Ferðaþjónustan blómstrar, og hægt er að slá því föstu að sumarið í ár verði enn eitt metárið þegar kemur að fjölda ferðamanna. Þetta er gleðilegt, en um leið er margt sem snýr að ferðaþjónustunni mikið umhugsunarefni.
Samgöngur eru þar á meðal, en augljóslega auka hin miklu umsvif ferðaþjónustunnar í landinu álag á vegakerfið. Skúli Mogensen, forstjóri og eigandi WOW Air, hefur nefnt að nauðsynlegt sé að fara út í tugmilljarða uppbyggingu um allt land, til þess að styrkja innviði í ferðaþjónustu og þá einkum bæta samgöngur. Þetta sé nauðsynlegt og þoli raunar enga bið.
Eitt dæmi um stað, þar sem nauðsynlega þarf að bæta samgöngur, var til umræðu á RÚV í gær. Umferð um Vesturland hefur undanfarin ár aukist mikið allt árið um kring og Snæfellsnes er vinsæll áfangastaður. Sveinn Pálsson, sveitarstjóri í Dalabyggð, sagði að margir ferðamenn aki hringleið um Snæfellsnes til að fara ekki sömu leið fram og til baka. Þá liggur leiðin um Skógarströnd, austur frá Stykkishólmi sem þykir falleg en þar er malarvegur með einbreiðum brúm og blindhæðum. „Þetta er stórhættuleg leið. Og maður skilur ekki að hún eigi sér ekki stað í samgönguáætlunum. Það er ekki stafkrókur um framkvæmdir á þessum malarvegum í Dalabyggð,“ segir Sveinn.
Þó forgangsröðunin geti verið snúin, hjá stjórnmálamönnum, þá þarf að horfa vel yfir sviðið og hvar úrbóta er þörf. Dalabyggð er dæmi um stað, þar sem augljóslega þarf að styrkja samgöngur með betri vegum.