Þau fjörutíu og fjögur ár sem ég náði að lifa af tuttugustu
öldinni fannst mér umræðan fársjúk. Mig verkjaði í hjartað af löngun til að tjá
tilfinningar og skoðanir en fannst ég aldrei verðug. Umræðan var fyrir útvalda.
Ef ég spjallaði við kunningja um menn og málefni var ég að slúðra. Það var
ljótt og því best að þegja. Stundum vogaði ég mér að tjá mig opinberlega en
undirbyggði álit mitt með varnöglum og dró úr vægi þess með smækkunarendingum.
Inni í mér uxu tilfinningar og skoðanir eins og illkynja sjúkdómur.
Svo komu samfélagsmiðlarnir. Ég fór að lauma inn varnegldum athugasemdum en varpaði smám saman af mér varkárninni og varð rödd með röddum í umræðu sem er til fyrir alla. Nú fer ég á samfélagsmiðla til að máta skoðanir mínar við aðrar sem ég ýmist aðhyllist eða fordæmi en finnst gott að vita að eru til.
Sumt af því sem birtist í þessari gríðarstóru þjóðarsál er sjálfsagt skaðlegt. Ég vona að það séu vaxtarverkir nýfengins málfrelsis. Það tekur meira en tíu ár að venjast byltingarkenndum breytingum á samfélagsumræðu og okkur ber skylda til að þróa þessa gagnvirku miðla í stað þess að lasta þá. Væri ekki spennandi að taka höndum saman um heilbrigða og heilandi umræðu á samfélagsmiðlum sem við notum meira en aðrar þjóðir?
Stofudrama á þjóðarheimili
Það er ýmislegt annað sjúkt í íslenskri samfélagsumræðu. Bandarísk leikskáld á síðustu öld kenndu okkur að skoða samskipti í sjúkum fjölskyldum. Eftirfarandi samtal á íslenska þjóðarheimilinu gæti verið sótt í smiðju þeirra:
Faðirinn (rífur hár sitt í vanþóknun): Sonur, ég hef fórnað öllu fyrir þig – og þú sýnir ekkert nema vanþakklæti!
Sonurinn (reiður): Pabbi, málið er að við höfum aldrei gert neitt saman og alls ekki það sem mig langar að gera. Og við tölum aldrei saman á mínum forsendum.
Faðirinn (vígreifur): Heyrðu mig nú, þar gekkstu fram af mér, nú sting ég upp á að við setjumst niður og förum lið fyrir lið í gegnum góð verk mín í þína þágu.
Sonurinn (bugaður): Veistu, pabbi, að þú hefur aldrei horft í augun á mér og sagt að þú elskir mig.
Ef hugmynd nær ekki að kvikna í einni manneskju bíður hún bara eftir þeirri næstu
Kannski má einhvern tíma lesa eftirfarandi greiningu í virtu vefriti: „Aldahvörf eru uppspretta gagngerra breytinga. Í byrjun þriðju þúsaldar eftir Krist jókst umræða um nauðsyn gagnsæis á öllum sviðum. Ný tækni og breyttar hugmyndir um lýðræði urðu til þess að almenningur tók að veita stjórnvöldum aukið aðhald.“
Þar stendur líka: „Á Íslandi voru launhelgar tungumálsins brotnar um þetta leyti. Farið var að segja upphátt orð eins og hommi, píka, hagsmunatengsl og þöggun. Þannig fékk þjóðin að tala upphátt um hluti sem skipti hana máli en áður höfðu verið ræddir undir rós.“
Hugmyndasagan segir okkur að hver hetja sé aðeins dropi í ógnarstóru mannhafi. Þar sem við erum í eðli okkar forvitin um hagi annarra lesum við mannkynssöguna eins og hvert annað persónudrama en raunverulegar breytingar felast í því sem hinn breiði massi hugsar, skapar og finnur upp. Þar er kröftugur straumur framþróunarinnar sem hetjur fiska í sína fimmtán mínútna frægð. Enginn valdhafi er svo mikilvægur að mannkynssagan komist ekki af án hans, vegna þess að hugmyndir lifa sjálfstæðu lífi.
Væri heimurinn fullur af málefnum ef hér væru engir menn?
Málefni lifa líka sjálfstæðu lífi og því erfitt að fara í málefnið án þess að snerta manninn. Þrátt fyrir aukna getu – og kannski líka vilja – almennings til að taka málefnalega afstöðu ota stjórnmálin mönnum sínum að okkur. Flokkar raða mönnum en ekki málefnum á framboðslista, þeir tefla fram sterkum leiðtogum sem vinna persónulega sigra og tala um afrek sín í fyrstu persónu eintölu en ósigra í fleirtölu. Auk þess snýst líf okkar sem félagsvera að mestu um að spegla okkur í öðru fólki og því skoðum við stjórnmálin sem sögur af fólki. Það eru sögurnar sem gera okkur að mannkyni, Íslendingum, einstaklingum. Ef þú segir tveggja ára barni sögu sem lýtur ekki lögmálum þeirrar frumsögu sem varð til við eldana í Afríku endur fyrir löngu gerir barnið alvarlegar athugasemdir: Svona getur saga ekki endað! Barnið veit það af því að barnið, eins og við öll, er forritað djúpum, merkingarbærum táknum og minnum.
Sögur eru til af því að þær hjálpa okkur að takast á við raunveruleikann. Líka kjaftasögur. Við slúðrum og skrifum á samfélagsmiðla í þeirri von að skilja það sem er okkur hulið, til dæmis veröld auðs og valds.
Ævintýrið um Sigmund Davíð
Þjóðin virðist hafa meiri áhuga á persónu Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar en annarra stjórnmálamanna. Það er eðlilegt af því að sagan sem hann segir okkur og vill að við trúum inniheldur meginþætti hins klassíska ævintýris. Við sjáum karlsson sem fer út í heim, berst við yfirnáttúrulegar verur og eignast konungsdóttur og hálft ríkið. Og fleiri sagnaminni koma í ljós við nánari skoðun: Átökin á milli hins þekkta og óþekkta, köllunin, þolraunin, afneitunin, umbreytingin, verðlaunin og nú það sem sumir þykjast sjá, endalokin.
Svona erum við vanþróuð í tali okkar um hvers manns kopp. Nema því sé öfugt farið. Kannski erum við háþróuð af því að við eigum huglægt tæki til að takast á við ógnirnar í lífinu. Ein mesta hættan í lífi nútímamannsins er einmitt pólitíkin sem getur snúið lífi hans á hvolf á einni nóttu. Við, bregðumst við ógnum með því að fjargvirðast og gera grín með alvarlegum undirtóni. Heilun þjóðar felst í því kallað hefur verið fársjúk, pólitísk umræða.
Af hverju segja stjórnmálamenn af sér?
Ég bjó Svíþjóð þar sem stjórnmálamenn segja unnvörpum af sér. Konur greiða fyrir Toblerone og bleyjur með ráðherrakortum og karlar gleyma að það er ekki hlutverk ríkissjóðs að borga heimsóknir á kampavínsklúbba. Fyrst fundust mér allar þessar afsagnir hallærislega sænskar en svo fór að hið þéttriðna, siðferðislega öryggisnet gerði Svíþjóðarárin að sæluvist.
Ferlið virðist alltaf það sama. Athugull grafari rekst á tortryggilega færslu í bókhaldi sem veldur því að ákveðinn stjórnmálamaður lendir í loftárásum fréttahauka sem fá Helga Seljan til að líta út eins og engil með krullur. Eftir viku er boðað til blaðamannafundar í höfuðstöðvum flokksins þar sem enn er til kex síðan síðast var tilkynnt um afsögn. Flokkurinn fer ekki í grafgötur með að laskaður pólitíkus víkur til að bjarga ásýnd flokksins og heiðri stjórnmálanna. Þjóðin andar léttar og fórnarlambið fljótlega líka. Ef það er bjargfastur vilji stjórnmálamannsins að vera áfram þjónn fólksins birtist hann aftur síðar, afturbata.
Reiðin, vorkunnsemin og allar hinar tilfinningarnar
Nágrannaþjóðirnar afgreiða minnsta grun um spillingu af fullri hörku af því að enginn vafi má leika um heiðarleika, hæfi og siðferðisvitund þeirra sem fara með völd í umboði þjóðar. En annað hvílir að baki vaxandi óþols í garð stjórnmálamanna. Á nýrri þúsöld erum við meðvitaðri um tilfinningar og áhrif þeirra á almannahag. Kusk á hvítflibba - jafnvel léttur skuggi af ósýnilegri ló - vekur tortryggni sem fólk bregst við með mismunandi tilfinningum.
Reiði er algeng en sjálf gríp ég gjarnan til vorkunnsemi þótt ég viti að sú tilfinning er löstur fremur en dyggð. Það skildi ég þegar ég las sögu um greifynju sem útbýtti ölmusum til fátæklinga. Heimsóknir hennar enduðu ævinlega með að fátæk, barnmörg ekkja reif snjáðan dúk af borði til að þerra tár frúarinnar. Greifynjan grét af vorkunnsemi í eigin garð yfir að þurfa að umgangast fólk sem hún vorkenndi svo mikið að vorkunnin hafði breyst í fyrirlitningu.
Ég vil ekki þurfa að vorkenna stjórnmálamönnum. Mér finnst það ekki uppbyggilegt.
Óttinn við auðvaldið
Á næsta ári gætu þeir Pútín og Trump hist á leiðtogafundi – og það er einskær heppni að Berlusconi verður þar ekki líka. Auður forseta, forsætisráðherra og fjármálaráðherra Ísland veldur mér áhyggjum. Ég reyni að treysta þessum ágætismönnum sem einstaklingum en ég veit að fjármagn hefur tilhneigingu til að lifa sjálfstæðu lífi, óháð hýslum. Sérstaklega fjármagn án ríkisfangs.
Ég óttast auðræðið meira en nokkru sinni af því að ég sé ekki hvernig duttlungafullt fjármagnið ætlar að leysa aðkallandi vandamál heimsins. Móðir Jörð bíður innlagnar og lækningin felst í að ráðast að rótum vandans, ofneyslunni. Ég sé ekki að auðvaldið hafi áhuga á að takmarka neyslu og framleiðslu. Fjölmenningarumræðan er heldur ekki lengur gæluverkefni góða fólksins. Ég skynja ekki að auðvaldið leiti skapandi og mannúðlegra leiða til að hjálpa mannkyni að takast á við óttann sem fylgir því að fólk af ólíkum uppruna hefur dreift sér um heimsbyggðina og ætlar ekki aftur heim í þorpið.
Ég blanda mér í umræðuna af því að ég má það. Á þúsöld opinna tjáskipta er ég verðug að tjá mig opinberlega um ótta minn með heilandi aðferðum sagnamennskunnar. Við stöndum á þröskuldi nýrrar lýðræðisþróunar og fólkið er komið lengra inn í framtíðina en forystumennirnir. Víða um heim eru flokkar þó hættir að bjóða neytendum laskaða fulltrúa á síðasta söludegi og farnir að skilja mikilvægi þess að víggirðingar séu reistar milli auðs og valds. Við skulum ekki gleyma að latneska orðið minister þýðir þjónn. Væntanlega þjónn okkar en ekki auðvaldsins.