Í nýlegri fréttaskýringu Kjarnans á svokölluðu gervibarkamáli eru rangar fullyrðingar um afstöðu Læknadeildar Háskóla Íslands í þessu alvarlega máli. Í umræddri frétt leitaði blaðamaður ekki álits forsvarsmanna deildarinnar og er það miður.
Um er að ræða alvarlegt mál en þó einnig flókið og margþætt. Eru nú í gangi margar sjálfstæðar rannsóknir er lúta að ásökunum um óvönduð eða óheiðarleg vinnubrögð og einnig er í gagni lögreglurannsókn er beinist að ábyrgðarmanni rannsóknarinnar í Svíþjóð. Sá þáttur þessa máls er snýr að Læknadeild og Háskóla Íslands er fyrst og fremst vísindalegi þátturinn og þar er til rannsóknar ásakanir um vísindamisferli (e. scientific misconduct). Í einni af þeim vísindagreinum sem verið er að rannsaka eru tveir af 28 meðhöfundum íslenskir læknar, annar þeirra prófessor við Læknadeild. Læknadeild lítur þessar ásakanir alvarlegum augum og hefur unnið að því að tryggja að hið sanna verði upplýst í málinu. Málið hefur verið kynnt fyrir yfirmönnum skólans, bæði rektor og forseta Heilbrigðisvísindasviðs. Læknadeild hefur rætt þetta mál á vettvangi deildarráðs og deildarfundar, en sá fundur er sameiginlegur fundur allra akademískra starfsmanna deildarinnar.
Stefna Læknadeildar er skýr; hún er sú að styðja með öllum ráðum rannsókn á þessum ásökunum. Jafnframt styður hún eindregið skipan sjálfstæðrar nefndar til að upplýsa ásakanir um vísindamisferli. Þessa skoðun mótaði deildin sér í samráði við yfirstjórn skólans strax og málið var endurvakið í upphafi þessa árs í kjölfar sýningar á heimildarmynd í sænsku sjónvarpi og fjölmiðlaumfjöllun í kjölfar hennar. Yfirstjórnir háskólans og Læknadeildar hafa verið í sambandi við yfirstjórn Karólínsku stofnunarinnar en sú stofnun bar vísindalega ábyrgð á umræddri tilraunameðferð og hýsti Paolo Macchiarini, ábyrgðarhöfund þessara vísindagreina. Karólínska stofnunin bar einnig ábyrgð á fyrri rannsókn á þessum ásökunum um vísindamisferli en sú rannsókn hefur verið harðlega gagnrýnd. Í samskiptum við Karólínsku stofnunina hefur komið skýrt fram að Læknadeild styðji að fram fari óháð rannsókn og hefur lýst yfir fullum vilja til samstarfs. Þessi skoðun deildarinnar er í samræmi við kröfur fjölmargra í Svíþjóð sem hafa gagnrýnt málið, meðal annars fjórmenninganna sem lögðu fram ásakanir um misferli. Fljótlega í kjölfar þessara samskipta við Karólínsku stofnunina fengum við staðfest að fram muni fara óháð rannsókn á öllum þáttum ásakana um vísindamisferli. Sú rannsókn verður unnin af sænsku Vísindasiðanefndinni og berum við fullt traust til þessarar rannsóknar.
Sú sjálfstæða og óháða rannsókn sem nú er að hefjast mun afla gagna frá öllum þeim aðilum sem hafa komið að vísindaþætti málsins, þar á meðal frá íslenskum læknum. Rannsóknin hefur það skýra hlutverk að rannsaka ásökun um misferli og mun hún starfa án landamæra. Rétt er að minna á að flest þau gögn sem um ræðir í þessu máli, svo sem lífsýni, rannsóknarniðurstöður og gögn um leyfisveitingar eru í Svíþjóð. Gögn frá Íslandi verða þó einnig til rannsóknar og verða þau send til rannsóknaraðila (samkvæmt þeim lögum sem að þeim lúta), en rétt er þó að minna á að mörg þeirra eru sjúkragögn og því á ábyrgð Landspítalans, ekki háskólans. Rannsóknin á að kveða upp úr um hvort að um vísindalegt misferli hafi verið að ræða og ef svo er þá þarf hún einnig að upplýsa hjá hverjum ábyrgð á misferlinu liggur. Heiður og trúverðugleiki fjölmargra vísindamanna sem hafa komið að þessum vísindagreinum liggur þar undir en þó er mikilvægt að benda á að trúverðugleiki vísindanna sjálfra vegur þó enn þyngra. Sérstaklega er mikilvægt að trúverðugleiki vísindarannsókna á fólki eða nýrra meðferðartilrauna standi föstum fótum enda um að ræða heilsu og velferð sjúklinga.
Við þurfum að gera miklar faglegar kröfur í rannsóknum á ásökunum um vísindamisferli. Okkar samfélag er lítið, hagsmunir eru víða samofnir og getur slíkt dregið úr trúverðugleika rannsókna. Því tel ég að sú leið að lýsa yfir eindregnum vilja um að styðja aðkomu sjálfstæðrar, heildstæðrar og óháðrar rannsóknar sé bæði fagleg og til þess fallin að auka trúverðugleika á niðurstöðu hennar. Sú nýja rannsókn sem sænska vísindasiðanefndin stýrir tel ég að uppfylli vel þessa réttmætu kröfu um trúverðugleika. Rétt er að benda á að margir hafa óskað eftir því með málefnalegum rökum að einnig eigi að fara fram sjálfstæð rannsókn hér á landi. Ég ber virðingu fyrir þeim sjónarmiðum þó svo að ég telji að rannsóknarhagsmunum séu betur varðir með heildstæðri rannsókn sem nái til allra þátta málsins. Ég tel að þarna deili menn um aðferðafræði en að báðir aðilar hafi þó sama markmiðið sem er að tryggja trúverðuga og ýtarlega rannsókn. Fullyrðing í fréttaskýringu Kjarnans að ég sem forseti Læknadeildar sjái ekki ástæðu til að gera óháða rannsókn á málinu er því fjarri sannleikanum.
Það eru fjölmörg önnur atriði sem gera mætti alvarlegar athugasemdir við í umræddri fréttaskýringu. Ég vil þó hér fyrst og fremst árétta að hinar alvarlegu ásakanir í þessu máli eru nú til rannsóknar. Niðurstöður þessara rannsókna liggja ekki fyrir og því skiptir höfuðmáli að leiða þær til lykta en dæma ekki fyrirfram líkt og oft er gert í umræddri fréttaskýringu. Í henni er meðal annars fullyrt að starfsmaður háskólans hafi ekki farið eftir siðareglum skólans er lúta að vandvirkni og heilindum í þessu máli. Þessi ásökun er mjög alvarleg og vegur að heiðri þess starfmanns. Slíka ásökun leggur vandvirkur fjölmiðill ekki fram áður en niðurstaða rannsókna liggur fyrir. Einnig er látið að því liggja að málþing við Háskóla Íslands ári eftir umrædda aðgerð hafi rutt brautina fyrir frekari aðgerðir. Ekki er þess þó getið að næsta aðgerð af þessu tagi við Karólínsku stofnunina hafði þó farið fram um hálfu ári fyrir umrætt málþing. Einnig rétt að minna á að málþingið var haldið fyrir tæpum fjórum árum síðan; meira en tveimur árum áður en fyrstu ásakanir um óheiðarleg vísindaleg vinnubrögð voru settar fram. Á umræddu málþingi voru bæði almennir fyrirlestrar um stofnfrumur og lækningar og einnig fyrirlestrar um umrædda tilraunameðferð. Í fyrirlestrum og umræðum um aðgerðina var meðal annars bent á ýmis flókin vandkvæði sem höfðu komið upp í kjölfar hennar, sýkingar og önnur vandkvæði. Á málþinginu var meðal annars sjúklingurinn sem hafði undirgengist þessa meðferð og tók hann af eigin frumkvæði þátt í pallborðsumræðum. Ekki er því líklegt að ásetningur skipuleggjenda hafi verið að leyna einhverju. Í ljósi þeirra ásakana sem nú eru til rannsóknar þá þarf að hugsanlega að endurskoða trúverðugleika einhvers þess sem kynnt var á þessu málþingi. En áður en niðurstöður liggja fyrir þurfum við einfaldlega að bíða átekta.
Ástríður Stefánsdóttir, læknir og siðfræðingur og Vilhjálmur Árnason, siðfræðingur telja bæði að Íslendingar þurfi að ræða þær siðferðilegu spurningar sem þessi tilraunameðferð vekur. Um það er ég þeim sammála. Ég tel að þær rannsóknir á alvarlegum ásökun sem nú þegar hefur verið ýtt úr vör sé einungis fyrsta skrefið á langri braut. Árangursríkar og trúverðugar rannsóknir eru þó forsenda þess að við getum dregið rétta lærdóma. Af þeirri ástæðu hefur Læknadeild lagt allt kapp á að tryggja að eins góð rannsókn fari fram á þessu málinu og unnt er framkvæma. Ef að rannsóknin leiðir í ljós að aðkoma íslensks vísindasamfélags í þessu máli var athugaverð þá mun það kalla á ýtarlega skoðun hér innanlands. Jafnvel þó að rannsókn leiði ekkert athugavert í ljós í aðkomu okkar vísindasamfélags þá þurfum við draga lærdóma af þessu máli og búa svo um hnútana að trúverðugleiki ríki um vísindarannsóknir á fólki.