Elon Musk, stofnandi og forstjóri Tesla, kynnti í gær nýjan bíl fyrirtækisins, Model 3, sem kemur á götuna á næsta ári og mun kosta frá 35 þúsund Bandaríkjadölum nýr, eða sem nemur um 4,5 milljónum.
Þessi útgáfa er af mörgum talin geta valdið straumhvörfum í bílaiðnaði, en bíllinn mun geta komist um 320 kílómetra á einni hleiðslu, og þá verður einnig mögulegt að hlaða bílana aukahlutum af ýmsu tagi.
Samkvæmt fréttum The Verge hefur Tesla þegar tekið á móti 115 þúsund forpöntunum, sem er mun meira en fyrirtækið reiknaði með.
En hvað þýðir þetta? Í stuttu mál, þá er Tesla nú komið á þann stað sem Musk hefur stefnt að í mörg ár. Það er að koma bíl á markað fyrir almenning, sem gengur fyrir rafmagni, getur keyrt nógu lengi til að vera samkeppnishæfur við bíla sem ganga fyrir olíu, og hefur síðan meiri þægindi og gæði en aðrir bílar fyrir sama verð.
Það er hugsanlegt að þessi atburður marki straumhvörf fyrir bílaiðnaðinn, þar sem Tesla hefur verið markaðsleiðandi, og mikið horft til þess sem Musk hefur fram að færa.
Nú er bara spurningin hversu fljótir stjórnmálamenn, einkum þeir sem stjórna borgarsamfélögum, verða að byggja upp innviði fyrir almenna rafbílavæðingu. Það þolir líklega ekki mikla bið að byrja.