Því miður eru fjármagnshöftin ekki farin ennþá. Á næstunni mun væntanlega skýrast hver framvindan verður, þegar kemur að losun hafta og útboða til að sprengja niður snjóhengju aflandskróna, svo tekið sé til orða með myndlíkingum.
Óhætt er að segja að vel hafi tekist til, þegar kemur að því að leysa úr þeim mikla vanda sem snéri að slitabúum föllnu bankanna. Ríkið á nú Landsbankann og Íslandsbanka, eins og kunnugt er, og er reiknað með því að ríkissjóður fái til sín um 500 milljarða króna, að öllu meðtöldu, þegar upp verður staðið.
Vonandi munu stjórnvöld sjá til þess, að öll gögn er vörðuðu málið - meðal annars sérfræðiálit frá pólitískum ráðgjöfum, sérfræðingum, innlendum og erlendum, og öðrum sem komu að málinu - verði gerð opinber þegar þessi mál hafa verið til lykta leidd. Það er full ástæða til, enda er vitað mál, að tekist var á um það bak við tjöldin, hvernig ætti að leysa úr málum, og sitt sýndist hverjum. Þessar rökræður, undir því álagi sem íslenska hagkerfið var í, leiddu að lokum til farsællar niðurstöðu.
En til þess að það sé hægt að læra af málinu í heild sinni, og öll sjónarmið liggi fyrir, þá verður að draga tjöldin frá og leggja öll spilin á borðið. Það er ekki síst mikilvægt fyrir komandi kynslóðir, alveg eins og reyndin var með vinnu Rannsóknarnefndar Alþingis um bankahrunið, að fá upplýsingarnar fram.
Kjarninn hefur ítrekað óskað eftir því að fá gögn afhent um málið, meðal annars minnisblöð og önnur gögn sem framkvæmdahópur um afnám hafta hafði til hliðsjónar við störf sín. Ástæðan er augljós; málið varðar mikla almannahagsmuni, og að okkar mati eiga gögn um málið erindi við almenning.
Í nóvember 2014 var beiðni send til efnahags- og fjármálaráðuneytisins, um að fá gögn afhent, en því var neitað, og helst horft til þess að um vinnugögn væru að ræða. Þetta á ekki við lengur, þar sem vinnunni, sem snéri að stöðugleikaskatti og stöðugleikaframlagi - og heildrænni útfærslu á þessum erfiðu málum - er nú lokið. Beiðni hefur verið send til Seðlabanka Íslands, og til efnahags- og fjármálaráðuneytisins, um fá gögnin afhent, svo það sé hægt að glöggva sig á því hvernig komist var að niðurstöðu í málinu, sem allir hafa ekki verið sáttir við, t.d. ekki Indefence samtökin sem telja almenning hafa verið hlunnfarinn um mörg hundruð milljarða í málinu.
Vonandi munu stjórnvöld og Seðlabanki Íslands taka vel í þessar beiðnir, og afhenda öll gögn er málin varða, sem hægt er að afhenda, lögum samkvæmt. Meginreglan um að stjórnsýslan eigi að vera gagnsæ og opin, verður þar vonandi leiðarljós.