Utanríkisráðuneytið vinnur nú að því að greina áhrifin af þeirri yfirþyrmandi miklu neikvæðu umræðu sem fylgt hefur upplýsingunum um Sigmund Davíð Gunnlaugsson, fyrrverandi forsætisráðherra, í tengslum við Panamaskjölin svonefndu. Lilja Alfreðsdóttir, utanríkisráðherra, sem hefur á sér gott orð þvert á flokkslínur, talar af röggsemi um það, að nauðsynlegt sé að fylgjast vel með þessari umræðu, og er það vel. Mikilvægt sé að horfa yfirvegað á málin, segir hún.
Eitt er alveg öruggt: Utanríkisráðuneytið mun ekki komast að neinum heilögum sannleika í þessum efnum. Það er ekki hægt að meta áhrifin á ímynd Íslands svo glatt, nema þá að því leyti, að í fyrsta skipti í sögu Íslands hefur þjóðarleiðtoga Íslands verið stillt upp með alræmdum einræðisherrum og spilltum stjórnmálamönnum, undir stríðsfyrirsögnum, í mörgum af útbreiddustu dagblöðum heimsins, marga daga í röð. Það sama hefur gilt um vefmiðla.
Forsíða USA Today 4. apríl síðastliðinn, eftir að upplýsingar úr Panamaskjölunum komu fyrst fram, var ekki upplífgandi fyrir Ísland og íslensk stjórnmál. Þar voru myndir af Pútín Rússlandsforseta, Assad Sýrlandsforseta, Hosni Mubarak, fyrrum leiðtoga Egyptalands, og Gaddafi, fyrrverandi Líbíu-leiðtoga. Og síðan Sigmundi Davíð Gunnlaugssyni.
Þetta eitt og sér er niðurlægjandi fyrir örríkið Íslands, sem ekki hefur mátt venjast uppstillingu sem þessari áður. Það eru fyrst og fremst íslensk stjórnmál sem eru valdurinn af þessari stöðu, og það bíður þeirra mikið starf við að ná upp trúverðugleika á nýjan leik, eftir hneykslið í síðustu viku.