Um leið og ég óska þér til hamingju með nýja stólinn þá langar mig að deila með þér, og öðrum áhugasömum, vangaveltum um hvernig stjórnvöld geta skapað sauðfjárbændum sómasamlegt starfsumhverfi til framtíðar.
Forveri þinn í ráðuneytinu skrifaði nýlega undir samning fyrir hönd ríkisins við sauðfjárbændur. Samkvæmt honum munum við næstu 10 árin leggja í allt um 50 milljarða styrk til greinarinnar. Samningurinn felur ekki í sér neina nýsköpun heldur rígheldur greininni í viðjum vanans. Eins og góður maður sagði við mig um daginn þegar ég innti hann eftir því hvort ekki hefði verið ástæða til að breyta styrkjafyrirkomulaginu og opna það fyrir nýjungum – þetta er sauðfjársamningurinn!
Við vitum bæði að árleg neysla á kindakjöti er svipur hjá sjón frá því sem var þegar þú og ég vorum lítil börn. Það er einnig margt sem bendir til að eftir 10 ár hafi innanlandsneysla dregist enn meira saman, þrátt fyrir allt markaðsstarf. Það er nefnilega þannig að ungt fólk er í vaxandi mæli hætt að borða kjöt; af siðferðilegum ástæðum. Þeirra börn munu líklega ekki læra að borða kjöt og neytenda-markaðurinn mun þannig halda áfram að skreppa saman.
Í dag framleiða bændur þriðjungi meira kindakjöt en þjóðin torgar. Okkur er aftur farið að dreyma um öflugan útflutning en þrátt fyrir áratuga leit að mörkuðum erlendis hefur okkur ekki enn tekist að fá gott verð fyrir kjötið. Í skýrslu sem KOM ráðgjöf vann fyrir landssamtök sauðfjárbænda á dögunum kemur reyndar fram að markaðstækifærin séu gríðarleg – fyrir lífræna framleiðslu! Þá vandast málið aðeins því samkvæmt minni bestu vitneskju eru aðeins 9 sauðfjárbú í landinu sem framleiða lífrænt vottað lambakjöt. Ef við gefum okkur að þetta séu allt meðalbú á stærð þá er hlutfall lífræns vottaðs lambakjöts aðeins rétt innan við 1% af árlegri heildarframleiðslu greinarinnar. Er ekki óvarlegt að byggja nýja markaðssókn erlendis á því?
Annar þáttur sem snýr að sauðfjársamningnum er landnýting. Samkvæmt samningnum á að leggja aukna áherslu á sjálfbæra landnýtingu en ekkert gefið upp um hvernig eigi að ná því markmiði. Nú, þegar umhverfisráðherra er nýlent eftir að hafa skroppið til NY til að undirrita loftslagssamninginn fyrir okkar hönd er ekki úr vegi að minna á að Ísland er vistfræðilega verst farna land Evrópu. Landeyðing frá landnámi er geigvænleg. Í grunninn af völdum ósjálfbærrar landnýtingar; drifin áfram af búfjárbeit og skógarhöggi í gegnum aldirnar við óblítt veðurfar, eldgos og aðrar náttúruhamfarir. Við erum engu að síður enn að kýta um hvort beita skuli þessa auðn eða hina á hálendinu.
Í sóknaráætlun ríkisstjórnarinnar er sannarlega lögð áhersla á landgræðslu sem aðgerð til að draga úr áhrifum loftslagsbreytinga. Því miður er það ekki sett í samhengi við landnýtinguna. Uppgræðsla rofins lands er ekki markmið í sjálfu sér heldur leið til bæta ástand lands. Ef nýtingu er ekki breytt til samræmis við það er aðgerðin í besta falli máttlaus. Sauðfjárrækt eins og hún er stunduð hérlendis byggir að miklu leyti á úthagabeit og það er verulega umhugsunarvert að nýi sauðfjársamningurinn skuli ekki grundvallast á auðlindastýringu – af ítarlegri landnýtingaráætlun fyrir hvern einasta afrétt/ úthaga landsins þar sem nýting tekur raunverulega mið af ástandi gróðurs og jarðvegs. Landnýtingarþáttur gæðastýringar í sauðfjárrækt uppfyllir því miður ekki þessar grunnkröfur og fátt í dag sem bendir til að hann muni þróast í raunverulegt stjórntæki sjálfbærrar auðlindanýtingar.
Eins er mjög umhugsunarvert af hverju innihald samningsins er ekki beintengt við áherslur ríkisstjórnarinnar í loftslagsmálum. Tækifærin til að breyta styrkjakerfi greinarinnar í umhverfistengdar greiðslur eru gríðarleg. Samstarfsfletirnir við fyrirtæki landsins sem vilja sýna samfélagslega ábyrgð í verki eru sömuleiðis ótrúlega áhugaverðir. En – það er engin vettvangur til staðar þar sem hægt er að skoða þessi mál í samhengi og máta inn í framtíðarsýn íslensks dreifbýlis.
Það er, kæri landbúnaðarráðherra, Akkilesarhæll sauðfjárræktarinnar. Skortur á heildarsýn og samþættum umhverfis- og landbúnaðarstefnum þeirra ráðuneyta og stofnana sem tengjast greininni heldur kyrfilega aftur af nýsköpun. Af hverju á umhverfisráðuneytið til að mynda ekki beina aðkomu að gerð sauðfjársamningsins? Af hverju er ekki til þverfaglegur ráðgjafavettvangur á vegum ráðuneyta sem fara með umhverfis- og landbúnaðarmál? Eiga hagsmunaaðilar að geta einir samið um nýtingu auðlindarinnar eins og þeim sýnist? Við megum ekki gleyma að stærsti hluti hálendisins er í eigu íslenska ríkisins og ég hefði haldið að umhverfisráðuneytið væri besti talsmaður þess, eða?
Síðustu árin hef ég, ásamt samstarfsfélögum mínum, lagst í talsverða rannsóknarvinnu og rýnt í vistfræðilega og samfélagslega kerfið sem úthagabeit og endurheimt raskaðs úthaga tilheyrir. Við höfum lagt sérstaka áherslu á að skoða hvort landbúnaðar- og umhverfisstefnur stjórnvalda sem snúa að fyrrnefndum þáttum séu í raun að skila þeim árangri sem þeim var/er ætlað. Það eru nú nokkur áhöld um það. Í grein sem við birtum í tímaritinu Ecology and Society árið 2013 kemur til að mynda mjög skýrt fram að það eru ekki bændurnir sjálfir sem hópur sem halda aftur af framþróun heldur mun frekar fílabeinsturnar stjórnsýslunnar sem fer með málefni landbúnaðar- og umhverfismála, undirliggjandi valdabarátta á milli stofnana og máttlausar og óljósar stefnur. Fleiri greinar bíða birtingar í fagtímaritum, en ég er boðin og búin til að upplýsa þig um innihald þeirra hvenær sem er.
Kæri landbúnaðarráðherra, þrátt fyrir allt þá er ég sannfærð um að sauðfjárbúskapur eigi framtíðina fyrir sér – sem framleiðandi hágæðavöru sem seld er dýrum dómum. Eins og stefnt er að samkvæmt nýjum samningi: gæði umfram magn! En þá þarf að hugsa um alla þætti frá upphafi, útfrá styrkjum, neytendum, auðlindastýringu og dreifbýlisþróun – með loftslagsmálin sem rauðan tengiþráð.
Þú ávannst þér virðingu með að standa fastur fyrir í málefnum tengdum sjávarútveginum, þrátt fyrir þunga pressu af hálfu þeirra sterku hagsmunahópa sem þú áttir við að etja. Ég vona innilega að þú takir á málefnum landsins á sama hátt í þínu nýja embætti en látir ekki hagsmunahópa leiða þá vinnu.