Dr. Ngozi Okonjo-Iweala starfar nú sem aðalráðgjafi fjármálafyrirtækisins Lazard. Hún var á árum áður fjármálaráðherra Nígeríu og framkvæmdastjóri hjá Alþjóðabankanum (World Bank).
Ferill hennar er stórmerkilegur, og er hún álitin með allra áhrifamestu konum heimsins. Fortune nefndi hana meðal 50 áhrifamestu konum heimsins, og Time nefndi hana sem eina af 100 áhrifamestu einstaklingum heimsins. Svo eitthvað sé nefnt.
Það sem hún er einna þekktust fyrir, er að hafa leitt samninganefnd Nígeríu, fjölmennasta ríkisins Afríku með 190 milljónir íbúa, sem náði samingum við kröfuhafa landsins árið 2005. Þá voru skuldir endurskipulagðir, og afskrifaðar að hluta.
Í ræðu sem sá sem þetta skrifar, hlustaði á hana flytja í gær, fjallaði hún um mikilvægi stefnumörkunar og eftirfylgni í alþjóðastarfi og stjórnmálum. Hún sagði þetta mál, sem sjaldnast næðu fyrirsögnum, en samt væru engin mál á vettvangi stjórnmálanna mikilvægari. Sérstaklega væri þetta mikilvægt í ríkjum sem væru með hagkerfi sem væru að miklu leyti drifin áfram af náttúruauðlindum. Skýr langtímastefna þyrfti að þola álag og ágang frá hagsmunaaðilum.
Hún nefndi heimaland sitt Nígeríu sem dæmi, en einnig Brasilíu og Rússland.
Staða mála í Nígeríu þegar hún var fjármálaráðherra var um margt erfið. Fyrst var hún ráðherra á árunum 2003 til 2006 og síðan aftur frá 2011 til 2015. Spilling hefur verið risavaxið vandamál í Nígeríu áratugum saman, en miklar breyingar hafa þó orðið á innviðum og regluverki í landinu til hins betra á síðustu árum. Undanfarin misseri hefur óstöðugleiki verið nokkur vegna efnahagslegrar niðursveiflu, sem ekki síst er rakin til verðlækkunar á olíu. En innviðir landsins eru mun sterkari nú, en þeir voru fyrir áratug.
Okonjo-Iweala beitti sér af alefli fyrir stefnu sem miðaði að því að og styrkja markaðsbúskapinn, þannig að trúverðugur markaður gæti virkað í Nígeríu. Þetta þýddi í reynd, að stöðva misnotkun á markaði og byggja upp markað sem þjónaði almenningi betur.
Til lengdar litið er að það stórt mál fyrir Afríku. Þessi stefnumál eru meðal annars talin hafa átt mikinn þátt í því, að Afríka hefur framþróast hratt til hins betra á undanförnum árum, þó margir hafi ennþá ímynd af heimsálfunni, sem er tvöfalt fjölmennari en Evrópa, að þar sé viðvarandi ófriður og fátækt.
Dag einn, þegar Okonjo-Iweala var á leið til vinnu, fékk hún hringingu. Í símanum var maður sem sagðist vera með móður hennar í haldi. Hún yrði drepin, ef Okonjo-Iweala myndi ekki draga til baka lagabreytingarnar sem styrktu eftirlit með markaðnum og komu í veg fyrir áður umsvifamikil viðskipti. Þeir sem voru með móður hennar í haldi, hótuðu því að afhausa hana og fóru fram á að Okonjo-Iweala myndi segja af sér opinberlega. Eftir að hafa ráðfært sig við föður sinn, ákvað hún að verða ekki við því sem mannræningjarnir fóru fram á.
Í ræðunni var hún tárvot, þegar hún sagði frá þessu, og sagði þetta hafa verið verstu daga sem hún hefði lifað. En ástæðan fyrir því að hún vildi ekki verða við þessum óskum var sú, að hún óttaðist að þetta gæti haft gríðarlega alvarlegar afleiðingar í för með sér fyrir Afríku og framþróun álfunnar. Allir væru meðvitaðir um að uppbygging Nígeríu og álfunnar væri langhlaup, en það væri einmitt uppbyggingin á regluverkinu í gegnum stefnumótun sem þyrfti að þola álag. Veikleikamerkin mættu ekki koma fram, þegar mikið væri undir. Á þetta lagði hún mikla áherslu í ræðunni.
Hún setti sig í samband við lögreglu og sérsveit hersins, og á sama tíma og hún tilkynnti um að ekki yrði látið undan þrýstingi, þá var móðir hennar frelsuð í dramatískri björgunaraðgerð. Litlu munaði að illa færi.
Líklega eru ekki svo margir Íslendingar sem þekkja til Okonjo-Iweala, en þessi boðskapur hennar er afar mikilvægur og á erindi til Íslands.
Smáatriðin í stefnumörkun þjóða til langs tíma, eru stóru atriðin. Þau skipta miklu máli. Hin raunverulegu stjórnmál, eru þau sem snúast um að bæta stöðuna á grundvelli langtímasýnar og vel útfærðrar stefnu.
Stundum þarf hugrekki til að þess að framfylgja mikilvægum málum, þar sem miklir sérhagsmunir eru undir. En almannahagsmunirnir þurfa að ráða ferðinni, þegar öllu er á botninn hvolft. Allar hindranir á þeirri leið þarf skipulega að yfirstíga, svo heimurinn verði betri í dag en í gær.