Bryndís Kristjánsdóttir, skattrannsóknarstjóri, kom á fund efnahags- og viðskiptanefndar Alþingis í gær ásamt Skúla Eggerti Þórðarsyni ríkisskattstjóra.
Bryndís gerði meðal annars grein fyrir þeim gögnum sem embættið keypti um eignir Íslendinga í skattaskjólum. Um væri að ræða um 600 félög, eins og fram hefur komið. Sagði húm að flest þau mál tengdust Landsbankanum í Lúxemburg, og flest félögin væru skráð á Bresku jómfrúareyjum eða 80% þeirra. Næstflest í Panama og þá kæmu Seychelles-eyjar. Allt eru þetta þekkt skattaskjól samkvæmt alþjóðlegum skilgreiningum.
Bryndís sagði að um 30 einstaklingar, sem væru í gögnum skattrannsóknarstjóra, hefðu áður komið við sögu í rannsóknum embættisins.
Ekki er enn kominn botn í þessi mál, en það verður að segjast alveg eins og er, að það kemur ekki á óvart hversu mikið umfangið er, í ljósi umfjöllunar undanfarinna vikna. Vonandi verða þessi mál leidd til lykta eins hratt og mögulegt er.
Enginn á að komast upp með skattsvik, og í ljósi fjármagnshafta, þá er ömurlegt til þess að hugsa að ríkir Íslendingar hafi komið eignum sínum í skjól, meðan almenningur var fastur með sparnað innan hafta, og jafnvel hafi þessir ríku Íslendingar ekki borgað skatt í samræmi við lög.
Þetta eru mál sem varða almannahag, og það er mikilvægt að leiða þau til lykta og endurheimta fé sem ætti að fara í að borga niður skuldir ríkisins eða í almannaþjónustu.