Á fimmtudaginn funda nokkrir tugir þjóðarleiðtoga í Lundúnum til að ræða aðgerðir gegn spillingu. Á dagskrá verður meðal annars áskorun 300 hagfræðinga sem hafa ritað þjóðarleiðtogum um heim allan og hvatt þá til að viðurkenna að engin efnahagsleg rök séu fyrir því að leyfa áframhaldandi tilvist skattaskjóla. Þeir segja ennfremur að það verði ekki auðvelt að brjóta niður kerfi aflandsfélaga og skattaskjóla þar sem valdamiklir aðilar hafi mikla hagsmuni af því að standa vörð um skattaskjólin en sé litið til almannahagsmuna sé ekkert gagn í skattaskjólum. Því þurfi að grípa til aðgerða, meðal annars að fyrirtækjum verði gert að birta yfirlit yfir skattskyld umsvif sín eftir löndum.
Skattaskjólin eru að mati hagfræðinganna hluti af kerfi sem skapar aukinn ójöfnuð og veldur samfélögum um allan heim ómældum skaða til hagsbóta fyrir fámennan hóp auðmanna. Í hópi hagfræðinganna eru heimsþekktir fræðimenn á borð við Thomas Piketty, Angus Deaton og Ha-Joon Chang. Bent hefur verið á að ef vilji er fyrir hendi hjá þjóðleiðtogum er hægt að gera breytingar á því kerfi sem nú er við lýði. En við skulum ekki halda að þeir sem hagnast á kerfinu muni gefa það frá sér svo auðveldlega.
Áskorun hagfræðinganna sýnir glöggt mikilvægi Panamaskjalanna fyrir 99% mannkyns. Skyndilega hefur hulinn heimur orðið sýnilegur öllum almenningi. Það er risastórt hagsmunamál almennings um allan heim að þjóðarleiðtogar hlusti á þessa áskorun og ráðist í raunverulegar aðgerðir. Þessi afhjúpun má ekki snúast um upphrópanir sem týnast svo í glaumi daganna uns næsta hneyksli kemur fram.
En enn skortir nokkuð upp á viljann til breytinga. Í umræðum á Alþingi um Panamaskjölin hefur það viðhorf verið áberandi að þar sem ekki sé ólöglegt að stofna félög í skattaskjólum sé ekkert við það að athuga. En lög geta aldrei verið tæmandi mælikvarði á alla kima samfélagsins. Í ljósi þessara vankanta á lögunum er þeim mun mikilvægara ræða áhrif skattaskjólanna og spyrja hvort þau styðji við heilbrigt atvinnulíf og samfélag – og svarið þarf að vera skýrt. Mitt svar er nei. Mun líklegra eru að þau grafi undan heilbrigðu atvinnulífi og samfélagi, skekki samkeppnisstöðu og auki ójöfnuð.
Skattaskjól snúast nefnilega ekki eingöngu um skattaundanskot þó að þau séu augljósasta birtingarmynd þeirrar meinsemdar sem skattaskjól eru. Aflandsfélög í skattaskjólum lúta öðrum reglum en innlend fyrirtæki, í skattaskjólum er regluverk oft lítið sem ekkert og hægt að halda leynd yfir starfsemi og eignum viðkomandi fyrirtækja.
Þegar kemur að skattsvikum þá hafa á síðastliðnum þremur áratugum verið gerðar að minnsta kosti fjórar skýrslur eða greinargerðir um umfang skattsvika á Íslandi. Sú síðasta kom í nóvember í fyrra og þar er talið að árleg skattaundanskot geti numið um 80 milljörðum. Hluti af þessum undanskotum fara fram í gegnum aflandsfélög en aðeins hluti. Ef þessi áætlun er nærri lagi má sjá að hæglega mætti byggja nýjan meðferðarkjarna fyrir Landspítala Íslands á einu ári fyrir þetta fé og fara langt í að gera heilbrigðisþjónustuna gjaldfrjálsa – svo að eitthvað sé nefnt.
Það er því til mikils að vinna, bæði hér heima og á alþjóðavísu.
Með því að taka virkan þátt í baráttunni á alþjóðavettvangi og taka undir kröfu hagfræðinganna 300 er hægt að ná fram breytingum á alþjóðavísu og breyta kerfinu þannig að það þjóni almannahagsmunum fremur en fámennum hópum auðmanna. Þannig verður unnt að styrkja velferðina í hverju samfélagi fyrir sig og auka jöfnuð.
Hagfræðingarnir hafa líklega rétt fyrir sér þegar þeir segja að engin efnahagsleg rök séu fyrir því að leyfa áframhaldandi tilvist skattaskjóla. Það sem skiptir þó ekki minna máli er að engin samfélagsleg og pólitísk rök eru fyrir tilvist skattaskjóla. A.m.k. ef litið er til stjórnmála þar sem almannahagsmunir ráða för, ekki sérhagsmunir.
Höfundur er formaður Vinstrihreyfingarinnar - græns framboðs.