum með því að auka einkarekstur í heilsugæslunni.
Ekki er hægt að segja annað, en að það sé kominn tími til að efla heilsugæsluna á höfuðborgarsvæðinu. Á áratug hefur íbúum fjölgað um 20 þúsund, en fjármunir til reksturs heilsugæslu á svæðinu hafa dregist saman um níu prósent sé miðað við árið 2008.
Með því að bjóða út heilsugæslu, er markmiðið meðal annars að styrkja þjónustuna og koma í veg fyrir að fólk leiti beint til sérfræðinga með atriði, sem heilsugæslan ætti að geta sinnt.
Það sem heilbrigðisráðherra verður að hafa í huga í þessu máli, er að fólk verður að fá að sjá skýrt fram sett, hvernig einkareksturinn á að skila betri þjónustu. Það er ekki augljóst að hann ætti að gera það. Það er ekki nóg að grípa til frasa um að einkareksturinn leysi krafta úr læðingi og auki hagræðingu. Þegar kemur að heilbrigðisþjónustu er alls ekki augljóst að einkarekstur sé heppilegur í öllum tilfellum, jafnvel þó hann henti í sumum tilvikum.
Þetta er mikilvægt mál sem heilbrigðisráðherra vonandi gerir sér grein fyrir, að þarfnast mikillar eftirfylgni.