Það eru vissir hlutir sem heyrast þegar maður segist vera í tungumálanámi á háskólastigi.
„Hvað ætlarðu að gera við þessa gráðu?“
„Ætlarðu þá að verða kennari?“
„Ertu þá að læra bara málfræði eða...?“
„Þú veist að þú munt aldrei þéna neitt með svona hugvísindagráðu...“
„Kanntu ekki ensku? Er það ekki nóg?“
og uppáhaldið mitt:
„Jááá.....“
Því síðastnefnda fylgir gjarnan vandræðaleg þögn. Þögn, sem er í raun og veru frekar skiljanleg. Meðalmaðurinn hefur nefninlega ekki hugmynd um það hvað er hægt að gera með gráðu í tungumálum. Dettur helst í hug að það sé kannski hægt að kenna þau. Jafnvel þýða. En þar með er það oftast upptalið. Mig langar til þess að svara þessum spurningum í nokkrum orðum.
Að læra nýtt tungumál er eins og að ganga strípaður niður Laugaveginn. Það krefst þess að nemandinn tileinki sér algjörlega nýjan hugsunarhátt og opni hug sinn upp á gátt. Gagnrýnisraddirnar eru hvergi hærri en í manns eigin höfði og ásakandi augnaráð elta mann uppi við hvert feilspor. Eins og barn stendur maður berskjaldaður frammi fyrir ótal nýjum áskorunum. Í upphafi alfarið mállaus. Gerir óteljandi mistök. En hver ný eining byggir ofan á hinni fyrri þar til hið undraverða púsluspil tungumálsins fer smám saman að taka á sig skýrari mynd.
Tungumálanám er svo miklu meira en bara málfræði og þrátt fyrir að enskukunnátta verði sífellt mikilvægari í samskiptum alþjóðasamfélagsins er hún svo langt frá því að vera nóg. Tungumálanám opnar dyrnar að heilu menningarheimunum, því tungumálið er lykillinn að menningu hverrar þjóðar. Með bókmenntirnar að vopni er hægt að öðlast skilning á ólíkum hugsunarhætti ólíkra þjóða sem er grundvallaratriði til þess að tryggja fordómaleysi og virðingu gagnvart fólki af öðrum uppruna en maður er sjálfur. Atriði sem skiptir öllu máli í baráttunni gegn upprisu öfgafullra hægriafla í vestrænu samfélagi dagsins í dag.
Þá að atvinnutækifærum eftir að námi lýkur. Vissulega eru margir tungumálanemar sem taka kennsluréttindin. Mikilvægi þess að miðla áfram þekkingu og að styðja við bakið á nemendum sem eru að stíga sín fyrstu skref út menntaveginn er ómetanlegt. Það er því með ólíkindum að starfið skuli ekki vera metið fjárhagslega betur en raun ber vitni. En kennsla er fjarri því að vera eina leiðin sem hægt er að fara eftir útskrift. Þýðingar verða sífellt mikilvægari í samhengi alþjóðasamfélagsins. Þörfin fyrir þýðingar í viðskiptaheiminum fer vaxandi með hverjum deginum en auk þess eru ótal bækur, fræðsluefni, vefsíður og kvikmyndir þýddar á hverjum einasta degi. Svo ekki sé minnst á allar þær þýðingar sem þörf er á til að skapa notendavænni undraheim tölvuleikjaframleiðenda á borð við CCP.
Þörfin fyrir tungumálamenntað fólk í ferðamálageiranum ætti að vera öllum augljós. Enskukunnáttan sem við Íslendingar alhæfum yfir allan heiminn er einfaldlega langt frá því að vera jafn algild og við höldum, auk þess sem þekking í móðurmáli ferðamannsins skapar við hann persónulegri tengsl. Eftir því sem tölvuvæðing eykst verður þörfin á máltækni sífellt ákafari, en máltæknin er lykilatriði í viðhaldi tungumálsins á tækniöldinni. Fólk með tungumálanám að baki starfar um víðan völl og auk þess sem áður hefur verið nefnt bíða þeirra ótal störf innan rithöfundasamfélagsins, veitingageirans, upplýsingatækninnar, fjölmiðlaflórunnar og svo mætti lengi telja.
En hvers vegna skila sér þá ekki fleiri nemendur í tungumálanám en raun ber vitni? Hvers vegna eru bekkir deildrar erlendra tungumála, bókmennta og málvísinda ekki þéttsetnir af nemendum sem þrá ekkert heitar en að svala þorsta sínum í ótæmandi þekkingarbrunni tungumálakennaranna?
Strax í grunnskóla er hamrað á mikilvægi raunvísindanna.
„Veldu
náttúrufræðibraut, þá eru þér allir vegir færir!“
„Já okei, þú getur kannski tekið félagsfræðibraut, en þá verðurðu að passa að
þú takir nógu marga raunvísindaáfanga svo þú komist nú örugglega inn í
framhaldsnám“
„Tungumálabraut... okei... þú veist að þú munt samt aldrei komast inn í t.d.
læknisfræði eða verkfræði?“
Þannig er tungumálaástin barin niður í fæðingu. Niðurskurðarhnífur ríkisins sker miskunarlaust niður fjárveitingar til tungumálakennslu þar til það sem eftir stendur er aðeins skel af því sem áður var. Sífellt fleiri menntaskólar leggja niður tungumálakennslu og innan háskólans fækkar nemendum með hverju árinu sem líður. Það leiðir svo aftur til þess að heilu greinarnar eru lagðar niður vegna fjársveltis. Þegar er búið að leggja niður norskukennslu og finnskukennslu við Háskóla Íslands sem er eini skólinn sem býður upp á tungumálanám á háskólastigi á Íslandi. Ef ekkert er að gert mun deild erlendra tungumála smám saman veslast upp og verða að engu. Eftir stendur samfélag ráðvilltra manna sem þekkja ekki annan menningarheim en sinn eigin. Í því samfélagi á hugmyndafræði öfgafullra hægriafla auðvelt uppdráttar.
Hingað og ekki lengra.
Enskan er ekki nóg.