Ársfundur Landsvirkjunar fór fram í gær, fjallaði mbl.is um þar sem þar fór fram. Hörður Arnarson, forstjóri Landsvirkjunar, lét hafa eftir sér í viðtali við mbl.is, að raforkuverðssamningar sem gerðir voru við Norðurál og Elkem væru „barn síns tíma“ og vitnaði til þess að verðin væru lág, og stefnt væri að því Landsvirkjun fengi hærra verð þegar samningar yrðu endurnýjaðir 2019.
Landsvirkjun ætlar eðlilega að reyna að fá hærra verð fyrir raforkuna, og fá þannig meiri arðsemi út úr þessu mikilvæga fyrirtæki í eigu almennings.
Það má velta því fyrir sér, hvað kalla má samningana sem gerðir voru við Alcoa árið 2002 til 40 ára, ef samningarnar við Norðurál og Elkem eru barn síns tíma. Verðið sem Alcoa greiðir er lágt, eða svipað og Norðurál greiðir, en nú eru 32 ár eftir af samningnum við Alcoa. Viðskipti hófust eftir að Kárahnjúkavirkjun var tilbúin 2007 og afhending rafmagns gat hafist.
Alcoa notar meira en þriðjung af allri raforku sem Landsvirkjun framleiðir, en í fyrra fékk Landsvirkjun 421 milljón Bandaríkjadali vegna raforkusölu, eða sem nemur um 55 milljörðum króna.
Í ljósi þeirrar miklu eftirspurnar, sem er eftir raforku á Íslandi um þessar mundir, eins og glögglega hefur komið fram í framsögum hjá Herði á undanförnum árum, þá verður að teljast með ólíkindum, að samið hafi verið um þetta lága verð til 40 ára. Þegar skrifað var undir var mikið rætt um að aukna eftirspurn eftir vistvænni orku, og fyrirsjánlegrar stefnubreytingar í orkumálum í heiminum. Það voru hagsmunirnir sem íslensk stjórnvöld og Landsvirkjun þurftu að meta, þegar kom að þessum viðskiptum. Norðmenn hafa unnið heimavinnu á þessu sviði vel, en ekki við Íslendingar eins vel.
Samningurinn við Alcoa virðist hafa verið gerður alfarið á grundvelli hagsmuna Alcoa en ekki íslensks almennings, sem ætti með réttu að fá mun hærra verð fyrir raforkuna, einkum í framtíðinni þegar eftirspurn eftir vistvænni orku verður orðin mun meiri. Allt voru þetta fyrirsjánleg atriði þegar samið var, og um þau rætt. Ekki er hægt að nota það sem rök, að nú sé allt breytt frá því sem áður var. Alþjóðlegar skuldbindingar um aukna hlutdeild vistvænna orkugjafa voru þá þegar á borðinu, og á þeim hefur vitaskuld verið skerpt enn frekar síðan. Parísarfundurinn í desember síðastliðnum markar síðan tímamót í þessum efnum.
Samningurinn við Alcoa var ekki bara „barn síns tíma“ heldur einfaldlega hræðilegur viðskiptasamningur fyrir íslenskan almenning, sé horft til langrar framtíðar. Stór hluti orkuauðlinda þjóðarinnar er bundinn á lágu verði næstu 32 árin. Vonandi mun sá tími koma, að þessi samningsgerð verði rækilega greind og kjörin borin saman við alþjóðleg verð, og sett í samhengi við þróun mála. Það er mikil þörf á því.
Þá er vonandi hægt að læra af mistökunum, ekki síst á sviði stjórnmálamanna, þar sem þetta mál var keyrt áfram af miklu offorsi.