Það gengur mikið á vegna þeirra upplýsinga sem komið hafa fram í dagsljósið með Panamaskjölunum svokölluðu. Ríkisskattstjóri, Skúli Eggert Þórðarson, segir að embættið muni opna tvö til þrjú hundruð ný mál, þar sem grunur leikur á undanskotum frá skatti.
Má rekja þetta meðal annars til upplýsingar í Panamaskjölunum en líka til gagnanna sem skattayfirvöld keyptu af huldumanni.
Skúli Eggert segir að þessar upplýsingar hafi skipt sköpum.
Á meðal þeirra sem voru með umsvifamikil viðskipti í gegnum aflandsfélög sem finna má í Panamaskjölunum eru dæmdir hvítflibbaglæpamenn sem voru umsvifamiklir í viðskiptum, einkum á árunum fyrir hrun fjármálakerfisins.
Þetta gefur vísbendingu um hversu víðtæk þessi starfsemi var. Að undanförnu hafa þjóðarleiðtogar, meðal annars Barack Obama Bandaríkjaforseti, talað fyrir mikilvægi þess að uppræta aflandsfélagastarfsemi þar sem hún þjóni engum tilgangi fyrir hagkerfi heimsins, og grafi undan þeim vegna leyndar og skattaundanskota í mörgum tilvikum.
Vonandi hafa íslensk stjórnvöld kjark til þess að fara af fullum þunga í gegnum öll gögn sem tengjast gruni um skattundanskot. Það er óþolandi þegar fólk reynir að koma sér undan því að greiða skatta, ekki síst á tímum þar sem endurreisnarstarf hefur verið í gangi.