Ríflega fjögur prósent af markaðsvirði skráðra félaga í kauphöll Íslands gufaði upp á föstudaginn. Öll félög í kauphöllinni lækkuðu. Icelandair lækkaði mest, um 7,4 prósent í viðskiptum upp á 3,2 milljarða króna.
Það verður forvitnilegt að fylgjast með hvernig markaðurinn opnar í dag. Ein skýringin á lækkuninni kanna að liggja í því, að grunnrekstur margra félaganna er erfiðari núna en hann hefur verið, vegna áhrifa launahækkana á reksturinn. Þetta bitnar á rekstrartölum og uppgjörum, og ekki óeðlilegt að fjárfestar skoði möguleikana sem í boði eru, og jafnvel losi um bréf sín.
Annað atriði snýr að fjármagnshöftunum. Margir fjárfestar hafa hagnast verulega á endurreisn hlutabréfamarkaðarins, en hlutabréf hækkuðu um 43 prósent á íslenska markaðnum í fyrra. Losun fjármagnshafta er framundan, sem mun opna á möguleika til fjárfestinga erlendis fyrir fólk og fyrirtæki hér á landi.
Íslenskur hlutabréfamarkaður mun þá fá meiri samkeppni, sem er ekkert nema hið besta mál. En það má líka vel hugsa sér að markaðsvirði skráðra félaga muni lækka, þegar þessi samkeppni eykst, en það er þó mikill vandi um slíkt að spá. Enda búa höft til hálfgerða falska mynd af veruleikanum, og ekki gott að segja hvernig hin raunverulega staða er, þegar tjöldin verða dregin frá.