Árið 2050 verður sá hópur fólks, sem hættur er að vinna, stærri en hópur þeirra sem eru yngri en 20 ára. Það þýðir að sá hópur sem er á vinnualdri þarf að styðja við fleiri aldraða en unga. Í dag er yngri hópurinn nokkuð fjölmennari. Samkvæmt mannfjöldaspá hækkar meðalaldur þjóðarinnar verulega til ársins 2060. Um þetta mátti lesa í fróðlegri fréttaskýringu á vef RÚV í gær.
„Ástæðan fyrir því að meðalaldur fer vaxandi er auðvitað fyrst og fremst sú að fólk lifir lengur. Það er tvennt sem gerist, og annað á rætur að rekja til fortíðarinnar. Fram til seinni stríðsáranna, þá fæddust rétt um 3000 börn á ári að meðaltali, en eftir stríðsárin þá fjölgaði þeim upp í 4500 á ári. Núna fer þessi hópur smám saman að eldast og tekur við af fámennari árgöngum,“ segir Ómar Harðarson, sérfræðingur hjá Hagstofunni, í viðtali við RÚV.
Þessar upplýsingar um breytingar á samfélagsgerðinni á næstu árum, gefa vísbendingu um nauðsyn þess að laga lífeyriskerfi landsmanna að breyttum veruleika. Það þolir enga bið að endurskoða kerfið. Fyrstu skrefin hafa verið stigin, en það þarf helst að ganga lengra, og stíga þau hraðar. Vonandi munu stjórnvöld halda áfram á þeirri braut að vinna að sjálfbæru lífeyriskerfi fyrir landsmenn, en neikvæð tryggingarfræðileg staða þess nemur nú um 600 milljörðum króna.