Yfirlýsingar Baracks Obama, forseta Bandaríkjanna, um nauðsyn þess að breyta um stefnu í málum sem snúa að eiturlyfjafíkn fólks, gætu reynst áhrifamiklar í Bandaríkjunum og víðar. Obama sagði að grundvallaratriðið væri það, að eiturlyfjafíkn væri heilsuvandamál en ekki glæpsamalegt athæfi, og það þyrfti að nálgast allan málaflokkinn, sem snéri að eiturlyfjum, út frá þessu atriði.
Þetta kunna að hljóma sem augljós sannindi fyrir einhverjum, en þegar umræða um þessi mál á heimsvísu er annars vegar þá vega svona skilaboð frá valdamesta stjórnmálamanni heimsins þungt.
Orðin lét hann falla á ráðstefnu um eiturlyfjafíkn í Atlanta í fyrradag. Hann boðaði stefnubreytingu í þessum málum af hálfu stjórnvalda í Bandaríkjunum og tilkynnti um 116 milljón Bandaríkjadala meðferðarverkefni, sem á að miða að því að fræða fólk um alvarleika fíkniefna og hjálpa fíklum að ná vopnum sínum á nýjan leik.
Það er hrollvekjandi tilhugsun, að velta upp þeirri spurningu, hvernig sagan muni dæma síðustu áratugina þar sem eiturlyfjafíklar hafa verið dæmdir til fangelsisvistar. Ótrúlegur fjöldi fanga situr inni fyrir fíkniefnabrot.
Ef það verður leiðarstefið í stefnu stjórnvalda - og helst ríkjasamband og þjóða - þegar kemur að fíkniefnamálaflokknum, að líta á vanda eiturlyfjafíkla sem heilsuvandamál en ekki glæpsamlegt athæfi, þá gæti það ýtt bolta af stað sem endaði með réttlátara kerfi og skynsamlegra fyrir samfélagið. Það yrði leiðin til réttlætis, fremur en harðar refsingar og fangelsisvist hjá veiku fólki.