Ríkisstjórnin hefur lítinn tíma til stefnu, til að koma stórum málum í gegn. Búist er við því að forgangslisti mála, sem klára þarf fyrir kosningar í haust, verði kynntur á næstu dögum. Eins og bent hefur verið á á þessum vettvangi áður, þá ætti lokahnykkurinn í afnámi fjármagnshafta að vera aðalmálið hjá stjórnvöldum.
Best væri ef stjórnarandstæðingar gætu stutt það mál af fullum þunga, enda mikið í húfi fyrir almenning í landinu. Það skiptir máli að stjórnmálastéttin sé tilbúin að standa saman þegar mikið liggur við, og þannig ætti það vera með lokahnykkinn í losun hafta.
En það verður fróðlegt að sjá hvaða mál það eru sem ríkisstjórnin setur í forgang. Mörg koma til greina. Húsnæðismál, sem skoðast þurfa í samhengi loforð í tengslum við kjarasamninga, eru vafalítið á þeim lista. Fleiri mál þola litla bið.
Það er við aðstæður eins og eru núna uppi, sem það kemur í ljós hvort stjórnmálamenn hafa áhuga og getu til þess að endurreisa traust á stjórnmálunum. Kosningar eru framundan, en mál sem þola enga bið verða að komast í gegn, og þau sem þarf að afgreiða helst með þverpólitískum stuðningi, eins og þau sem snúa að losun hafta, verða að komast á leiðarenda.
Annað er óboðlegt.