Eins og jafnan þegar Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra heimsækir Austurland, færir hann heimamönnum tíðindi og fer vítt og breitt yfir hið pólitíska svið. Frásögn Austurfréttar af fundi hans og félaga í Framsóknarflokknum, með heimamönnum á Egilsstöðum var athyglisverð.
Hann sagði á fundinum, að síðasta ár kjörtímabilsins yrði nýtt vel til þess að sækja fram á hinum ýmsu sviðum. Endurskipulagning fjármálakerfisins væri á teikniborðinu, og afnám verðtryggingar á húsnæðislánum væri auk þess mál sem ekki yrði gefið eftir. Það væri prinsippmál að klára það á kjörtímabilinu.
Sigmundur Davíð sagði enn fremur að byggðamál yrðu ofarlega á baugi ríkisstjórnarinnar, sem og málefni öryrkja og aldraðra.
Greinilegt er að ríkisstjórnin ætlar sér að koma mörgum stórum málum í gegn á næsta rúmlega árinu. Spennandi verður að sjá hvernig stjórnarflokkunum mun ganga að stilla saman strengi í þessum málum, þar sem flokkarnir hafa um margt ólíkar áherslur.