Það er um margt merkilegt, að fjölmörg samtök í ferðaþjónustu og á sviði náttúruverndar, standi sameinuð sem eitt afl, í baráttunni fyrir verndun hálendisins. Þó vel megi sjá þetta sem sameiginlegt hagsmunamál, þá er oft erfitt að fá öll hagsmunasamtök til að róa í sömu átt.
Það hefur tekist í þessu máli, og því fylgir mikill þungi sem stjórnmálamenn, hvar í flokki sem þeir standa, verða að bera virðingu fyrir og taka ákvörðun um hvar þeir ætla að staðsetja sig.
Ferðaþjónustan er orðin að stærsta gjaldeyrisskapandi atvinnuvegi þjóðarinnar, og gera nýjustu spár ráð fyrir að gjaldeyrisinnspýting vegna hennar fari yfir 400 milljarða á þessu ári.
Umræða um nauðsynlegar fjárfestingar í innviðum ferðþjónustunnar, þar á meðal í þjóðgörðum, hefur verið áberandi í næstum tvö ár, án þess að mikið hafi verið gert sem máli skiptir. Þörfin á uppbyggingu innviða er aðkallandi og þolir litla sem enga bið.
Það sama má segja um það, að marka skýra stefnu um hvernig ímynd landsins á að birtast útlendingum. Hálendisþjóðgarður er ekki aðeins góð hugmynd, heldur eitt mikilvægasta efnahags- og náttúruverndarmál sem íslenskt samfélag stendur frammi fyrir. Þegar búið er að draga skýra línu um hálendið, þar sem náttúran fær að vera óröskuð og vernduð, þá er stórum áfanga náð, fyrir framtíðarkynslóðir.
Vonandi munu sem flestir skrifa undir viljayfirlýsingu um stofnun þjóðgarðs um miðhálendi Íslands. Stjórnmálamenn munu ekki komast upp með að gera lítið úr henni.