Árið 2013 gaf kanadíski heimspekingurinn Joseph H. Carens út bókina The Ethics of Immigration. Þar leitast hann við að skoða fólksflutninga frá siðfræðilegu og stjórnmálaheimspekilegu sjónarhorni. Í bókinni fjallar hann um ólíkar gerðir af fólksflutningum og hversu langt ríki mega siðferðilega ganga í að neita að hleypa fólki inn í landið og gefa þeim dvalarleyfi og ríkisborgararétt. Niðurstaðan sem hann kemst að er sú að siðfræðilega þá er ekkert sem réttlætir lokuð landamæri.
Carens bendir á að við teljum það oftast sjálfsagt að ríki hafi fullkomlega frjálsar hendur til að ákveða hverjum er hleypt inn í landið og hverjum ekki, að það sé á einhvern hátt eðlilegur réttur þeirra. En hann sýnir fram á að hlutirnir eru alls ekki svo einfaldir. Það væri t.d. óumdeilanlega óréttlátt ef ríki myndi neita barni, sem á foreldra sem báðir eru ríkisborgarar, um ríkisborgararétt. Almennt er litið svo á að það séu sjálfsögð mannréttindi að barnið fái þá einnig ríkisborgararétt. En Carens bendir hérna á að það er ekkert náttúrulegt eða sjálfsagt við þetta ferli. Það eru reglur sem við höfum komið okkur saman um sem kveða á um það og því er það raunin. Ennfremur sýnir þetta dæmi fram á að við erum almennt sammála um að það séu vissar takmarkanir á rétti ríkisins til að neita fólki um ríkisborgararétt eða inngöngu í landið, þau geti þannig ekki gert það sem þeim hentar, hendur þeirra eru bundnar af hugmyndum um réttlæti og siðferði sem þau skuldbinda sig til.
Við teljum okkur búa í ríkjum sem byggja á siðferðilegum reglum. Til dæmis myndu fáir samþykkja það ef ríkið tæki upp á því að neyða ríkisborgara til að skipta um trú, eða ef það skeytti engu um tjáningarfrelsið. Ef neita á fólki inngöngu í landið, þá verður því að vera hægt að verja það með siðferðilegum rökum.
Carens vísar oft í Helförina sem leiðbeinandi dæmi. Eins og alkunna er, þá brugðust margar þjóðir þegar kom að því að hjálpa gyðingum í Seinni heimsstyrjöldinni, sem leiddi í mörgum tilvikum með beinum hætti til dauða þeirra. Þær þjóðir sem um ræðir (m.a. Ísland) eru þó í dag á einu máli um að viðbrögð þeirra, eða öllu heldur viðbragðaleysi, hafi verið stór mistök og hvílir sú skömm ennþá þungt á herðum þeirra. Eftir stríðið var sammælst um að slíkt mætti ekki endurtaka sig og því var Genfarsáttmálinn undirritaður. Nú er hins vegar svo komið að ríku þjóðirnar hafa komið sér upp ýmsum vörnum sem koma í veg fyrir að fólkið sem þarf á honum að halda geti nýtt sér hann. T.d. þarf fólk frá fátækari löndum passa til að geta ferðast til ríku landanna. Ef grunur er uppi um að fólkið muni sækja um hæli, þá fá þau ekki þennan passa, o.s.frv. Þetta á sér stað þrátt fyrir að fólkið sem um ræðir uppfyllir öll skilyrði sem hælisleitendur þurfa að uppfylla og ættu þannig, samkvæmt sáttmálanum, að fá hæli ef eðlileg málsmeðferð væri tryggð. Í verki þá þýðir þessi stefna það að byrðunum er velt yfir á fátækari lönd, t.d. Líbanon eða Jórdaníu, sem eru mun verr í stakk búin til að takast á við slíkt. Carens bendir á að ríku þjóðirnar eru að bregðast siðferðilega á sama hátt og í Helförinni, þar sem þær eru nákvæmlega eins hægar til hreyfings og nota nákvæmlega sömu rökin og þá.
Að mati Carens er það því siðferðileg skylda ríku þjóðanna að taka á móti flóttafólki sem er í neyð. Þessi fullyrðing er nokkuð óumdeild, flestir samþykkja hana þótt margir séu ekki tilbúnir til að samþykkja afleiðingarnar sem hún hefur í för með sér. En Carens gengur þó enn lengra og vill meina að það séu engin siðferðileg rök sem réttlæta lokuð landamæri yfirhöfuð. Hann kemst að þeirri niðurstöðu að landamæri ættu að vera opin með því að skoða hvernig heimurinn er skipulagður í dag. Carens kemur úr frjálslyndis stjórnmálaheimspekihefðinni sem John Rawls mótaði öðrum fremur á síðari tímum, en samkvæmt henni er sanngirni helsti mælikvarðinn á réttlæti. Með því að skoða núverandi skipan heimsins kemst hann að þeirri óumflýjanlegu niðurstöðu að mikið ósanngirni ríkir á milli þjóða heimsins. Hann gengur svo langt að líkja núverandi skipulagi við lénskerfi þar sem tilviljun ein ræður því hvar í heiminum þú fæðist en ef þú ert svo óheppin/n að fæðast í fátæku landi þá er svo gott sem enginn möguleiki á að bæta hag þinn með því að flytja annað. Þannig er frelsi fólks verulega skert, eitthvað sem samræmist ekki þeim hugmyndum um réttlæti og siðferði sem við höldum á lofti. Nú eru nánast allir sammála um að lénskerfi sé óréttlátt. En ef svo er þá spyr Carens hvers vegna sömu rök gilda ekki gegn núverandi kerfi? Það er ekkert náttúrulegt við það hvernig heimurinn er skipulagður, það er mannanna verk og við þurfum að spyrja okkur hvort skipulagið sé réttlátt og sanngjarnt. Ef ekki þá er það skylda okkar að bæta úr því.
Eitt helsta óréttlætið liggur einmitt í réttinum sem ríku þjóðirnar gefa sér til að meina fólki inngöngu í landið. Að baki því liggur m.a. ótti um að ef það er ekki gert þá muni landið fyllast af innflytjendum sem ríkið hefur ekki burði til að taka á móti. Þrátt fyrir að Carens afskrifi ekki þessar áhyggjur með öllu, þá bendir hann á að fólk vilji almennt ekki flytja til annarra landa þar sem þau tala ekki tungumálið, þekkja engan, o.s.frv. Slíkt er aðeins gert í ítrustu neyð. Hann bendir einnig á móti aftur á gyðinga í Seinni heimsstyrjöldinni. Hvenær hefði það verið siðferðilega réttlætanlegt að neita að taka á móti þeim? Flestir sjá það að á þeim tíma var það siðferðileg skylda að gera allt til þess að koma þeim til hjálpar á meðan að það virðist vera erfiðara fyrir marga að sjá núverandi aðstæður í sama ljósi, jafnvel þótt nákvæmlega sömu rök gilda. Þessi ótti ríku þjóðanna byggir á engum marktækum siðferðilegum rökum sem trompa þá skyldu að koma fólki í lífshættu til hjálpar.
Ein helstu mótrökin sem hægt væri að koma með gegn afstöðu Carens er sú að okkur ber meiri siðferðileg skylda til að hjálpa þeim sem standa okkur nærri – eins og margir siðfræðingar hafa fært rök fyrir. Þannig væri það siðferðilega réttlætanlegt að hugsa meira um samborgara okkar heldur en fólk sem kemur frá fjarlægum löndum. Carens tekur þetta sjónarmið til skoðunar og samþykkir það raunar – upp að vissu marki. En hann bendir á móti á að þrátt fyrir að það sé réttlætanlegt að forgangsraða þeim sem standa okkur nærri, þá má það ekki vera á þann veg að traðkað sé á réttindum annarra, slíkt er óréttlætanlegt. Þeir sem nota þetta sem rök með lokuðum landamærum gefa sér einnig þá forsendu að núverandi skipulag heimsins sé ekki óréttlátt, en ef það er tekið með í reikninginn þá er slíkt siðferðilega óverjandi.
Samkvæmt Carens ber okkur siðferðileg skylda að uppræta óréttlæti og gera heiminn að sanngjarnari stað. Fólksflutningar er ein leið til að gera það því þannig er að einhverju leyti bætt úr þeim gríðarlega ójöfnuði og óréttlæti sem einkennir ríki heimsins. En þeir eru þó engin lausn. Carens tekur oft fram að hann sé heimspekingur en ekki stjórnmálamaður, því er hann ekki með neinar töfralausnir á núverandi ástandi. Hann er aðeins að fjalla um hvað sé siðferðilega rétt og rangt, ekki hvernig fullkomnu réttlæti verði komið á.
En niðurstaða hans er þó skýr. Siðferðilegu rökin benda ótvírætt á opin landamæri sem hið eina rétta og sanngjarna í stöðunni. Með því að loka landamærum og neita fólki um inngöngu í landið erum við einmitt að viðhalda óréttlæti. Hægt er að færa ýmis rök fyrir því að ríki eigi að hafa rétt til að ákveða hver kemur inn í landið, en það verður ekki varið frá siðfræðilegu sjónarhorni.