Kannske veldur kunnáttuskortur því að ég finn ekki gott íslenskt orð yfir þýska orðsið “Verharmlosung” eða sagnorðið “verharmlosen”, sem það er dregið af. Merkingin er að láta eitthvað líta sakleysislega út þótt það sé það ekki í reynd. Það er gert á margvíslegan hátt t.d. með því að kalla hlutina sakleysislegum nöfnum, nota orð með óljósri merkingu, nota merkingarlausa orðaleppa, snúa út úr merkingu orða eða með öðrum orðhengilshætti. Í orrahríð síðustu daga má sjá margar tilraunir í þessa veru.
Algengasta dæmið er líklega orðskrípið “utanumhald” og orðasambandið “að halda utan um eiithvað.” Þannig lesum við að félög hafi verið stofnuð til að “halda utan um” peninga, sjóði, íbúðir eða fasteignir o.fl. Það kveikir mynd af góðlegri konu á sólríkri strönd með nokkra dollara í hendinni eða af húskarli að dytta að kofa eigandans. Þessi mynd á lítið skylt við raunveruleikann. “Utanumhald” í þessari merkingu er ekkert annað en eignaumsýsla eins og finna má í eignarhaldsfélögum um allan heim og m.a. í þúsundum slíkra félaga hér á landi sem hafa það hlutverk að sýsla með þær eignir sem eigandinn hefur lagt þeim til og afla tekna fyrir hann. Fyrir þetta hlutverk þeirra skiptir engu máli hvernig eignir eru í félaginu eða hvernig eigandinn hyggst ráðstafa eignum þess og tekjum. Þetta eru eignarhaldsfélög sem starfa í þeim tilgangi að afla tekna fyrir eigandann og varðveita fé hans.
Það er ekkert ólöglegt og þarf ekki að vera neitt óeðlilegt við að eiga eignarhaldsfélag hvort sem það er hér á landi eða í öðru landi. Hvers vegna þá að grípa til orðskrípis eins og “utanumhald” í stað þess að nota almennt og gagnsætt orð eins og eignarhaldsfélag? Málið snýst ekki um nafngiftir heldur hvað hlutirnir eru í reynd og hvort sinnt hefur verið með réttum hætti þeim skyldum og skattgreiðslur sem slíkt eignarhald felur í sér.
Annað dæmi þessu skylt er að reyna að draga athygli frá máli með því að segja að þarna sé bara um að ræða félag “utan um” tilteknar tegundir eigna; fasteignir, lóðir, arf o.fl., og þar með látið í veðri vaka að um það gildi eitthvað annað en um aðrar eignir. Er umsýsla um slíkar eignir í raun eitthvað frábrugðin umsýslu um aðrar eignir? Er tilgangur ekki hinn sami, þ.e. að gæta fjárhagslegra hagsmuna eigandans, hafa tekjur af eigninni eða eftir atvikum að selja hana nákvæmlega eins og á við um félag sem fer með eignarhald á verðbréfum, hlutabréfum o.s.fr? Vera kann að reynt sé með þessu að láta í veðri vaka að umsýslan skili engum hagnaði og þar með engum skattskyldum tekjum. Það skiptir engu máli. Sé svo leiðir starfsemin ekki til skattakvaðar. Hvers vegna þá að leyna eignarhaldinu?
Sama má segja um tilvísanir þess efnis að ekki sé um eigninleg félög að ræða heldur einhvers konar sjóði sem líkja megi við lífeyrissjóði. Á þessu tvennu er þó reginmunur. Lífeyrissjóðir greiða að vísu ekki tekuskatt og ávöxtun þeirra því skattfrjáls. Á móti kemur að við greiðslu úr lífeyrissjóði eru allar greiðslurnar skattskyldar tekjur þess sem nýtur. Einstaklingur sem stofnar sjóð, hvaða nafni sem hann kýs að nefna hann, með reikningi í banka hérlendis eða erlendis og eins þótt hann stofni “eignarhaldsfélag” um sjóðinn er skattskyldur af þeim tekjum sem falla til á hverjum tíma, vöxtum o.s.fr., en þegar hann tekur út úr sjóðnum er það að sjálfsögðu skattfrjáls úttekt.
Augljósustu dæmin um “Verharmlosung”, eða jafnvel tilraunir til blekkingar er þó að gefa í skyn að ekki þurfi að fylgja ákvæðum skattalaga vegna þess að eignarhaldsfélag sé ekki í atvinnustarfsemi eða jafnvel að fullyrða að félög sem ekki eru rekstrarfélög (hugtakið er ekki að finna í tekjuskattslögunum) falli ekki undir ákvæði tekjuskattslaganna þ.m.t. CFC löggjöfina. Staðreyndin er hins vegar sú að öll hlutafélög, sameignarfélög o.s.fr. eru skattskyld samkvæmt tekjuskattslögunum án tillits til þess hvað þau aðhafast nema þau séu sérstaklega undanþegin skattskyldu eins og t.d. góðgerðafélög. Ákvæði lagana um CFC félög er enn fortakslausara og hljóðar svo: “Skattaðili sem á beint eða óbeint hlut í hvers kyns félagi, sjóði eða stofnun sem telst heimilisföst í lágskattaríki….” Eignarhaldsfélag eða hvað annað félag sem starfar í þeim tilgangi að sýsla með eignir og afla tekna fyrir eiganda sinn er með atvinnustarfsemi skv. þeim lögum sem hér skipta máli, þ.e. tekjuskattslaganna. Hvort sem tekjurnar eru afrakstur af sölu á vöru eða þjónustu, þóknanir, arður, tekjur af eignasölu, þ.m.t. fasteignum eða vextir af bankainnistæðum, skuldabréfum o.s.fr. eru það skattskyldar tekjur af atvinnurekstri í skilningi þeirra laga. Það skiptir og engu hvort félagið hefur starfsmenn á sínum snærum eða kaupi þjónustu af öðrum.
Ef þetta er allt svona saklaust af hverju var þá verið að fela það? Ef alvara er að baki yfirlýsinga um að allt eigi að vera upp á borðunum af hverju eru þá ekki lagðir fram ársreikningar þeirra aflandsfélaga sem upplýsingar hafa komið fram um? Það eru jú bara sömu kröfur og gerðar eru til íslenskra félaga að viðlögðum dagsektum ef því er ekki sinnt.