Hans Guttormur Þormar, skrifar greinina „Sjúkrahúsið í Svartaskógi" á Kjarnanum, 17. apríl sl.
Í greininni fer Hans yfir umræðuna um staðsetningu nýja Landspítalans og segir meðal annars. „Í málflutningi hóps sem kallar sig „Betri spítala á betri stað“, rekur líka hver staðreyndavillan aðra“ og beinir að lokum nokkrum spurningum til hópsins, sem hér er svarað.
Á www.betrispitali.is eru helstu upplýsingar varðandi nýja Landspítalann og undirbúning hans. Sjá til dæmis undirsíður á þessari síðu.
Samtök um Betri spítala á betri stað telja gera eigi faglega staðarvalsgreiningu fyrir nýja Landspítalann. Ákvörðun um staðsetningu verði svo tekin í framhaldi af því. Við höfum því ekki mælt með einum stað framar öðrum en teljum að Hringbraut henti illa.
Hans er velkomið að hafa samband og ræða sínar vangaveltur við okkur. Það hefði getað sparað vinnu við þessa grein hans, sem er full af misskilningi, sem vonandi er ekki vísvitandi.
Svar við spurningunum Hans Þormars
1. Hvaðan er talan um 100 til 200 ferðir sjúkrabíla komin?
Svar: Sjá TMP bls. 39, 8.4.4 Emergency vehicles
Um 92% sjúkraflutningamanna vilja ekki hafa nýja Landspítalann við Hringbraut samkvæmt könnum sem um helmingur þeirra svaraði.
2. Hvaðan er talan um 36 þúsund ferðir á dag á Landspítala komin?
Svar: Varðandi spá um fjölda ferða til og frá spítalanum er notast við Technical master plan, skýrslu sem C.F. Möller ráðgjafar, unnu fyrir Landspítalann árið 2007. Sjá bls. 38, 8.4.3 Hospital generated traffic. Þarna kemur fram að ferðir til/frá spítalanum verði 9.000*2 = 18.000 á sólarhring þegar hann verður tekinn í notkun. Fjöldinn 36.000 er tvöfaldur ofangreindur fjöldi. Við höfum notað lægri töluna, óljóst hvaðan Hans hefur þá hærri.
3.
Hvaðan eru upplýsingar um sjúkrahúsið í London
Ontario komnar?
Svar: Þeir sem vilja hafa Landspítalann á Hringbraut telja sumir að nálægða háskóla og sjúkrahúss skipti miklu. Flestir læknar, þar á meðal Dr. Kári Stefánsson, í grein í Mbl. 20. apríl sl. telja rök um nálægð ekki sterk. Mun meiru skiptir að spítalinn sé sem næst sem flestum notendum og að honum sé greið leið. Nemendur, sem eru um 1500 á hverjum tíma, fara bara beint að heiman á sinn vinnustað hvort sem það er skólinn eða spítalinn en nánast ekkert milli þeirra staða. Upplýsingarnar varðandi Ontario komu af Internetinu.
4. Samræmist staðsetning spítala á Vífilstöðum þeim hagkvæmisútreikningum sem samtökin hafa gert um fjölda og lengd ferða til og frá spítala á besta stað? Afhverju andmælið þið ekki þeirri staðsetningu?
Svar: Samtökin berjast fyrir því að gerð veri ný fagleg staðarvalsgreining. Fyrri greiningar eru úreltar og voru reyndar að okkar áliti ekki marktækar, því ráðgjafar láta auðveldlega að stjórn þeirra sem borgar reikningana, ef svo ber undir. Þannig gerði KPMG skýrslu fyrir NLSH ofh. í ágúst s.l. að beiðni heilbrigðisráðherra þar sem komist var að niðurstöðu sem verkkaupi óskaði eftir, en hafði stuttu áður góðkennt skýrslu Samtaka um Betri spítala, þar sem komist var að annari niðurstöðu. Hvað ætli það kosti að fá þriðju skýrsluna sem styður aðra niðurstöðu?
5. Hvað verður tapið fyrir þjóðfélagið mikið per ferð við að hafa spítalann á Vífilstöðum ef miðað er við fyrri forsendur ykkar og kostnað á hvern ekinn kílómetra?
Svar: Fjárhagslegur
samanburður okkar sem KPMG fór yfir, sýnir hagkvæmni þess að byggja nýjan
Landspítala frá grunni á besta stað.
Hagkvæmnin felst í nokkrum liðum.
Þó að það kosti meira að byggja yfir alla starfsemina á nýjum stað, þá vinnst
það upp og gott betur. Söluverðmæti eignanna við Hringbraut nemur
tugum milljarða, minni vegaframkvæmdir því flutningur spítalans léttir á
miðborgarumferðinni sem sparar tugi milljarða, hagkvæmari rekstur í nýjum
sérhönnuðum byggingum er metinn á um 600 milljónir á ári og styttri ferðir
notenda m.v. besta stað mátum við á tugi milljarða króna á ári. Nú er það svo að ferðakostnaðurinn mun fara
eftir þróun byggðar í framtíðinni og því ekki um neina eina rétta niðurstöðu að
ræða. Þó að ferðakostnaðarliðurinn sé
tekinn út úr dæminu breytir það ekki megin niðurstöðunni, sem sagt þeirri að það
borgar sig að byggja nýja spítalann á nýjum stað. Nánar um þetta hér.
6. Hvers vegna nota samtökin það sem rök fyrir umferðarteppu að ljóst sé að ekki verður ráðist í að setja Miklubraut í stokk, leggja veg við Hlíðarfót, göng undir Öskjuhlíð og mislæg gatnamót Snorrabraut/Bústaðaveg samhliða uppbyggingu á Landspítalanum?
Svar: Nú þegar er umferðarteppa við Hringbraut á álagstímum. Við sameiningu spítalans við Hringbraut, ef af verður, má gera spár ráð fyrir rúmlega 12% aukningu umferðar sem ekki er á bætandi.
7. Hvers vegna nota þá samtökin kostnað við ofangreind umferðarmannvirki sem hluta af kostnaði (20 milljarðar) í sínum „hagkvæmnisútreikningum“ á spítala á besta stað þegar þau gera ráð fyrir að þessar framkvæmdir komist ekki á koppinn næstu áratugi?
Svar: Við teljum að það hljóti að þurfa að finna einhverja lausn á umferðarvandanum. Ef fyrri áætlanir um veg um Hlíðarfót og Miklubraut í stokk, svo dæmi sé tekið, teljast ekki heppilegar, þá hlýtur að þurfa að finna aðrar. Allar slíkar úrlausnir verða gríðarlega dýrar fyrir ríki og borg. Síðustu misseri hefur léttlest og fleiri slíkar lausnir verð nefndar sem allar kosta tugi, jafnvel hundruð milljarða. Eins og fjárþörfin er til ýmissa samfélagsverkefna virðist óhjákvæmilegt að slíkar framkvæmdir færist nokkuð inn í framtíðina, lengra en þolandi væri ef spítalinn verður sameinaður við Hringbraut.
Af þessu sést að endurskoða þarf áætlun um uppbyggingu við Hringbraut. Engin gild rök eru fyrir þeim stað. Verkefnið er keyrt áfram af örfáum aðilum sem vantreysta því að byggður verði nýr og betri spítali á betri stað, ef slakað verður á kröfunni um Hringbaut. Þetta gengur ekki í nútíma upplýstu samfélagi. Við verðum að treysta okkur til að gera það sem er rétt.