Hinn fordómafulli Donald Trump verður fulltrúi Repúblikanaflokksins í forsetakosningunum í nóvember. Fátt getur komið í veg fyrir það, nema þá helst algjör hallarbylting á landsfundi flokksins og óvænt atburðarás.
Fordómar hans eru opinberir og hann hefur raunar margítrekað þá sjálfur. Hann vill meðal annars hindra för fólks á grundvelli trúarbragða og uppruna. Hann vill vísa múslimum úr landi og reisa vegg við landamæri Mexíkó, og senda stjórnvöldum í Mexíkó reikninginn. Þá hefur hann líka neitað að fjarlægja sig öfgasamtökum eins og Ku Klux Klan, sem elur á kynþáttahatri í garð svartra. Það reitti meðal annars Paul Ryan, einn af forystumönnum flokksins, til reiði.
Það er óhætt að orða hlutina svona: Trump er rasisti sem elur á ótta, og spilar á lægstu hvatir. Aldrei hefur maður náð viðlíka árangri í kosningum í Bandaríkjunum, sem fer fram með jafn einfeldningslegan og ömurlegan boðskap og hann.
Pólítíkin sem hann boðar kemur hægri-stjórnmálum ekkert við, þó ekki sé skynsamlegt að reyna staðsetja fordóma hans á pólitíska kvarða.
Mikill titringur er sagður innan flokksins vegna þessarar stöðu sem upp er komin, og hafa helstu fjölmiðlar Bandaríkjanna, greint frá því að forystufólk flokksins, bæði á þingi og í einstaka ríkjum, sé uggandi yfir stöðunni. Ástæðan er sú, að Trump hefur alið á ótta og tekist að ná fólki á bak við sig, sem Repúblikanar hafa reynt að halda frá flokknum til þessa. Þar á meðal eru kynþáttahatarar.
Í magnaðri grein eftir Andrew Sullivan, í New York Magazine, er staðan sem Bandaríkin standa nú frammi fyrir greind nokkuð vel. Stóru orðin eru ekki spöruð, en á yfirvegaðan og ítarlegan hátt er sagt að hættumerkin séu augljós. Sundurlyndi getur náð nýjum hæðum með Trump í broddi fylkingar.
Vonandi hafa kjósendur í Bandaríkjunum vit á því að halda honum frá forsetaembættinu, þegar á hólminn er komið. Hillary Clinton og Bernie Sanders eru bæði miklu betri kostir.